Einveran er unaðsleg. Ég afþakka heimsóknir og spinn afsakanir ef á þarf að halda, til að vera ein. Ég er sjálfri mér nóg og þarf á því að halda. Fyrirgefðu þú. Svona er ég bara. Ekki koma við.
Ég ligg og stari á skýin, bláan bakgrunninn. Það er dagur. Við stelpurnar einar heima, við stelpurnar erum eitt. Ég er ein með þeim, hver í sínu horni að sýsla, þær trufla enga einveru svona yfirleitt. Ekki koma í heimsókn.
Tónlistin ómar út um gluggann í bakgarðinum, ljúfir tónar, jazzinn er með mér einni, við saman. Svona vil ég hafa það. Ég og tónlistin, garðurinn, maturinn, bækurnar, grúskið mitt. Ég kem ekki til dyra. Fyrirgefðu. Ein og upptekin.
Það húmar að kveldi, ég kveiki á kertunum, hita kaffi. Ein með mér og engum öðrum. Hugsa um draumana, skrifa lítinn stúf. Horfi í spegil; vertu sönn. Hittumst seinna, þegar betur liggur á. Þykir það leitt … bara þegar mér hentar. Láttu þér vera sama.
Verð ég aldrei einmana? Hún læðist stundum að mér hugmyndin um ástina, einhvers staðar, einhvern tíma. En ég á aðra ást og strýk henni um vangann. Hún er einföld og krefst ekki mikils; vertu sönn. Við hittumst kannski síðar, einhvern tíma, einhvers staðar.
Ég er félagsvera, finnst fólk fínt svona yfirleitt þó ég velji í liðið mitt. Ég vil vel sitja með þér, spjalla við þig, borða með þér góðan mat og heyra það sem þér liggur á hjarta, segja þér frá mínu. Allt á sína stund og sinn stað, stundirnar mínar standa bara stundum örlítið ofar. Það kemur tími.
Kannski vil ég bara vera sönn, hlusta á hjartað og það sem það langar. Vera ein með slættinum og sinna mínu, elska augnablikið. Ég er löngu hætt að leika. Mig langar ekki þetta, mig langar hitt. Vertu sönn. Einvera, ég elska þig eins og þú ert …
… þú ert lykillinn að samveru við aðra.