Guðrún Pétursdóttir flutti þessa ræðu á Austurvelli þann 5. apríl 2014
Komið þið sæl
Hér erum við hér enn einn laugardaginn, þessi fjölbreytti hópur, vegna þess að við getum ekki annað, við þorum ekki annað en að halda stjórnvöldum við efnið – við vitum að ef við slökum á klónni þá halda þau að þau séu sloppin – að við höfum gefist upp, það sé úr okkur allur vindur – eða hvaða nafni sem menn nefna það þegar þeir halda að veðrið sé yfirstaðið og þeir geti haldið áfram þar sem frá var horfið – eins og ekkert hafi í skorist.
Það er ekki svoleiðis. Auðvitað greinir menn á um málefni og leiðir, en leikreglur lýðræðis eru þær, að menn segja satt og rétt frá því hvað þeir standa fyrir svo kjósendur geti gert upp á milli þeirra á þeim forsendum. Grundvöllur lýðræðisins er að menn segi rétt til sín – enginn á að þurfa að kaupa kött í sekk – við eigum að vita hvern við erum að kjósa – við veljum menn af því að þeir eru skásti kosturinn.
En að þeir ljúgi til nafns, þykist aðrir en þeir eru, dýfi loppunni í hveiti áður en þeir stinga henni gegnum gáttina – það kemur ekki til mála. Traust er undirstaða allra heilbrigðra viðskipta – án trausts molnar undirstaðan undan okkur og skaðinn sem af því hlýst er meiri en nokkur getur séð fyrir. Þarna duga ekki skammtímalausnir – við erum að tala um fordæmi til langrar framtíðar.
Það leikur enginn vafi á hvað stjórnarliðar sögðu fyrir kosningar um framhald viðræðna við Evrópusambandið – það var margítrekað. Ég játa að ég lagði eyrum ekki sérlega við því sem framsóknarmenn sögðu, en ég veit hverju frambjóðendur sjálfstæðisflokksins lofuðu – ekki bara einn frambjóðandi eða einhver frambjóðandi – heldur lofuðu bæði formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins og aðrir núverandi ráðherrar því ítrekað, án fyrirvara, að framhald aðildarviðræðna yrði borið undir þjóðaratkvæði á þessu kjörtímabili. Afdráttarlaus afstaða til eins mesta hagsmunamáls þjóðarinnar um þessar mundir. Þessi eindregna afstaða skipti þúsundir kjósenda meginmáli – hafði afgerandi áhrif á hvernig þeir kusu.
Það er fullkomlega óásættanlegt að þingmenn hagi sér eins og unglingar í tölvuleik þar sem málið gengur út á það eitt að komast yfir hindrunina – vinna borðið yfir á næsta stig eins og kosningar gangi út á það eitt að ná kjöri – sama hvaða aðferð er beitt – tilgangur kosningarloforða sé sá einn að koma manni á þing – efndir skipti engu. Tilgangurinn helgi meðalið – ef menn komist ekki til valda með því að segja satt, þá megi alltaf reyna að villa á sér heimildir.
Við getum ekki látið þetta viðgangast – það kemur ekki til mála. Nú reynir á úthaldið, því ef við stöndum ekki þessa vakt alla leið, þá beygjum við okkur undir þessi vinnubrögð. Það megum við ekki gera. Það getum við ekki gert. Og það gerum við ekki! Þess vegna erum við hér.
Við erum mörg sem eigum það sammerkt að hafa ekki gert upp hug okkar um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Einfaldlega vegna þess að við vitum ekki hvað er í boði. Við viljum fá að sjá samninginn – við viljum ekki láta segja okkur hvernig hann geti eða geti ekki orðið – það verði aldrei hægt að opna þennan pakka eða hinn – það verði aldrei komið til móts við kröfur Íslendinga – og svo framvegis og svo framvegis. Allur þessi viðtengingarháttur endalaust! Þetta er ónýtt hjal – það eina sem skiptir máli er að menn leggi sig alla fram um að ná besta mögulega samningi fyrir þjóðina og síðan verði sá samingur borinn undir okkur öll til samþykktar eða synjunar. Undir þá niðurstöðu beygjum við okkur öll. Það er lýðræðið – að fá að kjósa vitandi vits. Flóknara er það ekki.
