Í nótt urðu fætur Fídel Castró, frægustu byltingarhetju samtímans, endanlega kaldir. Líklega er víða strítt grátið um Karabíska hafið og Latnesku Ameríku í dag.
„Ég er hættur að spila körfubolta,“ sagði Fidel Castro við mig þegar ég hitti hann á miklum fundi á Barbados, líklega 1994. Tilefnið var vitaskuld frægt boð hans árum fyrr þegar hann átti orðastað við Pétur Guðjónsson á fundi með stúdentum í Latnesku Ameríku.
Pétur, kjaftfor enda ættaður af Langanesi, var krítískur á kommúnismann á Kúbu. Í áheyrn allra helstu fjölmiðla heimsins afvopnaði gamla byltingarbrýnið hinn orðhvata Langnesing með því að bjóða honum í heimsókn til Kúbu, spila við sig körfubolta og sjá með eigin augum hversu kúbversk alþýða gengi fram undir stjórn hans og byltingarfélaganna úr Sierra Maestra fjöllunum.
Tilefni fundar okkar Castrós var fyrsti stóri alþjóðlegi fundurinn um tiltekna þætti umhverfismála hafsins. Ég var ungur umhverfisráðherra, líffræðingur að auki, og var sendur sem fulltrúi Norðurlandanna. Enginn átti von á Castró, en kallinn mætti, enda Kúba næsti bær við.
Castró var gömul hetja byltingarsinnaðrar æsku, og hafði storkað sjálfum Bandaríkjamönnum. Ég skalf næstum í hnjáliðunum þegar í ljós kom að fulltrúa Norðurlandanna var vitaskuld vísað til sætis við hlið Castró. Þar sátum við saman í einn og hálfan dag. Castró var kurteis maður og sat ráðstefnuna til enda.
Hetjuljóminn af honum var slíkur að mér fannst það dónaskapur þegar ég var látinn tala á undan honum. Fundarstjóri lagði sérstaka áherslu á að ræðumenn mættu aðeins tala í korter. Hann horfði þá strengilega á félaga Fídel, sem var frægur fyrir að halda blaðlausar fimm til sex tíma ræður. Byltingharhetjan talaði þó ekki sekúndu yfir korterið.
Galleríin voru full af fólki sem hafði komið til að sjá alþýðuhetju Rómönsku Ameríku. Fundarstjórinn sagði áður en Castró hóf mál sitt að galleríin mættu ekki láta í sér heyra, og yrðu rudd þegar í stað ef menn færu að klappa eða hrópa. Aðdáendur upphafsmanns latnesk-amerísku byltingarinnar fylgdu því fullkomlega, en þegar Castró lauk ræðu sinni þusti fjöldi vel haldinna og digurra karla og kvenna, flest við aldur, fram að handriðinu, steinþegjandi, og veifuðu stórum heimagerðum spjöldum sem stóð á: „Viva Fidel – Viva Cuba.“
Castró var umkringdur lífvörðum, og enginn lagði í að tala við hann nema strákur úr Norðurhöfum. Hann sagðist ekki tala ensku. Spurningar mínar til hans voru samt ekki þýddar, svo hrafl skildi hann a.m.k. – en svörin voru þýdd.
Ég notaði Pétur og heimsfræg orðaskipti þeirra til að brjóta ísinn og spurði hvort hann væri enn að spila körfubolta. Þá brosti félagi Fídel, sagðist semsagt orðinn slappur í hnjánum, og hættur að spila körfubolta.
Þetta var einsog tveir sveitamenn væru að hittast á förnum vegi í borginni og notuðu tækifærið til að spyrja eftir köllum úr sveitinni. Ég spurði út í Ché og Castró lauk þessu samtali með ógleymanlegri spurningu:
„Hvernig hefur hann Pétur það annars?“