Þegar jólin nálgast þá rennur upp tími spennu- og glæpabókmennta. Vinsældir þeirra ár eftir ár sýna að Íslendingar geta einfaldlega ekki staðist góða fléttu. Norrænar spennusögur passa svo vel inn í skammdegið og kuldann sem umlykur allt yfir háveturinn. Í samstarfi við útgefendur þá fékk Kvennablaðið lista yfir sex bækur sem ættu að kæta alla aðdáendur góðra bóka.
Sjá einnig: Íslenskar bækur um fortíð, framtíð og smákökur í nútíð
Botnfall eftir norska höfundinn Jørn Lier Horst er um yfirlögregluþjóninn William Wisting. Afskornir fætur reka á land í litlum smábæ og William fer á stúfana. Horst er margverðlaunaður rithöfundur og hefur meðal annars unnið Glerlykilinn eftirsótta.
Bráð eftir Magnús Þór Helgason fjallar um Svein, sænsk-íslenskan jarðfræðing. Morð er framið þar sem hann vinnur á Skarðsheiði og hann þarf að standa í stappi við að sanna sakleysi sitt.
Sjöunda barnið er dönsk saga eftir Erik Valeur um hneykslismál í yfirstétt Danmörku. Leyndarmál, feluleikir og yfirhylmingar. Sjöunda barnið vann Glerlykilinn sem besta glæpasaga Norðurlanda.
Á meðan ég lokaði augunum fjallar um eina verstu martröð foreldra, barnsrán. Í umfjölluninni fyrir neðan má finna tengil í kafla úr bókinni.
Einfari eftir Hildi Sif Thorarensen hefur tengsl við Noreg, Bandaríkin og Ísland. Spennusaga með húmor sem heldur manni við lesturinn.
Nýja Breiðholt dregur upp framtíð í Reykjavík án laga og reglna. Þetta er fyrsta skáldsaga Kristjáns Atla og vísar hann í minni Íslendingasagna um blóðhefndir í drungalegu umhverfi.
NÝJA BREIÐHOLT eftir Kristján Atla
Hvað myndum við gera ef allt færi á versta veg, ef Ísland myndi einangrast frá umheiminum og innviði hins siðmenntaða samfélags myndu hrynja á einni nóttu? Hvernig myndum við bregðast við og hverjir myndu erfa landið?
Þessum spurningum leitast rithöfundurinn Kristján Atli við að svara í fyrstu skáldsögu sinni, Nýja Breiðholt. Auk þess að vera greining á nútímasamfélagi fléttast söguþættir saman í nýstárlega spennusögu þar sem hver er sjálfum sér næstur og blóðhefndin ríkir að sið hinna fornu Íslendingasagna. Nýja Breiðholt er óvenjuleg og spennandi skáldsaga sem kannar hvert íslenskt nútímasamfélag stefnir með því að skoða hvað við eigum á hættu á að glata.
Í Reykjavík þrjátíu árum eftir flóttann mikla þar sem helmingur þjóðarinnar flúði land og skildi eftir borg án stjórnkerfis, skipulags og yfirvalda þurfa þau sem eftir sitja að reyna að bjarga sér með því sem þau hafa, en þurfa að berjast fyrir sínu og jafnvel útdeila eigin réttlæti. Eftir flóttann hafa innviðir borgarinnar smám saman brotnað niður og einni kynslóð síðar er lítið um nútímaþægindi eins og rafmagn, bifreiðar og þjónustustörf. Reykvíkingum hefur verið varpað aftur á miðaldir og þar mæta þeim ýmsar áskoranir við að reyna að koma upp skikkanlegu samfélagi á nýjan leik.
Í þessu umhverfi gengur raðmorðingi laus. Hann rænir ungum konum úr Breiðholtinu og þegar hann nemur hina ungu Mónu á brott hrindir hann óafvitandi af stað atburðarás sem mun breyta landslagi hinnar nýju Reykjavíkur. Númi, einstæður faðir Mónu þarf að leggja allt í sölurnar til að bjarga henni og saga hans fléttast saman við sögu hinnar undarlegu Brittu sem hefur sérstakan áhuga á máli feðginanna. Saman steypa þau öllu á annan endann en gjörðir þeirra ógna viðkvæmum stöðugleika borgarinnar og gætu leitt til blóðugra átaka valdaafla á milli.
„Hér var einu sinni fólk. Út um allt, fólk. Búið í hverju húsi, bílar í hverri götu, svo mikið að stundum stoppaði allt. Bílar sátu fastir, fólk stóð í biðröðum, tróð sér jafnvel þúsundum saman eitthvert til að horfa á tónleika eða íþróttir. Samvera var það dýrmætasta sem hægt var að njóta en það áttaði sig enginn á því fyrr en fólkið var farið. Nú söknum við bara, það er það eina sem við gerum. Við söknum.“
Hvað myndir þú gera ef veröldin í kringum þig myndi hrynja á morgun? Velkomin í Nýja Breiðholt, farðu varlega!
