Róbert A. Stefánsson og Menja von Schmalensee skrifa opið bréf:
Í dag (12. júní 2016) birtist á visir.is frétt undir fyrirsögninni „Sjaldan eða aldrei meira um mink en nú“. Rakið er viðtal Jakobs Bjarnar, fréttamanns Vísis og Fréttablaðsins, við Birgi Hauksson minkaveiðimann vegna greinar okkar „Vöxtur og hrun minkastofnsins“ sem birtist nýverið í tímaritinu Breiðfirðingi. Í grein okkar drögum við í mjög stuttu máli saman hvernig minkastofninn á landsvísu og við Breiðafjörð virðist hafa náð hámarki rétt eftir aldamót, en svo fallið eftir það.
Í fréttinni virðast Jakob og Birgir halda að ályktanir okkar byggi nær eingöngu á veiðitölum (þótt fram komi í grein okkar að svo sé ekki), og er í fréttinni að finna setningar á borð við „Vargveiðimenn brosa af nýjustu fréttum úr fræðaheiminum“, „Þetta er tóm vitleysa“, „Er þessu fólki ekki sjálfrátt?“, „Ekki í nokkru samræmi við veruleikann“, „Þannig að, þetta er bara hlægilegt? Já, það má segja það“.
Við efum ekki að Birgir sé reyndur og góður minkaveiðimaður og að sú reynsla sem hann lýsir úr Borgarfirði og önnur dæmi sem hann nefnir eigi við rök að styðjast, enda kemur líka skýrt fram í grein okkar að „breytingar á afmörkuðum svæðum fylgja þó ekki endilega tilhneigingum á landsvísu“.
Það er hins vegar mjög miður og lýsir lítilli fagmennsku að visir.is birti slíkt viðtal án þess að gefa nafngreindum vísindamönnum sem rengdir eru í fréttinni færi á að koma mikilvægum staðreyndum á framfæri. Blaðamaðurinn reyndi ekki að ná tali af okkur fyrir birtingu fréttarinnar og hefur ekki hringt í okkur þegar þetta er ritað, þrátt fyrir að við höfum eftir birtingu fréttarinnar lýst yfir óánægju okkar við skrifstofu Fréttablaðsins.
Hið rétta í málinu er að ályktanir okkar byggja síður en svo á veiðitölum eingöngu, heldur einnig á áratuga rannsóknum á stofnvistfræði og fæðuvali minka á Íslandi. Í þeim tilgangi að skilja hvað hefur áhrif á minkastofninn hafa 3.745 minkahræ frá minkaveiðimönnum af öllu landinu verið krufin og margs konar mælingar gerðar á þeim, fæða úr 876 minkamögum verið greind, stöðugar samsætur (ísótópar) verið greindar í 317 minkum og um 300 minkar verið merktir til að kanna landnotkun og náttúruleg vanhöld. Stærð minkastofnsins á Snæfellsnesi var einnig metin árin 2001, 2002 og 2006.
Rannsóknir okkar o.fl. benda til þess að skömmu eftir aldamót eða um svipað leyti og veiðitölur tóku að dala, hafi orðið breytingar í minkastofninum á þann veg að holdafar versnaði, náttúruleg dánartíðni jókst, frjósemi minnkaði og fæðuval minka á Snæfellsnesi breyttist. Við höfum ályktað að minkum hafi almennt fækkað á landsvísu upp úr aldamótum og er það í samræmi við samtöl okkar við fjölda minkaveiðimanna um allt land, en sumir þeirra eru á meðal þeirra allra aflahæstu á landinu síðustu áratugi. Við teljum líkur á að breytingar hafi orðið á fæðuframboði fyrir minka, a.m.k. á sumum svæðum, sem gerir stofninum í heild erfiðara fyrir að ná fyrri hæðum, þótt ekki sé hægt að útiloka aðra orsakaþætti. Niðurstöður rannsóknanna hafa birst í opinberum skýrslum, ritrýndum fræðigreinum og einni doktorsritgerð.
Við teljum að gott samstarf milli vísindamanna og minkaveiðimanna sé ein af forsendum þess að ná auknum árangri í baráttunni gegn þeim náttúruspjöllum sem minkurinn kann að valda. Þar sem minkurinn er innflutt og ágeng tegund ber okkur samkvæmt alþjóðasamningum að takmarka tjón af hans völdum, og höfum við árum saman talað fyrir endurbótum á minkaveiðikerfinu.
Fréttaflutningur eins og sjá má í frétt Jakobs Bjarnar er ekki til þess fallinn að bæta samtalið milli vísindamanna og minkaveiðimanna, heldur getur slík umfjöllun aðeins grafið undan trúverðugleika og trausti beggja aðila og myndað gjá milli þeirra sem æskilegt er að vinni saman. Erfitt er að skilja hvað fréttamanni hafi gengið til.
Við erum að sjálfsögðu reiðubúin að ræða þetta mál eða skýra ályktanir okkar frekar og má beina fyrirspurnum eða umræðum í síma 898-6638.
Virðingarfyllst,
Róbert A. Stefánsson og Menja von Schmalensee.