Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Brosandi allt til loka!

$
0
0

Saga klæðskiptinga er býsna löng og þótt hún sé kannski ekki jafnlöng sögu mannkyns (um það veit maður náttúrulega ekkert!) spannar hún engu að síður allnokkrar aldir; hefur þó yfirleitt á sögulegum tíma verið troðið í afkima menningarinnar og haldið þar í rökkrinu. En dæmi má finna úr grískri, hindúískri og norrænni goðafræði, hinu japanska dansleikhúsi, kabuki, sem og kóreönskum shamanisma. Dæmin eru sumsé býsna víða.

hannesogsmari-stor

Í okkar menningu og nær okkar tíma mun það hafa verið þýski kynfræðingurinn Magnus Hirschfeld sem bjó til hugtakið transvestit (=klæðskiptingur), sem byggir á “trans” latínunnar, sem þýðir “yfir” eða “skipti” og “vestis”, sem merkir “klæðnaður”. Þetta var í upphafi tuttugustu aldarinnar og Hirschfeld hafði verið að leita að hugtaki sem lýsti áráttu fólks að klæðast eins og hitt kynið af kynferðislegri þörf, óháð kynlöngun. Hann var þó ekki ánægður með hugtakið þegar til kom. Hann áleit að klæðnaðurinn væri aðeins ytri birtingarmynd sem táknaði mismunandi hugarástand persónuleikans. Hvað sem því leið, fól valdataka nasista og seinni heimsstyrjöldin í sér endalok rannsókna Hirschfeld og rannsóknir á mannlegri kynhegðun lá að mestu niðri þar til kom að sjöunda áratug síðastliðinnar aldar. Nú á tímum ku hugtakið klæðskipti fjalla minna um kynhneigð fólks en vilja til að tjá persónuleika sinn sem óháðan njörvaðri greiningu í annað hvort kynið. Það er kannski önnur umræða – en þó er eins og mér þyki þeir Hannes & Smári – og Ólafía Hrönn & Halldóra – hallast meira að þessari nútímalegu skilgreiningu en upphaflegri meiningu hugtaksins hans Hirschfeld.

En það er ekki fyrr en með jafnréttis- og frelsisbaráttu HBT-fólks á síðustu áratugum að klæðskiptingar hafa farið að koma fyrir almennings sjónir, vonandi lausir úr viðjum þeirra menningarkima sem þeim var gert að felast í, og með því er vonandi farið að sjá fyrir endann á viðhorfskúgun í garð bæði klæðskiptinga og annars fjölbreytileika í kyngalsageiranum.

En hin magnaða og merkilega saga klæðskiptinga er reyndar fjölbreyttari en svo að hún verði einungis einungis skoðuð útfrá sjónarhorni þöggunar, kúgunar og andspyrnu. Hér gefst auðvitað ekki rými til að ræða það til hlítar, en ef litið er til dæmis til leikhússins og horft eins og aðeins eina öld aftur í tímann (og þar áður má tala um sirkus og markaðsskemmtanir) hafa klæðskiptingar ávallt átt sér eins konar fríhöfn þar – leikhúsið hefur skapað úr þessum menningarkima ákveðna tegund húmors og í besta falli ádeilu, sem hefur leitt af sér aukið umburðarlyndi gagnvart klæðskiptum og klæðskiptingum sem og öðrum þeim kyngalsa sem HBT-fólk er í forsvari fyrir. Það sem hefur brugðið af frá norminu hefur hvatt til breytinga, framfara og aukins skilnings og umburðarlyndis. Á heildina litið hefur það vonandi leitt til betra samfélags.

screen-shot-2016-12-07-at-10-03-57

Klæðskiptingar geta auðvitað gengið í tvær áttir: konur klæðast eins og karlmenn og karlmenn klæðast eins og konur; hið síðastnefnda er kannski það sem við þekkjum helst til – það nægir að nefna Tony Curtis og Jack Lemmon í kvikmynd Billy Wilders, Some like it hot, þar sem Marilyn Monroe lék þriðja aðalhlutverkið. Þá þekkja margir til Dame Edna, en á bakvið hennar gervi leynist ástralski leikarinn Barry Humphries. Eins má minna á óborganlega senu í Life of Brian með Monty Python þar sem kastað er fyrsta steininum í bersyndugu konuna og loks má nefna þá David Walliams og Matt Lucas í Little Britain, sem bregða sér iðulega í kvengervi, gjarnan af óviðkunnanlegra taginu. Þessar klæðskiptingar, þar sem karlar bregða sér í kvennagervi, eiga sér líka rætur í hinu elísabetanska leikhúsi Shakespeares, en þar léku drengir og ungir karlmenn kvenhlutverkin, þar sem konum var meinað að leika á leiksviði.