Gefin út af Draumsýn bókaforlagi
EINFARI eftir Hildi Sif Thorarensen
Einfari er ólík hefðbundnum skandinavískum sakamálasögum að því leyti að þrátt fyrir mikla spennu þá er húmorinn aldrei langt undan. Uppbygging bókarinnar skapar sögunni sérstöðu með því að flétta saman lögreglurannsókn og ólíkum sjónarhornum sögupersóna. Með þessu móti tekst höfundi að setja á svið ógnvekjandi spennutrylli með einstökum persónum.
Ljóslifandi lýsingar og listilega skrifuð samtöl gera söguna mjög skemmtilega en höfundur bókarinnar hefur jafnframt einstakt lag á íslensku máli og er flæði textans til fyrirmyndar. Þetta er bók sem enginn ætti að láta framhjá sér fara og síst þeir sem vilja lesa vel skrifaða spennusögu yfir hátíðirnar.
Einfari er gefin út af Óðinsauga útgáfu
MEÐAN ÉG LOKAÐI AUGUNUM eftir Lindu Green
Á meðan ég lokaði augunum
Einn, tveir, þrír….
Lísa Dale lokar augunum og byrjar að telja upp að hundrað, í feluleik með dóttur sinni. Þegar hún opnar augun er Ella, fjögurra ára gömul dóttir hennar, horfin. Það finnst hvorki tangur né tetur af henni. Lögreglan, fjölmiðlar og fjölskylda Lísu halda allir að þeir vita hver tók Ellu. En hvað ef sá sem tók Ellu er ekki ókunnugur? Hvað ef sá sem tók hana er sannfærð/ur um að það hafi í raun verið góðverk að taka hana? Og hvað ef þessi litla, saklausa stúlka á það á hættu að hverfa fyrir fullt og allt?
Á meðan ég lokaði augunum, eftir Lindu Green, hefur slegið í gegn á þessu ári. Hún fór í efsta sæti metsölulista Amazon í Bretlandi og búið er að selja réttinn á bókinni til fjölmargra landa um allan heim. Þessi bók er ekta sálfræðilegur spennutryllir þar sem við kynnumst sjónarhorni þriggja einstaklinga sem allir koma við sögu í ráninu á Ellu litlu.
Hér má sjá nokkra dóma um bókina:
„MJÖG spennandi bók um hvarf á litlu barni, ég almennt er EKKI hrifin af því að lesa bækur sem fjalla um lítil börn en ég get sagt ykkur með sanni að það er ekkert að óttast. Lesist.“
– Kollster á Goodreads
„Þetta er sálfræðitryllir sem fjallar um verstu martröð allra foreldra – um það þegar barn hverfur. Ég get varla sagt að bók sem fjallar um svona atvik sé auðvelt að lesa, en höfundurinn hleypir sögunni áfram á snarpan hátt sem gerir lesturinn spennandi og áhugaverðan. Öruggur lestur, hraður og ótrúlega spennandi.“
– Susan á Goodreads
„Spennan verður nánast óbærileg – og svo eru óvænt flétta í lokin sem lokar sögunni á sannfærandi hátt. Hræðilega möguleg saga sem mun fá alla foreldra sem lesa hana til þess að vera varir um sig – og sína!“
– Sunday Mirror
Hér má sjá fyrri umfjöllun Kvennablaðsins um bókina og útgáfuna Drápu.
Hér má sjá umfjöllun um rithöfundinn Lindu Green ásamt kafla úr bókinni.
Meðan ég lokaði augunum er gefin út af Drápu forlagi
Facebook síða Drápu forlags
SJÖUNDA BARNIÐ eftir Erik Valeur
í þýðingu Eiríks Brynjólfssonar
Sjöunda barnið er margverðlaunuð spennusaga eftir danska rithöfundinn Erik Valeur.
Börnin sjö áttu eitt sameiginlegt – þau fæddust á fæðingargangi B á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn. Öll voru þau flutt í Fílaherbergið á hinu fræga og virta ungbarnaheimili Konungslund strax eftir fæðingu. Næstu mánuði fundu konurnar á Konungslundi fjölskyldur sem ættleiddu börnin. Þau uxu úr grasi víðs vegar um Danmörku án minnstu vitneskju um hvert annað og sameiginlega fortíð þeirra. Eitt barnanna, það sjöunda, komst smám saman að leyndarmálunum um uppruna þeirra. Uppruna sem átti að halda leyndum hvað sem það kostaði.
