2. apríl er alþjóðadagur einhverfunnar en blár er einkennislitur hennar. Styrktarfélagi barna með einhverfu stendur fyrir söfnun fyrir sérkennslugögnum handa börnum með einhverfu en 1 af hverju 88 barni fæðist með röskun á einhverfurófi. Kvennablaðið hvetur alla til að leggja þessu átaki lið.
Um heim allan taka fyrirtæki og stofnanir einnig þátt í vitundarvakningu um einhverfu með því að baða byggingar sínar í bláu ljósi, en blár er litur einhverfunnar.
Hægt er að styrkja málefnið með því að hringja eitt lauflétt símtal í 902-1010 og þá renna 1000 kr. sjálfkrafa í átakið.
Allt starf Styrktarfélags barna með einhverfu er unnið í sjálfboðavinnu og renna því framlög almennings óskipt til málefnisins.
Athyglisverðar staðreyndir um einhverfu:
· 1 af hverju 88 barni fæðist með röskun á einhverfurófi.
· Hjá drengjum eru líkurnar 1 á móti 54 – fimm sinnum meiri en hjá stúlkum.
· Einhverfa er fötlun – ekki sjúkdómur (algengur misskilningur) og því ólæknandi.
· Það skiptir sköpum fyrir einhverfa að fá viðeigandi þjálfun eins fljótt og hægt er.
· Einhverfir eru jafn misjafnir og þeir eru margir – alveg eins og við hin.
Allar ljósmyndir af bláum byggingum eru teknar áhugaljósmyndaranum Bjarna Ómari Guðmundssyni. Bjarni hefur fengist við ljósmyndun síðan 1998 og verk hans hafa birst í auglýsingum og tímaritum m.a. í Icelandic Times. Hér má skoða fleiri myndir eftir Bjarna.