Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Reið

$
0
0

Eftir unga skáldkonu sem vill ekki láta nafns síns getið:

Reið

Þú steigst í vænginn við mig eins og skotmaður á veiðum.
Læddist undan vindi, veittir þolinmóður eftirför, beittir öllum þínum brögðum.
Ég með mín grænu eyru, eins og dádýr í ljósgeisla, féll auðveldlega í valinn.

Svo lítið bæri á mótaðir þú mér nýjan veruleika – eftir þínu höfði.
Með lygum ofan á lygar leiddir þú mig í sannleikann – samkvæmt þér.
Ég var ekki sú sem ég var, heldur vond, feit, tepra.
Ég þurfti að breytast, aðlagast þér – strax.
Þú varst að gera mér greiða, annars væri ég ein.
Aðrir sem áttu hjá mér hlutdeild voru heldur ekki gott fólk og ekki velkomin að eyða mínum tíma.
Í nýja veruleikanum mínum var tíminn fyrir þig og aðeins þig.
Annars væri ég ein – hver annar myndi vilja mig?

Makinn þinn – ég var þín og þú sóttir þinn rétt.
Enginn á að þurfa að þola slíkan tepru- og freðýsuskap, ég skyldi taka mig á.
Mamma þín á daginn – klámstjarna á kvöldin.

Veiðimaður á reið.
Bráðin kyrr og þögul.

Í haldi sem hentar þér vel.
Þungi þinn kremur úr mér andann – aftur og aftur.
Verði þinn vilji, minn skiptir ekki máli.
En betur má ef duga skal litla freðýsa.
Þetta á að vera gott!
Þú ferð ekki að sofa fyrr en þú sýnir hvað ég er góður, og hana nú.
Annars fæ ég kannski eitthvað leiðindasamviskubit.
Enginn maður á að þurfa að hafa samviskubit yfir að fara á reið!

Vertu nú hlýðin og komdu fljótt. Ég þarf að fara að sofa.

Veiðimaðurinn er saddur.

Í bili.

Kyrr liggur bráðin.
Þögul renna tárin.
Skömmin klístrast út um allt.
Þvæst aldrei af.

Uss nei, ekki hugsa svona, hann er maðurinn þinn.
Hann á rétt á að fá sitt, annars fer hann annað á veiðar.
Eins og hann hefur margoft hótað.
Slökktu á hausnum og hjartanu, heimska, feita freðýsa.
Manstu, þú ert bara geðveik og rugluð.
Þú mátt ekki vera reið yfir reið!

Þú gafst mér lítil ljós, ég skal vera glöð og þakklát.
En í sérsmíðaða veruleikanum er ekki pláss fyrir ljós.

Ljósin trufla veiðina og reiðina – það sem gerist í myrkrinu.

Betur má ef duga skal.
Þú neyðist þá bara til þess að vera með tvær í takinu.
Eða þrjár.

Veiðimaðurinn fer aftur á ferð. Kannar sínar veiðilendur, mundar sitt gamla, góða veiðinet og finnur kunnuglega bráð. Notar sömu brögð. Fleiri falla í valinn.

Hann hjakkast og hjakkast og ríður sína reið.
Sveittur og klístraður – eftir veiði og reið.

Svo kemur þú til mín sem var stillt og beið.
Hjakkast og hjakkast og ríður þína reið.
Ókunnugir vessar leka af þér – niður eftir mér.
En nei ekkert svona, ég á að koma með þér.

Kyrr liggur bráðin.
Þögul, engin tár.
Bara sviti og klístur.
Og skömm.

Ég verð kannski aldrei hrein,
en ég er allavega ekki ein.

Það er líka bannað að vera reið eftir reið.
Þinn réttur og mín skylda.
Ég kallaði þetta jú allt saman yfir mig sjálf, ég hefði átt að vera betri.
Það var mér sjálfri að kenna að þú neyddist til þess að refsa mér.
Hvernig held ég eiginlega að það sé fyrir þig að þurfa að neyða þinn eigin maka til maka, það þarf sko pottþétt enginn annar í kringum okkur að þola slíkt ofbeldi í sínu sambandi!

Dagarnir líða og ljósin mín líða.
Veiðimaðurinn er þreyttur á þessari gömlu bráð.
Veiðimaðurinn er þreyttur á þessum litlu, tindrandi ljósum.
En veiðimenn sleppa ekki bráð.
Þeir rota, blóðga og slægja. Flá, holrista og hamfletta. Skilja ekkert eftir nema beinin.

Þú heldur mér fastri með að hóta og brjóta.
Þú lýgur og hjakkast, hjakkast og lýgur
– þar til ekkert er eftir nema beinin.

Kyrr liggur bráðin.
En reið.
Reið eftir enn eina reið.

Þá er þér nóg boðið – Hvernig dirfist ég að vera reið eftir réttmæta reið!
Þú pakkar bara niður og ferð þína leið.
Þú ert veiðimaður og átt rétt á þinni veiði -og þinni reið.
Nú skal mér refsað, nú fyrst fæ ég reið.

Ég flý burt með ljósin mín dýrmætu í öruggt skjól.
Ég er ein.
En ég er allavega ekki með þér.
Myrkrið tókstu með þér – þú mátt eiga það einn.

Ljósin mín skína skærar en nokkurn tíma fyrr.
Allt er fallegra í birtunni – ég er aftur ég.

Nú sé ég loksins búrið sem þú byggðir í kringum mig.
Nú sé ég loksins manninn sem byggði mér búrið.
Hvernig gat ég verið svona blind? Hvernig gat ég leyft þessu að gerast?

Og ég er ennþá reið eftir þína óréttmætu reið.
Ég er reið yfir að hafa þögul samþykkt – ár eftir ár.
Ég er reið því þú heldur áfram að veiða og ríða þína reið – við góðan orðstír.
Ég er reið því bráðirnar falla áfram í valinn þinn, hver af annarri.

Bráðin þín nýja verður fölari með hverjum deginum, hvað skyldi hún heyra í myrkrinu?

Ég er reið því hvert sem ég fer, alltaf skugginn af þér.
Ég er reið því klístruð skömmin fylgir mér enn um hvert fótmál.
Ég er reið því fyrir þér og þínum rétti á ég ekkert skjól.
Ég er reið því fyrir þér og þínum rétti eiga ljósin mín ekkert skjól.
Ég er reið því hér í mínu feðraveldisföðurlandi hef ég enga rödd.
Ég er reið því ef ég vernda ljósin mín frá skugganum þá er ég mæðraveldistík.

Ég er reið því þú kemst áfram upp með að koma fram vilja þínum.
Svo í einkalífi, sem hjá embættum. Verði þinn vilji.
Og allra annarra feðraveldiskarlakarla – að eilífu – amen.

Með lögum skal land byggja og konur kvelja.
Kyngið konur og kokgleipið – án þess að grenja.
Enginn hlustar á grenjandi kellingar.

Ég er reið yfir reið.
Ég er reið yfir öllum konunum sem afleiðingalaust…
Áfram þola reið.
Ég er reið yfir öllum körlunum sem afleiðingalaust…
Áfram ríða sína reið.
En mest af öllu…
Ég er reið yfir því að vera reið.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283