Þekktustu konur í nútímasögu vestrænni sem klæddust eins og karlmenn voru vitaskuld George Sand; það má í sömu andrá nefna Gertrude Stein og Alice B. Toklas, sem hnikuðu til mörkum hins viðurkennda þegar kom að kynhlutverkum og karlmannsklæðnaði kvenna. En það má líka minna á, að þessar konur áttu sér forgöngukonur: á tímum 30 ára stríðsins, sautjándu öldinni, dulbjó sig þónokkur fjöldi kvenna sem hermenn og tóku þátt í styrjöldum og öllu öðru hervafstri, sennilega til að losna við þær félagslegu og kynferðislegu kvaðir sem borgarlegt hjónaband hefði lagt þeim á herðar. Og ekki má gleyma okkar eigin Þuríði formanni, sem fékk meira að segja sérstakt sýslumannsleyfi til að klæðast karlmannsfötum!

screen-shot-2016-12-07-at-10-04-07

 

Nóg um það. Að þessum sögulegu dæmum til tíndum má auðvitað spyrja sig, hver tilgangurinn sé að kalla karaktera á borð við Hannes & Smára upp á svið. Hvað hafa þeir fram að færa, sem getur bætt og kætt samfélagið í samræmi við sögu forvera þeirra í búningi?

Það er auðvitað ákveðinn húmor fólginn í því að tvær konur – hinar bráðsnjöllu eðalleikkonur Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Halldóra Geirharðsdóttir – bregði sér í karlagervi og meira að segja geri þá að hinum verstu karlpungum, ómeðvituðum þó. Þeir eru bara gúddí gæjar, vilja bara tjá hvað þeir gera góða músík, þeir vilja spila sína músík og ef konur vilja bæði vinna úti og sjá um heimilið þá er engin ástæða til að stoppa þær í því.

Á yfirborðinu myndum við sennilega kalla þann húmor þorrablótslegan og sem slíkan sakleysislegan. Hann á sér rætur í klæðskiptingaleikjum eins og t.d. skátaforinginn Baden-Powell varð frægur fyrir. (Baden-Powell var iðinn klæðskiptingur á yngri árum og tróð upp á skemmtunum innan áhugaleikhúss og síðar hersins og saumaði gjarnan sína eigin búninga. Þetta kemur málinu ekkert við og er einfaldlega einskisnýtur fróðleikur!).

screen-shot-2016-12-07-at-10-04-20

En Hannes & Smári ganga ívið lengra í þessari sýningu og sá sem hér skrifar hefur sterkan grun um að þar gæti áhrifa frá samvinnu leikstjórans, Jóns Páls Eyjólfssonar og Halldóru Geirharðsdóttur, sem fyrir fáum árum unnu saman í leikhópnum Mindgroup, sem setti upp að minnsta kosti þrjár magnaðar og kröftugar leiksýningar í Borgarleikhúsinu þar sem samfélagsástandið var brotið til mergjar. Hannes & Smári láta sér nefnilega ekki nægja að viðra skoðanir sínar á stöðu kynjanna og samskiptum þeirra – enda kannski í frekar vondri aðstöðu til þess – heldur sýna þeir líka tilburði til að taka á stéttasamfélaginu, aðstöðumun barna til lífsgæða og framtíðar velferðar og ýmsu fleiru í þeim dúr.

