Bjarg íbúðafélag sem rekið er án hagnaðarsjónarmiða hefur undirritað samkomulag við Reykjavíkurborg um uppbyggingu þúsund íbúa á næstu árum. Gert er ráð fyrir að verkefnið taki allt um sex ár en að fyrstu íbúar flytji inn í íbúðir félagsins árið 2019. „Það er gert ráð fyrir því fyrstu íbúar flytji inn 2019 en það verður auglýst um áramótin,“ segir Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs. „Það verður sem sagt byrjað að taka við skráningum um næstu áramót ef allt gengur eftir og við munum kynna það og auglýsa vel.“

Frá undirritun vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Frá vinstri eru Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB, Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ og Björn Traustason framkvæmdastjóri Bjargs.
Stofnendur Bjargs eru ASÍ og BSRB. Félaginu er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að ódýru, öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti Gylfa Arnbjörnssyni forseta ASÍ, Elín Björgu Jónsdóttur formanni BSRB og Birni framkvæmdastjóra Bjargs – íbúðarfélags lóðabréf þessu til staðfestingar í Spönginni á mánudag.
Úthlutun byggingarréttar er á þremur stöðum í borginni:
• Í Spönginni í Grafarvogi við Móaveg 2 – 4, en nýju skipulagi Spangarinnar er gert ráð fyrir 120 íbúðum í 7 sjálfstæðum 1-4 hæða byggingum sem raðast kringum miðlægan garð.
• Í Úlfarsárdal við Urðarbrunn 33 – 35 og 130 – 134. Samkvæmt skipulagi er gert ráð fyrir 53 íbúðum í 2 sjálfstæðum byggingum.
• Á Kirkjusandi við Hallgerðargötu er gert ráð fyrir 63 íbúðum á lóðum G og H.

Móavegur er við Spöngina í Grafarvogi. Þar munu rísa 120 íbúðir á vegum Bjargs sem ASÍ og BSRB hafa stofnað til að byggja upp íbúðarhúsnæði fyrir lágtekjufólk á vinnumarkaði í samvinnu við Reykjavíkurborg.
Meðgöngutími blokkar er tvö ár
„Meðgöngutíminn fyrir blokk er um það bil tvö ár frá því að skrifað er undir lóðarsamninga þar til fyrstu íbúarnir geta flutt inn. Þetta eru svona sex mánuðir í undirbúning og hönnun en síðan 18 mánuðir í framkvæmd. Það er bara sá meðaltími sem þetta tekur. Við verðum svo að sjá til hvernig gengur,“ segir Björn. – Við erum þá að tala um að þessar framkvæmdir hefjist eftir sex mánuði? „Já við stefnum á að framkvæmdir hefjist með haustinu, síðsumar eða í haust.“
Verður að standa undir sér
Bjarg íbúðafélag er eins og áður segir rekið án hagnaðarmarkmiða, sem sjálfseignarstofnun Alþýðusambands Íslands og BSRB. Félaginu er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að ódýru, öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði með því að byggja, kaupa, leigja, stjórna, viðhalda og endurbyggja leiguíbúðir á grundvelli laga nr. 52-2016 um almennar íbúðir.
ASÍ og BSRB leggja fram stofnfé til þessa almenna íbúðafélags. Þá munu aðildarfélög veita íbúðafélaginu víkjandi lán til að tryggja félaginu rekstrarfjármögnun fyrstu árin, eða þar til reksturinn er orðinn að því umfangi að hann verði sjálfbær.
– Bjarg er rekið án kröfu um sérstaka arðbærni en það þarf samt sem áður að standa undir sér? Hvernig lítur það út? „Bjarg er húsnæðissjálfseignarstofnun sem þýðir að félagið þarf að standa undir sér frá degi eitt. Það sem gerist þó er það að ríki og sveitarfélög leggja til 30% kostnað við framkvæmdina. Sveitarfélagið leggur sem sagt inn lóðina og ríkið kemur síðan með fjárstyrk inn í þetta. Það er kallað stofnframlag og þessi peningur ber ekki ávöxtunarkröfu heldur endurgreiðist eftir 50 ár.“
– Er það þá óverðtryggt eða verðtryggt á lágmarksvöxtum? Hvernig virkar þessi endurgreiðsla? „Ja, það virkar þannig að þeir leggja til 30% í framkvæmdakostnaðinum núna en síðan tökum við lán fyrir hinum 70% og það lán borgast niður á fimmtíu árum og þá skuldar félagið ekki neitt. Þá byrjum við að borga niður þetta stofnframlag. Það hefur engin áhrif á leiguna. Hún verður bara áfram sú sama. Sú endurgreiðsla er stillt af sem 30% af fasteignamati. Þetta er svona verðtrygging en klippist sem þetta hlutfall af virði fasteignanna. Síðan það sem gerist er það að þegar þetta borgast upp eftir fimmtíu ár þá er þessu peningur greiddur til baka en hann nýtist aftur til að byggja fleiri íbúðir. Þannig að það er verið að búa til sjálfbært kerfi. Þannig að í framtíðinni stendur félagið undir sér sjálft og fer í að byggja íbúðarhúsnæði.“
Leiguheimili með áherslu á hagkvæmni og gæði
Að sögn Björns Traustasonar framkvæmdastjóra Bjargs verður lögð áhersla á hagkvæmni í byggingu, rekstri, endingu og góða nýtingu á rýmum, án þess að það verði á kostnað gæða. Við uppbygginguna verður horft til hugmynda um Nýju Reykjavíkurhúsin um félagslega blöndun, íbúalýðræði og hönnun. Miðað er við að Félagsbústaðir Reykjavíkurborgar eignist eða fái til úthlutunar að jafnaði 10-20% íbúða í uppbyggingarverkefnum. Íbúðir á skipulagssvæðunum eru fyrir fjölbreyttan hóp íbúa og eru misstórar.
Viljayfirlýsing um þúsund íbúðir
Fyrir ári síðan, á 100 ára afmæli ASÍ í mars 2016, gáfu Reykjavíkurborg og ASÍ út viljayfirlýsingu og er lóðaúthlutunin nú á grunni hennar. Reykjavíkurborg stefnir að því að úthlutað verði lóðum fyrir uppbyggingu 1.000 almennra íbúða (leiguíbúða) á grundvelli laga frá Alþingi sem jafnframt feli í sér stofnframlag Reykjavíkurborgar til uppbyggingarinnar í samræmi við ákvæði laganna.