Kristján Berg Ásgeirsson, betur þekktur sem Fiskikóngurinn, er enginn aðdáandi áróðurs Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi ef marka má nýjust færslu fyrirtækisins á Facebook. Þar gagnrýnir Fiskikóngurinn málatilbúning Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur, sem er ný framkvæmdastýra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, fyrir andstöðu samtakanna gegn því að fiskur fari á markað. SFS er þrýstihópur stórútgerðarinnar og hefur það að hlutverki að verja pólitíska hagsmuni kvótahafa.
„Þetta er svo mikið bull í henni,“ skrifar Fiskikóngurinn á Facebook og hlekkir í viðtal Viðskiptamoggans við Heiðrúnu. Heiðrún segir í samtali við Morgunblaðið að „einn af styrkleikum íslensks sjávarútvegs og það sem hefur gert hann samkeppnishæfan í harðri samkeppni við aðrar fiskveiðiþjóðir er að það er samþætti fiskveiða og vinnslu.“ Í öðrum orðum segir framkvæmdastjóri SFS að samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs reiði sig á að stórútgerðin sitji báðum megin við borðið og geti verslað við sjálfa sig innbyrðis án þess að markaðslögmál komi þar að.
Þetta gagnrýnir Fiskikóngurinn og segir dellu. „Þeir eru samkeppnishæfari til þess að selja fiskinn erlendis, vegna þess að þeir geta boðið fiskinn á lægra verði, heldur en almennir fiskkaupendur á fiskmarkaðinum, vegna þess að þeir fá afslátt frá okkur landsmönnum öllum,“ skrifar Fiskikóngurinn. Hann útlistar í löngu máli hvers vegna framsaga framkvæmdastýru SFS sé „bull“.
Sjá einnig: Lénskerfi nútímans
Í færslunni segir:
- Línufiskur er verðmætastur og af dagróðrabátum. Nýjasti fiskurinn er af dagróðrabátum. Útgerðin er ekki með marga dagróðrabáta á sínum snærum. Útgerðin er yfirleitt með stóra togara sem eru 1-7 daga úti á sjó.
- Aðrir fiskkaupendur sem kaupa fisk á markaði, kaupa nýjan fisk og þeir fá því hæsta verðið. Þeir eru búnir að búa til ferskfisk-markaði sem útgerðin er að sækjast í, í dag og undirbjóða verð sem „litlu aðilarnir“ á markaðinum, þar að segja þeir sem eiga ekki útgerð/kvóta eru búnir að búa til.
- Það slitnar ekki nein keðja. Fiskurinn fer á markað, þeir fá fiskinn sem greiða hæsta verðið. Þeir selja þeim sem greiða hæsta verðið og vilja besta fiskinn. Mjög einfalt. Markaðslögmál sem gildir þar.
- Það er bara réttlát fyrir íslenskt samfélag að fleiri fái að njóta kvótans, íslensks fisk sem syndir í kringum Ísland, ekki fáir útvaldir.
- Ég á engan kvóta, ég þarf að sinna mínum viðskiptavinum dags daglega og Íslendingar eru kröfuharðir á gæði. Ef ég get rekið mitt fyrirtæki á því að kaupa allan minn fisk á fiskmarkaði og selja til minna viðskiptavina, þá hlýtur stórútgerðin að geta það líka… eða er það ekki?
- Stórútgerðin vill ekki að fiskurinn fari á fiskmarkað, vegna þess að þá þarf að vigta fiskinn á fiskmarkaðinum og það hentar þeim ekki. Fá betri vigt sem þeir vigta sjálfir í sínu húsi. Þeir þurfa heldur ekki að greiða sjómönnunum eins há laun ef þeir landa hjá sjálfum sér, vegna þess að þeir hafa verðið lægra til sín heldur en verðið er á fiskmarkaðinum.
- Þeir eru samkeppnishæfari til þess að selja fiskinn erlendis, vegna þess að þeir geta boðið fiskinn á lægra verði, heldur en almennir fiskkaupendur á fiskmarkaðinum, vegna þess að þeir fá afslátt frá okkur landsmönnum öllum.
Finnst ykkur, fólkinu í landinu réttlátt að fiskurinn fari ekki á fiskmarkaðinn?
Fiskikóngurinn spyr hvort stórútgerðin eigi að halda á öllum spilunum „og draga okkur landsmenn á asnaeyrunum og hirða allan gróðann af þessu.“ Hann spyr hvort útgerðin eigi að stjórna veiðum, eiga kvótann, stjórna sölunni og hirða gróðann! „Er þetta óréttlát krafa fyrir okkur Íslendinga að við fáum að njóta auðæfanna sem eru á þessu landi og synda í kringum okkar land. Íslendingar, þið þurfið að fara að vakna, áður en það verður of seint. Það er réttlæti að allur fiskur fari á markað.“
Nafn Kristjáns var í Panamaskjölunum
Í færslunni segir Fiskikóngurinn að textinn sé skrifaður af einstaklingi sem aldrei hafi átt kvóta, vilji ekki eiga kvóta og kaupi allan sinn fisk á fiskmarkaði. Hann vilji aðeins að allir sitji við sama borð þegar kaupa á inn íslensk fisk sem veiddur sé við Íslandsstrendur. Sjálfur var Kristján þó í Panamaskjölunum og hefur opinberlega gefið þá skýringu að hann vildi komast hjá því að greiða skatt af sölunni á fiskibúðinni Vör til danska ríkisins. „Ég seldi fyrirtækið mitt, Fiskbúðina Vör, og flutti til Danmerkur þar sem skattar eru sextíu og eitthvað prósent. Ég var með einkabankaþjónustu í Lúxemborg og þeir ráðlögðu mér þetta. Ef ég hefði verið skattaður í Danmörku hefði öll vinna mín síðastliðin 25 ára farið í danska ríkið. Og ég hafði voðalega lítinn áhuga á því. Ég borgaði skatta af sölunni á Íslandi en ég vildi ekki fara með peningana til Danmerkur út af skattinum. Ég ætlaði ekki að láta danska ríkið hirða af mér restina,“ sagði Kristján í samtali við Fréttatímann og Reykjavík Media á sínum tíma.
Þá kemur fram að hann hafi lagt peningana inn á félag í Seychelle eyjum og svo tapað því í hruninu. „Ætli ég hafi ekki tapað svona 200 milljónum á hruninu. Ég flutti svo bara aftur til Íslands og er bara búinn að vinna baki brotnu síðan. Ég kann ekkert í fjárfestingum; ég er bara fisksali og hef alltaf bara verið það. Ég treysti öðrum mönnum til að gefa mér ráðleggingar um þetta. Ég vissi ekki betur á þessum tíma en að þetta væri í lagi. Ég var þrjátíu og tveggja ára og hélt ég gæti bara hætt að vinna og lifað á þessum peningum. Það er leiðinlegasta starf sem ég hef verið í,“ er haft eftir honum í umfjölluninni.
Tekið skal fram að Kristján virðist sá eini í hópi fisksala sem Fréttatíminn og Reykjavík Media ræddu við sem taldi sjálfsagt mál að fara yfir það hvers vegna nafn hans væri þarna. Áberandi er í umfjölluninni hve margir telja eign sína í skattaskjóli einkamál þeirra.