Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

„Hættið að snýta ykkur ofan í pottana“

$
0
0

Um daginn, í eintómu bríaríi, tók ég bókaskápana mína í gegn. Ég var fyrir löngu búin að týna öllu sýstemi niður og fann því ekki neitt.

Ein og ein bók var tekin niður í einu, skoðuð fránum augum, ég var jafnvel að ímynda mér að Óli frændi, sá sem var upphaflegur eigandi bókasafnsins, hefði falið þarna gersemar sem fór lítið fyrir en voru í dýrmætari kantinum, eins og frumútgáfur Þórbergs og Laxness.

Viti menn, hvað haldið þið að hafi bara gossað í lúkurnar á mér?

Helga Sigurðardóttir skrifaði lítinn bækling um „Bökun í heimahúsum“ árið 1934 og hún lá þarna steinhaldandi kjafti fyrir hunda og manna fótum. Fyrirlitleg framkoma Íslendinga í gegnum aldirnar varðandi bækur.

Enívei.

Ég get ekki látið hjá líða að birta hér nokkur gullkorn úr bók Helgu Sigurðardóttur, „Bökun í heimahúsum“, frá því herrans ári 1934. Svona áður en hún fer í bókaskápinn aftur. Er búin að grandskoða þessa litlu bók og er orðin margs fróðari.

Bókin er stútfull af fordómum gagnvart fátækum konum og snobbið og yfirlætið er það sama og í nútímanum. Afsakið á meðan ég æli.

Yfirlætið svífur yfir vötnum.

En ekki ætla ég að taka af Helgu Sigurðardóttur allt sem hún gerði fyrir íslenskar húsmæður. Seinna kom svo hin frábæra bók „Matur og drykkur“ og hún er enn í fullri notkun.

Helga var barns síns tíma.

Við byrjum á kaflanum „Ýmsar leiðbeiningar“. Helga kann greinilega margt fyrir sér varðandi hina ólíklegustu hluti sem eiga sér stað í eldhúsi. Hún segir:

„Hjartarsalt: Hjartarsalt er hvítt duft og er mjög sterkur þefur af því. Hentast er að geyma það í glasi með glerloki. Það er mest notað í smákökur.“

Það er rétt hjá Helgu þetta með hjartarsaltið og lyktina. Ég varð beinlínis veik sem stelpa þegar amma mín lét mig þefa af því. Og hvað með öll þessi ílát sem Helga er alltaf að nefna? Áttu íslenskar húsmæður alls kyns blikk-, járn- og glerdósir með varíerandi lokum á lager? Maður spyr sig? Áfram heldur eldhússérfræðingurinn:

„Að geyma eggjahvítur: Eggjahvíturnar eru geymdar á köldum stað og er örlitlu af salti stráð yfir þær eða köldu vatni helt yfir þær.“

Hér var ekki ísskápunum fyrir að fara nema á örfáum herrskapsheimilunum, þess vegna var allt sem þurfti að kæla látið út í vetrargaddinn.

Þetta fer með mig. Á maður að hella vatni yfir eggjahvíturnar bara sisvona? Eyðileggjast þær ekki þegar vatnið blandast saman við? Hef ég misst af einhverju í öllum þeim tímum í efnafræði sem ég skrópaði í? Alltaf lærir maður eitthvað nýtt. Og svo kemur ein sturluð ráðlegging hér, annar gullmoli:

„Margir hyggja, að fyrirhafnarminna og ódýrara sé að kaupa allt brauð í brauðbúðum. Vera má, að áhyggjum og ýmsum örðugleikum sé létt af húsmæðrum á þann hátt. En ef því verður við komið, er hentugra, kostnaðarminna og skemmtilegra að baka heima, auk þess er heimagert brauð miklu betra, ef bakstur og tilbúningur lánast vel.“

Helga kemur með hagnýtar upplýsingar:

„Hveiti: Það er nauðsynlegt hverri húsmóður, að nota gott hveiti. Mér hefir reynzt amerískt hveiti bezt. Ekki má geyma hveitið á votum eða rökum stað…. Er það háttur „fljótfærinna og óreglusamra“ húsmæðra, að mæla af handahófi. En slíkt kann aldrei góðri lukku að stýra.“

Bókin er skrifuð til kvenna sem er auðvitað ekki undarlegt á þessum tíma. Það er samt óneitanlega broslegt á stundum. Þetta með fljótfærnu og óreglusömu húsmæðurnar hitti mig beint í solar plexus, ég átti það til að mæla af handahófi og er því ein af þeim sem Helga skrifar um hér, þ.e. subba, sóði og letihaugur.

Auðvitað skil ég að hreinlæti var oft ekki sterkasta hlið Íslendinga, en ei- hvegin held ég að það hafi verið kallarnir sem snýttu sér í skyrtulafið eða bara þar sem þeir stóðu.

