Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Þorsteinn Víglundsson telur landsdóm svartan blett á Alþingi

$
0
0

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, telur að dómur sögunnar muni fara mýkri höndum um Geir H. Haarde og ríkistjórn hans en dómur Landsdóms gefur til kynna. Þetta kemur fram í athugasemd Þorsteins á Facebook vegna frétt af afnámi gjaldeyrishafta. Geir H. Haarde var dæmdur fyrir brot á ákvæði stjórnarskrár sem setur þá kvöð á herðar forsætisráðherra að hann ræði mikilvæg mál á ráðherrafundum. Geir var ekki dæmdur til refsingar og er í dag sendiherra Íslands í Washington.

„Fyrir þátt allra þeirra ríkisstjórna sem komu að setningu og framkvæmd neyðarlaganna er vert að þakka. Þar ber ekki hvað síst að þakka Geir Haarde og ríkisstjórn hans fyrir þann vegvísi sem neyðarlögin reyndust vera út úr einni dýpstu efnahagskreppu sögunnar,“ skrifar Þorsteinn. „Ég hygg að dómur sögunnar um þá ríkisstjórn og viðbrögð hennar við kreppunni muni verða mun betri en um Landsdómsmálið sem verður í mínum huga ávallt svartur blettur í sögu þingsins.“

Þorsteinn segir endurreisn íslensks efnahagslífs raunar lokið með losun hafta á fjármagnsflutningum. „Fullt afnám gjalderyishafta er mikið fagnaðarefni og afar mikilvægt skref fyrir almenning og íslenskan efnahag.. Afnámið markar tímamót og segja má að þar með sé að fullu lokið endurreisn íslensks efnahagslífs eftir hrunið 2008. Það er heiður að fá að taka þátt í þessu mikilvæga lokaskrefi. Það er raunar með ólíkindum hversu sterkum fótum íslenska hagkerfið stendur nú aðeins rúmum átta árum síðar,“ skrifar ráðherra.

Tilkynnt var á sunnudag að öll fjármagnshöft á einstaklinga, fyrirtæki og lífeyrissjóði verðai afnumin með nýjum reglum Seðlabanka Íslands um gjaldeyrismál. „Þótt höftin hafi verið nauðsynleg hefur hlotist talsverður kostnaður af þeim, sérstaklega til lengri tíma litið. Fyrst um sinn höfðu þau töluverð áhrif á daglegt líf fólks. Atvinnulífið hefur einnig þurft að glíma við takmarkanir á fjárfestingu í erlendri mynt og skilaskyldu gjaldeyris. Einkum hefur það komið sér illa fyrir fyrirtæki í alþjóðlegum viðskiptum og sprotafyrirtæki. Þá hefur höftunum fylgt umsýslukostnaður og ýmis óbeinn kostnaður,“ segir í tilkynningu forsætisráðuneytisins vegna málsins. „Fjármagnsflæði að og frá landinu verður nú gefið frjálst og einstaklingar, fyrirtæki og lífeyrissjóðir geta fjárfest erlendis án takmarkana. Þetta er ekki síst mikilvægt fyrir lífeyrissjóði sem þurfa að dreifa áhættu af fjárfestingum sínum. Eftir afnám haftanna standa þó eftir varúðarreglur vegna vaxtamunarviðskipta og takmarkanir á afleiðuviðskipti með íslenskar krónur, sem eru þær tegundir spákaupmennsku sem urðu til þess að snjóhengja aflandskróna myndaðist.“

Auglýsing

Landsdómur er sérdómstóll sem fjallar um ætluð brot ráðherra í embætti að mati Alþingis. Í 14. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944  er kveðið á um að ráðherrar beri ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum og að ráðherraábyrgð sé ákveðin með lögum. Alþingi geti kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra og að Landsdómur dæmi um þau mál.

Þann 28. september 2010 samþykkti Alþingi þingsályktun um málshöfðun gegn Geir Hilmari Haarde fyrrverandi forsætisráherra fyrir brot gegn lögum um ráðherraábyrgð, en til vara fyrir brot gegn 141. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var Geir gefið að sök að hafa framið brotin á tímabilinu frá febrúar 2008 og fram í októberbyrjun sama ár. Vegna meðferðar málsins kom Landsdómur saman í fyrsta sinn þriðjudaginn 8. mars 2011. Aðalmeðferð málsins hófst 5. mars 2012 og var það dómtekið 16. sama mánaðar.

Ákæruliðurinn sem Geir gerðist sekur um var að láta undir höfuð leggjast að framkvæma það sem fyrirskipað er í 17. gr. stjórnarskrár lýðveldisins um skyldu til að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni. Á fyrstu mánuðum ársins 2008 var lítið fjallað á ráðherrafundum um hinn yfirvofandi háska, ekki var fjallað formlega um hann á ráðherrafundum og ekkert skráð um þau efni á fundunum.

Auglýsing

Um lagalega ábyrgð ráðherra er nánar fjallað í lögum um ráðherraábyrgð en ákvæði almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi taka einnig til ráðherra eftir því sem við getur átt. Ef ráðherra gerist sekur um brot utan embættis síns taka ráðherraábyrgðarlögin ekki til þeirra brota. Í lögunum er m.a. mælt fyrir um efnisþætti ráðherrábyrgðar, skilyrði sakfellingar og viðurlög, en brot á lögunum varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.  Brotum ráðherra gegn lögum um ráðherraábyrgð er skipað í þrjá flokka, þ.e. stjórnarskrárbrot, brot á öðrum landslögum og brot á góðri ráðsmennsku. Brotin geta bæði verið svokölluð framkvæmdarbrot og vanrækslubrot.

Ákvörðun Alþingis um málshöfðun gegn ráðherra er gerð með þingsályktun og skulu kæruatriðin nákvæmlega tiltekin í ályktunni. Sókn málsins er þá bundin við þau kæruatriði. Alþingi kýs mann í starf saksóknara til að sækja málið af sinni hendi og annan til vara. Alþingi kýs einnig fimm manna þingnefnd til þess að fylgjast með málinu og vera saksóknara til aðstoðar.

Í Landsdómi eiga sæti 15 dómarar en af þeim eru átta kosnir af Alþingi til sex ára í senn. Einnig sitja í dómi þeir fimm dómarar Hæstaréttar sem hafa átt þar lengst sæti, dómstjórinn í Reykjavík og prófessorinn í stjórnskipunarrétti við Háskóla Íslands. Forseti Hæstaréttar er sjálfkjörinn forseti Landsdóms.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283