Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Aðventujátning

$
0
0

Ég fann að þetta yrði ekki skemmtilegt áður en ég fór að setja kransinn saman. Ég tæmdi úr innkaupapokanum og starði á grenið, vírinn, kertin, skrautið og könglana. Sjálft fordyri jólaskreytingahelvítisins. Ég gekk sjálfviljug inn.

Þetta varð hálfs annars tíma nauðungarvinna sem ég sinnti fyrr en varði ein, enda sáu börnin strax hrópandi tilgangsleysið í þessu og flugu til merkari starfa.

Það er augljóst að jólabarnið í mér er steinbarn. Kransinn minnir helst á Goodyear hjólbarða í þeirri yfirstærð sem karlmenn með veika sjálfsmynd kjósa sér. Kertin fjögur eins og út úr kú og vemmileg gerviber og chilipipar sem eiga að vera til skreytingar liggja í kös eins og einhver hafi kastað upp eftir hráfæðiveislu.

Ég veit ekki af hverju ég var að gera mér þetta – ég gæti rétt eins lagst flötum beinum á naglabeð og beðið fjölskylduna að leggja á mig farg.

Það er eitthvað að … mér. það er eina skýringin.

Ég hafði mjög gaman af því að búa til aðventukransa þegar ég var stelpa. Ég fékk kennslu í kransagerð há Sillu frænku, listakonunni Sigurlaugu Jóhannesdóttur sem er enn í mínum huga ókrýnd drottning aðventukransanna. Hún var örlát á tíma sinn, alltaf kát og nennti að leiðbeina mér þegar ég var komin í öngstræti með grenið, sveppina og köngladruslurnar. Sæludagar með Sillu – maður gleymir því aldrei ef einhver er artarlegur við mann sem barn. Kransinn bar ég svo stolt heim til pabba og mömmu sem hrósuðu mér í hástert, hann var settur á stofuborðið og voru þá upptaldar skreytingarnar á mínu bernskuheimili.

Ég er ekki lengur barn.

Kannski er ég að reyna að vera í jólastuði fyrir börnin mín. Ég man að mér fannst það svolítið leiðinlegt hvað mamma var lítil jólamanneskja. Hún þreif reyndar ógurlega vel fyrir jólin, pússaði ættarsilfrið, keypti nýtt á rúmin, en það var eins og hún væri pískuð áfram af ósýnilegum þrælahaldara og alveg laust við að hún hefði gaman af þessu. Á Þorláksmessu keypti hún stundum grenibúnt og slengdi greinum bak við spegla og málverkin í stofunni eins og hún væri að refsa innanstokksmununum fyrir heimtufrekjuna.

Börnin okkar hafa ekki minnst á það einu orði að við bökum, föndrum eða skreytum. Þau þekkja ekkert slíkt, þekkja bara tveggja daga amerísk jól. Þau eru ekkert að fara fram á neitt fjandans jólastuð.

Kannski er ég bara að reyna að gleyma því hvað mér líður illa og hvað ég er hrædd. Ég er hrædd um manninn minn og fyllist angist vegna veikinda hans oft á dag. Þegar maður óttast að tíminn verði tekinn frá manni verður kyrrðin svo þrúgandi. Til að forðast kyrrðina er best að vera önnum kafin og þá á ég við – að gefa sér aldrei augnabliks séns til að draga andann. Ég er eirðarlaus og á ofsa hraða og vil hafa læti í kringum mig; útvarpið í gangi, barnahjörðina gólandi og gluggana opna svo ég heyri í umferðinni og rokinu. Ég geri allt hratt. Ég borða hratt, tala hratt og botna setningar fyrir aðra – ef mér finnst þeir ekki hugsa eða tala nægilega hratt. Ég tók eftir því í gærmorgun að ég bursta tennurnar eins og það sé ólympísk keppnisíþrótt, ég SKAL ná upp betri meðaltíma!

Ég vil enga kyrrð og enga andskotans þögn – því þar býr sársaukinn – og ein leið til að hafa hemil á honum er að kasta sér á bálið og fuðra upp í snarkandi jólaskreytingavítinu.

Gleðilega aðventu!


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283