Nú er ásökunartónn Helgu Sig að færast niður um nokkur stig. Ég gríp niður í ráðleggingar Helgu:

„Að þeyta rjóma: Gæta ber þess, að rjóminn sé kaldur og þykkur. Er hann látinn í vel þurrt og hreint ílát og þeyttur, þangað til hann er svo þykkur, að hann drjúpi ekki af þeytaranum. Gæta þarf þess að þeyta hann ekki of mikið, því að þá aðskilst hann og verður að áfum og smöri.“

Þurrt og hreint ílát, ég vil beina því til ykkar, unga fólk í nútímanum, ekki setja rjómann í hrákadallinn (ef hann er til nútildags). Svo má ekki kúka í hrærivélaskálina. Gætið að því.

Hér er svo sem ekkert merkilegt og öðruvísi á ferðinni annað en það að Helga hnykkir á með að ílátið skuli vera vel hreint. Ég veit ekki hvernig hreinlæti var háttað á þessum tíma en ráðleggingar um hrein ílát, hægri-vinstri, eru eins og rauður þráður í gegnum þessa skemmtilegu bók.

Og áfram. Helga er praktísk húsmóðir. Hún býr til sitt eigið stöff:

„Lyftiduft: 200 gr. vínsteinsduft (kremor tartan) 100 gr. natron, 15 gr. hjartarsalt, 15 gr. hrísmjöl. Allt er þetta sáldað 5-6 sinnum. Geymt í glasi með glertappa (ekki í blikkíláti). Ger þetta er ódýrara og betra en það sem keypt er í búðum.“

Vei þeirri húsmóður sem hefur keypt notað ger úti í búð. Ég er orðlaus. Er virkilega hægt að búa til sitt eigið ger?

Bara svo þið vitið það, kæru „húsmæður“, hvað við höfum það gott. Árið 1934 þurfti virkilega að hafa fyrir hlutunum. Helga, þessi mæta kona, sem hefur bjargað mörgum eldhúsfrömuðinum með bókinni sinni, Matur og drykkur, ásamt þessari kökubók hér, skrifar í blíðum móðurlegum tón með smá uppeldislegu ívafi. Hún minnir okkur á þá nauðsynlegu staðreynd að skortur á hreinlæti og galgopaháttur verði ekki liðinn í hinu hefðbundna íslenska eldhúsi.

„Að hræra deig: Sama er til hvorrar handar deig er hrært. En gæta skal þess, að hræra ekta sandköku ætíð til sömu handar. Eftir að hveiti og lyftiduft er komið saman við má ekki hræra það meira en nauðsyn krefur.“

Ég er svo forviða. Þarna er komin skýringin á endemisfrægð minni sem floppari á bökunarsviðinu. Ég hef ALLTAF hrært sandköku til beggja handa! Hehe ,ég skil varla orð af þessu fyrirkomulagi. Skil orðin en bökunarheimurinn er mér framandi. Og að lokum:

„Að smyrja brauð: Bezt er að smyrja brauð með eggi, sem hrært er saman við mjólk eða vatn. Einnig má gera það með hrærðri eggjahvítu. Hentast er að gera það með pensli.“

Hefur konan aldrei heyrt talað um smjör?? Var þetta viðbitið anno 1934? Kona spyr sig. Rosalega eru tímarnir breyttir.

Konur hljóta að hafa verið að í húsmóðurdjobbinu 24/7. Þetta hefur verið þrælahald. Þarna er nánast allt gert frá grunni. Konur búa meira að segja til sitt eigið lyftiduft, súkkat og fleira. Nánast allt sýnist mér.

Nú legg ég þessa fróðlegu bók Helgu Sigurðardóttur aftur inn í bókaskápinn og er orðin mun upplýstari um aðstæður húsmæðra á þessum árum. Það er svo margt hægt að lesa á milli línanna.

Það er best að taka það fram einu sinni enn að Matreiðslubók Helgu Sigurðar er „the book“ fyrir byrjendur í matargerð.

Ég set út á þetta eilífis hreinlætistuð, neita að trúa þessu eilífi tuði um hrein ílát nema annað komi í ljós.

Það er nefnilega ekki bara Helga Sigurðardóttir sem tuðar stöðugt um hreinlæti.

Þetta hefur beinlínis verið lenska og það segir mér bara eitt. Íslenskt eldhús var ekki mjög upptekið af hreinlæti á þessum árum.

I am sorry, but not SO sorry.

Tökum íslenska suðusúkkulaðið sem hefur verið til eftir því sem elstu muna. Utan á þeirri pakkningu stendur eftirfarandi:

Notkunarreglur:

Þar stendur orðrétt: gætið þess að ílátin sem notuð eru beri ekki keim af neinu sem áður var í þeim soðið. Gætið þess ennfremur að mjólkin sé hress.

Dísúsfokkingkræst í súkkulaðibollanum.

Meira seinna.

Moi

Farin að elda kálböggla, villingarnir ykkar.

Nostalgían í hámarki.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283