En það verður enginn samningur borinn undir þjóðina ef handfylli stjórnamálamanna ákveður að skera á strenginn, stöðva ferlið. Ef við fáum aldrei að sjá þennan samning af því að þeir vilja það ekki. Ætlum við að sætta okkur við það? Ég segi NEI – hvað er að þeim – hvernig dettur þeim það í hug!
Og að halda því fram að menn geti ekki leitað bestu samninga af því að þeir séu persónulega á móti aðild er ekki trúverðugt. Það er eitt af því sem fylgir lýðræðinu, við vinnum að því sem meirihlutinn kýs og við leggjum okkur öll fram. Að segja eins og þingkona framsóknarflokksins, að þeir muni þá sjá til þess að íslenska samninganefndin verði svo illa mönnuð að hún geti ekki sinnt sínu hlutverki og gætt hagsmuna þjóðarinnar – það er … hvað getur maður sagt? Ætli maður verði ekki að teygja sig eftir orðabókinni og tékka á skilgreiningunni á orðinu Landráð.
Víst hafa mótmæli okkar þegar borið árangur – enda má minna gagn gera. Hér höfum við staðið við hliðina á landsins penustu mönnum – öfum – sem eru í Rótarý – atvinnurekendur á Íslandi – og eins traustir og dagurinn er langur. Þessir menn hafa staðið hér og barið grindverkin sem lögreglan lagði okkur til – aftur og aftur – hafa aldrei fyrr um sína daga tekið þátt í opinberum mótmælum– en hér eru þeir nú, að mótmæla aðgerðum ríkisstjórnar, sem þeir til skamms tíma töldu sig styðja. Ég hef hitt hér margan genetiskan sjálfstæðismanninn sem aldrei hefur kosið annað – en eins og einn þeirra sagði við mig: „Ég hef ekki breyst – en flokkurinn minn fór frá mér. Ef menn ætla blygðunarlaust að ganga á bak orða sinna er ég farinn! Ég samþykki það aldrei!“
Þessir menn eru ekki að berjast fyrir persónulegum hagsmunum sínum – þeir eins og við – bera hag Íslands fyrir brjósti – mín kynslóð fer rétt bráðum undir græna torfu – við erum ekki á leiðinni út á vinnumarkaðinn – en það taka aðrir við, og það er skylda okkar að tryggja að þeir eigi eins góðra kosta völ og mögulegt er. Það gerist ekki ef stjórnvöld ganga um skellandi í lás.
Ég sagði að víst hefðu mótmæli okkar borið einhvern árangur – það er aðeins farið að rofa til – menn eru farnir að muldra eitthvað um að kannski hafi þeir farið of hratt í þetta. Og meira að segja vottur af muldri um mögulega atkvæðagreiðslu – og þá kemur taka tvö – því nú á að taka snúninginn hvernig þeirri atkvæðagreiðslu verður háttað.
Það skiptir máli að hverju þjóðin verður spurð og hvernig spurningarnar verða orðaðar. Stundum trúi ég ekki mínum eigin eyrum þegar ég hlusta á fréttir eða les viðtöl við ráðherra og forsvarsmenn á þingi. Ég horfi furðu lostin á skjáinn og hugsa – manninum getur ekki verið alvara.
Svoleiðis tilfinningu fékk ég um daginn þegar ég hlustaði á formann utanríksimálanefndar Birgi Ármannsson ræða mögulega spurningu til þjóðarinnar. Honum tókst að blanda inn í þetta vangaveltum um það hvort menn hefðu viljað hefja viðræður við ESB 2009 – og hvort menn vildu efla EES samstarfið … Það er eins og menn hafi farið á námskeið í þjóðaratkvæðagreiðslum á Krímskaga – svona hvort viltu vera étinn núna eða seinna – spurning.
Þarf þessar flækjur? Veriði hugrakkir alþingismenn! Ekki leita að nýjum leiðum til að svíkja loforð ykkar. Ekki vera svona hræddir við vilja þjóðarinnar. Þetta er einfalt mál: spurjiði hreint út: Viltu að samningaviðræður við ESB verði til lykta leiddar?
Ég segi JÁ!