Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Gefum táfýlusokk!

$
0
0

Fátt finnst mér athyglisverðara þessa síðustu daga en að fylgjast með forsetakosningunum. Ég vakna varla til morgunsins öðruvísi en að gá fyrst til sólarinnar og síðan til fylgis frambjóðendanna sem eiga það eitt sameiginlegt að vilja verma Bessastaði og gera sitt besta fyrir landið, miðin, tungumálið, friðinn, dansinn, skuldirnar og þjóðina alla rétt einsog hún leggur sig.

Elskulega, heppna Ísland með pottana sína og pönnurnar, fánann sinn fallega, fátæklingana, auðlindirnar, stjórnarskrána, gamlingjana, jafnréttið, bræðralagið, baráttuandann og þjóðarsáttina.

Við viljum Íslandi allt og allt hið besta, segja frambjóðendurnir okkar og eru allir meira og minna sannfærðir um að þeir kunni að kokka réttu uppskriftina sem felur í sér hamingju allra landsmanna.

*

Sólin hefur ekki hikað við að skína síðustu dagana. Hún breiðir úr sér einsog hún sé móðir alheimsins sem hún er auðvitað, hún þenur sig breiða og virðist elska alla jafnt – nema auðvitað hælisleitendur og flóttafólk sem við vísum frá eyjunni okkar sem við eigum ein – sumt fólk á það nefnilega til að menga og eðlilega eiga slíkar manneskjur að vera heima hjá sér og enda þótt þær eigi hvergi heima þá eiga þær ekkert að vera að abbast upp á okkur og okkar land.

Já, blessuð sólin, hún greinir á milli feigs og ófeigs. Hún vísar okkur öruggu Íslendingunum með vegabréfin og kennitölurnar í veskinu okkar áfram upplýstan veginn. Okkur sem eigum svo lifandis ósköp erfitt með að velja okkur forseta í góðan stól í grösugu túni. Þetta gerir sólin og hún hefur ekkert fyrir því nema að skína á réttláta jafnt sem rangláta, eða segir ekki svoleiðis í góðri hugmyndabók þar sem sólin tekur á sig líki konu.

En umfjöllunin um frambjóðendur til Bessastaðherbergjanna er hreint ekkert sólskin, í henni er í rauninni engin sól, í henni er bara endalaus sauðsvört samkeppni um keisarans lúsuga skegg – hvor er betri brúnn eða rauður, hver hefur skotið slysaskoti, hver er heiðarlegri en hinn, hver er skemmtilegri, gáfaðri, hreinskilnari, eðlilegri, hver er á facebook, instagram, hver á fallegustu börnin, hver er ellibelgur fortíðar, hver er æskuljómi framtíðar. Syndirnar eru tíundaðar og um þær er rætt bæði í heitum og köldum pottum. Ég nefni nokkrar, en ég bið menn að muna að ólíkt kjósendunum, með hreinan og glansandi skjöldinn sinn, þá eru sumir frambjóðendurnir auðvitað miklu, miklu syndugri en aðrir. Það gefur auga leið:

-Andri Snær hefur skrifað allt of fáar bækur.

         Aumingja skattgreiðendurnir.

         -Ástþór Magnússon var einu sinni jólasveinn.

         Aumingja fátæku börnin í útlöndum.

         -Davíð Oddson elskar vinnuveitendur sína.

         Aumingja útgerðin og skattaskjólin.

         -Elísabet Jökulsdóttir teiknar píkur í ljóðabókina sína. 

  Aumingja bókmenntirnar og myndlistin.

         -Guðni Th. Jóhannesson vill vera allra vinur.

         Aumingja óvinir hans og sagnfræðin. 

         -Guðrún Margrét Pálsdóttir trúir alltof mikið á Guð.

         Aumingja Jesú sem situr við hlið hans í himnaríki.

         -Halla Tómasdóttir var eitt ár í viðskiptaráði.

         Aumingja viðskiptaráð þegar hún gafst upp og hætti.

         -Hildur Þórðardóttir segir okkur borða of mikið af         lyfjum.

         Aumingja lyfjafyrirtækin.

         -Sturla Jónsson segir að bankarnir hafi svínað á lýðnum.

         Aumingja bankarnir.

Já, aumingja frambjóðendurnir okkar sem allir elska Ísland og allir vilja gera sitt besta, fleiri en einn og fleiri en tveir eru auðvitað ákaflega vel studdir af allskonar peningavaldi sem ekki sést – nema auðvitað þeir sem enginn peningur nennir að styðja og finnur engan gróður í eða hjá. Það er annars aldrei á blessaðan peninginn logið, hann leitar alltaf í skjólið sitt, þar sem hann finnur sjálfan sig fyrir. Peningurinn kann að spegla sig til hægri og til vinstri og hann speglar alltaf sína líka. Já, ég veit auðvitað að þetta er ekkert nýtt, þetta er eldgömul saga sem við mannfólkið höfum heyrt svo oft að við erum hætt að skilja hana.

Aumingja við sem fylgjumst með öllum samsæriskenningunum og syndum annarra. Aumingja við sem fáum ekki að að hugsa okkar gang. Það er nefnilega enginn friður undir átakasólinni, pólitísku kækjunum og kvalabekkjunum – okkur er skikkað til, við erum kjöldregin, við erum óttamötuð og við erum óttamettuð. Við eigum að kjósa einn svo annar fari ekki inn, við verðum að koma í veg fyrir þetta og í veg fyrir hitt, atkvæðið okkar er samviskan okkar, og samviska okkar, hinna syndlausu, skal vera hrein. Þetta heitir taktík. Við skulum kjósa taktískt. Við eigum alls ekki að hafa sannfæringu og við eigum alls ekki að hugsa um það sem frambjóðendurnir okkar, sem allir elska Ísland út af lífinu, standa fyrir. Nei. Okkar er óttinn og það er hann sem skal ráða. Hann hefur verið að okkur réttur og við skulum kokgleypa hann. Það er málið, við skulum kokgleypa óttann og við skulum trúa því að við séum að gera gagn og við skulum trúa því að við séum að gera rétt.

En er ekki komið nóg af þessum eldgamla og úldna söng. Óttinn er bara dúkka í fáránlegu sirkuslandi sem á ekkert skilt við “fannhvíta jöklanna tinda.” Vísum óttanum út á hafsjóinn sem við eigum auðvitað skilyrðislaust að eiga öll saman. Finnum okkur frambjóðanda án íhlutunar áróðursmaskínunnar hvaða nafni sem hún kann að nefnast og hversu mikinn pening sem sem hún hefur til að smyrja hjólin sín með og hvaðan sem peningurinn kemur. Og ef við finnum ekki okkar uppáhalds frambjóðanda getum við einfaldlega skilað auðu. Það er líka val. Val sem ber að virða.

Gefum táfýlusokk í hvað okkur er sagt að gera. Kjósum þann frambjóðanda sem okkur langar til að kjósa. Verum sjálfstætt fólk í frjálsu landi og sáum ekki í akur óvina okkar einsog kallinn gerði forðum allt sitt líf af því að hann var svo bjartur eyrnanna á milli haldandi að hann væri sjálfstæður maður. Heypum birtunni inn í sumarhúsin. Það er fallegt.

Veljum sannfæringuna!

Við eigum hana til!

Fram til sigurs!


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283