Kona fannst látin á ströndinni milli Skodsborg og Bellevue, skammt frá barnaheimilinu Konungslundi. Það var fyrsta skrefið í margslunginni atburðarás þar sem hulunni er svipt af örlögum barnanna sjö og þeim sem báru ábyrgð á þeim. Höfðu ungfrúrnar á hinu mikilsvirta barnaheimili Konungslundi leynt hneykslismálum manna úr efstu stigum þjóðfélagsins í hálfa öld? Voru ættleiðingarnar aðferð til að fela hliðarspor frægra og háttsettra feðra með ungum konum sem var vikið til hliðar?
Hér má sjá tilnefningar, verðlaun og umsagnir um bókina:
- Tilnefnd til Ísnálarinnar fyrir bestu þýddu glæpasöguna 2016 – þýðandi er Eiríkur Brynjólfsson
- Besta norræna glæpasagan – Glerlykillinn 2012
- Bókmenntaverðlaun Weekendavisen
- Bókmenntaverðlaun Danska ríkisútvarpsins
- Verðlaun Danske Bank fyrir bestu frumraun höfundar
„Skáldsaga, sem er svo góð að ég hlakka til að lesa hana aftur.“
– Weekendavisen, René Gummer
„Ein besta danska skáldsagan sem hefur verið gefin út í mörg ár.“
– litteratursiden.dk
„Framúrskarandi skáldsaga.“
– 5 stjörnur – Vejle Amts Folkeblad
„Grípandi og dramatísk frumraun Erik Valeurs… Hún er meiriháttar!“
– 5 stjörnur – Berlingske Tidende, Niels Houkjær
„Mögnuð og flott frumraun.“
– 5 stjörnur – Ekstra Bladet
Gefin út af Draumsýn bókaforlagi
Facebook síða Draumsýnar bókaforlags
BRÁÐ eftir Magnús Þór Helgason
Magnús Þór Helgason gaf nýlega út bókina Bráð, fyrstu spennusögu sína. Hann sinnti skrifum í baði og í lestinni til og frá vinnu. Að sögn Magnúsar kviknaði hugmyndin að sögunni þegar hann lá í baði og rifjaði upp sumur sem unglingur í sveit þar sem allir voru góðir og hjálpsamir. Slíkar aðstæður voru því kjörið sögusvið fyrir spennandi glæpasögu.
Bókin fjallar um Svein, sænsk-íslenskan jarðfræðing, sem stundar jarðfræðirannsóknir á Skarðsheiði. Þegar morð er framið í sveitasælunni breytist hugguleg sumardvöl hans í óvænta og óhugnanlega atburðarás. Lögreglan sinnir ekki starfi sínu sem skyldi og er Sveinn grunaður um morðið. Sveinn þarf sjálfur að finna sönnunargögn til að sanna sakleysi sitt.
Sagan er spennutryllir og gefur íslensku spennusagnaflórunni nýjan blæ þar sem lesandinn fær ekki strax að vita hver það er sem er myrtur og fær því að upplifa atburðarásina fram að morðinu ásamt því taka þátt í úrlausn málsins.
Bráð er gefin út af Óðinsauga útgáfu
Facebook síða Óðinsauga útgáfu
BOTNFALL eftir Jørn Lier Horst
Hvað gerir yfirlögregluþjónn þegar fjóra afhöggna vinstri fætur rekur á ströndina í litlum bæ í Vestfold?
William Wisting, yfirlögregluþjónn, hefur aldrei upplifað slíkt áður en hefur grun um að þetta geti tengst gömlum mannshvörfum. Aldraðir menn og geðsjúk kona hafa horfið skyndilega. Vissu þau eitthvað sem þau máttu ekki vita? Metsölu- og verðlaunahöfundurinn Jørn Lier Horst, höfundur Botnfalls, er einn besti glæpasagnahöfundur Noregs. Hann vann meðal annars Glerlykilinn 2013 fyrir bókina Veiðihundarnir. Í starfi sínu sem yfirmaður í rannsóknarlögreglunni hefur hann verið í hringiðu norskra sakamála og reynsla hans í starfi skín í gegnum skrif hans í bókinni.
„Mjög hugmyndarík og spennandi.“ Kurt Hanssen, Dagbladet
„Aftur slær Horst í gegn.“ Terje Stemland, Aftenposten
„Frábær glæpasaga“ Morten Abrahamsen, VG
Botnfall er fjórða bókin um yfirlögregluþjóninn William Wisting sem Draumsýn gefur út og njóta bækurnar um hann sífellt meiri vinsælda hér á landi sem og erlendis. Bækurnar eru nú gefnar út í 25 löndum og í Noregi hafa rúmlega milljón bækur um William Wisting selst. Hafin er framleiðsla á sjónvarpsþáttaröð sem byggir á sex bókum um William Wisting og er Botnfall ein þeirra bóka.
Gefin út af Draumsýn bókaforlagi
Facebook síða Draumsýnar bókaforlags
Umfjöllun unnin í samstarfi við : Drápa forlag, Draumsýn bókaforlag og Óðinsauga útgáfa