Einni ástsælustu leikkonu þjóðarinnar Hönnu Maríu Karlsdóttur var sagt upp á dögunum af nýráðnum Borgarleikhússtjóra Kristínu Eysteinsdóttur. Hún hefur leikið yfir 70 hlutverk á ferlinum. Hanna María er ein fimm leikara sem sagt var upp. Hanna María er á 66. aldursári. Leikaranum Theodór Júlíussyni var einng sagt upp en hann er á 65. aldurári. Félag íslenskra leikara hefur mótmælt uppsögnunum sökum þess hve stutt er að Hanna María og Theodór komist á eftirlaunaaldur.
Kristín Eysteinsdóttir lét hafa eftir sér í Dagblaðinu:
„Þessar breytingar hafa í raun ekkert með aldur að gera, heldur er þetta fyrst og fremst fagleg ákvörðun sem á auðvitað að skoðast á þeim forsendum. Ég er að taka þessa ákvörðun út frá ákveðinni endurstillingu á leikhópnum og er bara að skoða leikhópinn út frá þeim verkefnum sem liggja fyrir næstu árin.“
Hanna María Karlsdóttir lauk námi frá Leiklistarskóla Íslands árið 1978. Hanna María hefur verið fastráðin hjá Leikfélagi Reykjavíkur í 32 ár og sat í stjórn félagsins 2001-2003.
Hanna María hefur leikið hlutverk m.a. í eftirfarandi sýningum: Djöflaeyjunni, Þrúgum reiðinnar, Dómínó, Mávahlátri, Öndvegiskonum, Söngleiknum Ást, Fjölskyldunni, Faust og Ofviðrinu. Hún dansaði einnig hlutverk Nönu í Through Nana‘s eyes, með Íslenska dansflokknum.
Hanna María leikstýrði einleiknum Sigrúnu Ástrós. Hjá LA lék hún í Stálblómum og Tobacco Road.
Hanna María hefur leikið í fjölda kvikmynda og má þar nefna Gullsand, Einkalíf, Agnesi, Börn, Sveitabrúðkaup, Kóngaveg og 101 Reykjavík en Hanna María var tilnefnd til Edduverðlauna fyrir hlutverk sitt í þeirri mynd og einnig fyrir hlutverk sitt í Sveitabrúðkaupi.
Hanna María hlaut Grímuna sem besta leikkona í aðalhlutverki árið 2005 fyrir hlutverk sitt í Héra Hérasyni og tilnefningu fyrir hlutverk sitt í Degi vonar.