Hér hefði þó vel mátt ganga mun lengra en gert er í sýningunni. Þeir Hannes & Smári tæpa á afleiðingum stéttskiptingar, þeir vitna til eigin bernsku og komast að því að börn og börn búa ekki við sama hlutskipti. Efnið er að sönnu eldfimt – við erum nýbúin að fá fregnir af ofbeldi og kynferðismisnotkun á börnum sem voru undir vernd og í umsjá ríkisins og kaþólsku kirkjunnar, stéttasamfélagið lifir góðu lífi og er bara hresst jafnvel þótt við viljum á okkar tímum afneita því og telja okkur trú um að við séum bara í góðum gír og Ísland bestasta land í heimi. Hér hefði mátt skerpa hugmyndafræðina, fara út á ystu nöf og draga áhorfendur með sér, knýja þá til afstöðu og leyfa klæðskiptingnum að berjast úr þeirri lágstöðu sem samfélagið þröngvar henni/honum í. Þegar kemur að þessum kafla er eins og sýningin vilji brjótast úr því boxi þar sem þeir Hannes & Smári hafa komið sér fyrir, en það er eins og það takist ekki fullkomlega, þessi útbrotstilraun endar á því að sýningin festist endanlega í boxinu sínu og tilraunin til breytinga þar með dæmd til að falla um sjálfa sig. En þetta eru kannski aðfinnslur út í hött; þó verður ekki hjá því komist að varpa fram þeirri spurningu, hvort ekki hefði mátt vinna öðruvísi með þann hluta sögunnar þegar sagt er frá þegar “þeir” nauðguðu móður Hannesar. Frásagnartækni leikhús felur í sér val á sjónarhorni og um leið og það hefur verið valið, eru dæmd úr leik öll önnur sjónarhorn. Um leið er leikhúsið “bara leikhús”, það er ekki alvöru, og þess gætir kannski sérstaklega, þegar leikhúsið spilar með hefðina; hér með því að konur leika karla. En þegar tvær konur leika karla, sem segja frá því þegar kona er beitt ofbeldi – breytir það ekki á einhvern hátt eðli sögunnar? Þetta er víðfeðmari spurning en svo að henni verði gerð réttlát skil í stuttri gagnrýni – en undirritaður leyfir henni þó að koma fram; geri svo hver upp við sig.

screen-shot-2016-12-07-at-10-04-29

Þær Ólafía Hrönn og Halldóra eru báðar frábærar leikkonur. Þær ráða yfir þeirri leiktækni sem krefst til að leika karla og það þannig að nálgast fullkomnun. Vissir kækir þeirra beggja sýna að þau hafa þrælstúderað atferli og félagshegðun karla og samspilið milli þeirra er eins karlmannlegt og það getur frekast orðið. Blekkingin er nánast fullkomin og það er eingöngu vegna þess að við áhorfendur vitum að þetta eru þær Ólafía Hrönn og Halldóra, sem við sjáum þær á bakvið gervi Hannesar og Smára; mér er til efs að áhorfendur sem aldrei hafa séð þá Hannes & Smára sjái að á bak við búninga og gervi leynast tvær konur.

Þær hafa sér til aðstoðar tvo feikigóða krafta; fyrsta skal telja Elmu Stefaníu Ágústsdóttur, sem birtist eins og utanaðkomandi skráveifa (þær voru kallaðar svo, í gamla daga, stúlkurnar sem seldu leikskrár í forsal leikhúsanna. Prýðilegt slanguryrði), en verður fyrr en varir hluti af sýningunni. Með hlutverki hennar leikur leikhúsið sér að sjálfu sér og það er náttúrulega í stíl við efnið. Hver er og fer í gervi hvers? Auk þess fer Elma Stefanía á kostum í “rómantíska kaflanum”, því atriði, þar sem dregið er dár að hugmyndum okkar um hina rómantísku ást.

Kolbeinn Orfeus Eiríksson er tólf ára gamall trommuleikari, sem Hannes hefur fengið til að hressa upp á tónlistarflutninginn. Það er að mörgu leyti vel til fundið og Kolbeinn Orfeus er viðkunnanlegur leikari og hörkugóður trommuleikari. Það hefði þó mátt gera meira úr hans hlutverki og tengja það fastar við sögu þeirra tvímenninga, Hannesar & Smára. Sagan hefði örugglega orðið bragðmeiri og sterkari fyrir vikið.

Sem fyrr segir eru aðfinnslur kannski út í hött og jafnvel óviðeigandi. Áhorfendur skemmtu sér konunglega, sýningin er fjörleg hvað sem líður allri hugmyndafræði og hún heldur meira að segja fúlum gagnrýndanda brosandi við efnið allt til loka.

Borgarleikhúsið í samstarfi við Leikfélag Akureyrar: Hannes & Smári
Leikstjórn: Jón Páll Eyjólfsson
Leikmynd og búningar: Brynja Björnsdóttir
Lýsing: Magnús Helgi Kristjánsson
Tónlist: Hannes & Smári
Hljóð: Baldvin Þór Magnússon og Þórður G. Þorvaldsson
Leikendur: Ólafía Hrönn Magnúsdóttir, Halldóra Geirharðsdóttir, Elma Stefanía Ágústsdóttir, Kolbeinn Orfeus Eiríksson.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283