Þar sem ég sit við tölvuna á skrifstofu minni í Akureyrarkirkju og horfi út um gluggann, blasir við mér þrennt sem virðist býsna lífseigt sama hvernig viðrar í náttúrunni og mannlífinu. Það er í fyrsta lagi Vaðlaheiðin, þá Pollurinn og loks birkitréð hans séra Matthíasar á Sigurhæðum. Hvernig sem ég sjálf er stemmd og sama hversu mörg nýfædd börn og svefnvana foreldrar koma á minn fund, hjón á barmi taugaáfalls eða hjónaleysi sem svífa um á bleiku skýi, máttvana syrgjendur eða forhertir ofbeldismenn, þá er Vaðlaheiðin alltaf þarna á sínum stað sem og Pollurinn, já og birkitré þjóðskáldsins. Í því er fólgin ákveðun sefjun, að hafa eitthvað óhagganlegt í lífinu, þar sem allt annað er á ferð og ekki einu sinni samferðafólk okkar staldrar við nema í dálitla stund, ja, svona miðað við íslensku fjöllin.
Jólin eru eins og Vaðlaheiðin eða Esjan, þótt þau séu ekki hérna allan ársins hring þá koma þau og eru þrátt fyrir að allt annað sé breytingum háð. Ætli það sé ekki þess vegna sem okkur leyfist að vera fullkomlega hefðbundin á jólum, krafan um frumleika er ekki ofar öðru á þeirri hátíð, þvert á móti þá leitum við logandi ljósi að rótunum og sökkvum okkur skammlaust niður í barndóminn þar sem við svömlum um í fullkominni þrá eftir því sem var. Og eftir því sem breytingarnar verða tíðari í lífinu verður þráin eftir einhverju óbreytanlegu sterkari og jafnvel barnslegri.
Ég man alltaf fyrstu jólin okkar fjölskyldunnar eftir að við fluttum frá Laufási við Eyjafjörð að Hólum í Hjaltadal. Þá höfðu foreldrar mínir búið í Laufási í hartnær 30 ár og fjögur af sex börnum þeirra litið heiminn þar fyrst. Við höfðum nú raunar öll slitið barnsskónum þegar foreldrar okkar fluttu að Hólum og sum höfðu jafnvel stofnað sínar eigin fjölskyldur. Ég er yngst og var 14 ára þessi fyrstu jól á nýjum stað en bræður mínir sem þá voru enn ólofaðir voru 20 og 26 ára, þeir komu heim þessi jól og gott ef elsta systir okkar var ekki þar líka með sína litlu kjarnafjölskyldu. Mamma var bara sjálfri sér lík enda býsna vön að takast á við breyttar aðstæður, já, fær í flestan sjó eftir að hafa flutt árið 1963 úr höfuðborginni norður í Hrísey og vissi þá varla um tilvist þessa staðar, og þar lét hún sig hafa að sigla milli lands og eyjar á opnum bát, kona sem alla tíð hafði verið svo skelfilega sjóhrædd að hún steig helst ekki fæti inn í frystihús.
Kannski er eitthvað í meðgönguhormónum sem gerir það að verkum að mæður eru gjarnan mjög harðar af sér og tilbúnar að takast á við breytingar. Sjáið bara Maríu mey, hún var kornung stúlka, komin að fæðingu þegar hún tókst á hendur ferðalag um óbyggðir Palestínu áleiðis til Betlehem, ókei kannski voru það ekki hormónin ein og sér sem ollu. Sennilega var það bara óbilandi traust til skaparans sem leiddi hana áfram og sennilega hefur það traust einnig spilað stóru rullu í lífi móður minnar með sinn stóra barnahóp. Og þess vegna hefur hún líklega haldið ró sinni þessi fyrstu jól okkar á Hólum þar sem sjálf Hólabyrðan í allri sinni hæð og breidd og Dómkirkjan með bríkina hans Jóns biskups Arasonar blikknuðu í huga okkar í samanburði við Laufáshnjúkinn og litlu timburkirkjuna á æskustöðvunum við Eyjafjörð þar sem miðja alheimsins fannst eftir nokkuð lauslegar mælingar.
Þegar kona hefur fætt eða eignast barn með einum eða öðrum hætti, veit hún að veröldin er viðkvæm og fátt annað að gera en að temja sér æðruleysi og trú á hið góða, því lífið verður skyndilega að opnum bát milli lands og eyjar.
En það voru hins vegar ekki allir jafn æðrulausir þessi fyrstu jól okkar á Hólum. Ég var náttúrlega gelgja og það hefur bara sinn tíma og bera fæst orð minnsta ábyrgð í þeim efnum en bræður mínir og pabbi gengu hins vegar hnarreistir aftur í barndóm og hengdu haus yfir hverju því sem ekki var nákvæmlega eins og á jólunum heima í Laufási. Jólaskrautið skyldi vera á sama stað þó að húsið væri allt öðruvísi að innan og ef vantaði einn vesælan jólasvein eða sykurhúðaðan engil sem hugsanlega hafði týnst í flutningum eða fengið heimþrá mátti mamma gjöra svo vel að leita af sér allan grun.
Pabbi tilkynnti síðan með dramatískum hætti yfir hátíðarborðinu á aðfangadagskvöld að honum hefði nú aldrei þótt heimagert rauðkál neitt sérstaklega gott þótt það hefði verið á borðum foreldra minna í meira en 30 ár og kostað ómælda fyrirhöfn á Þorláksmessu, af því að það er bara ekkert gaman að skera kálhaus hvernig sem á það er litið. Móður minni brá líka mjög við þessa yfirlýsingu pabba og í rafmagnaðri þögninni litum við afkomendur fram og tilbaka á sitthvorn borðendann þar sem frumstellið sat og við biðum átekta með öndina í hálsinum, já eða réttara sagt rjúpuna í hálsinum.
En svo fór að blessað rauðkálið varð til þess að ræða breytingar sem var gott og nauðsynlegt, því breytingar eru erfiðar og krefjast samtals, stundum eru þær óskiljanlegar en stundum mjög eðlilegt framhald á lífinu. En hvort heldur sem er þá verða þær til þess að víkka huga okkar og sjónsvið og hjálpa okkur að dýpka lífsviðhorf okkar, breytingar beita okkur hjartahnoði og vekja okkur reglulega til lífsins.
Jesús Kristur stendur fyrir því sem var og er og verður en hann stendur líka fyrir breytingar, þess vegna eru jólin hvort tveggja í senn hefðbundin og byltingarkennd. Þau leiða okkur að barnshjartanu þótt árin færist yfir og það er hluti af óumræðanlegri fegurð þeirra en þau krefja okkur líka um breytingar. Skilaboð jólanna er hvatning um að ganga út í veröldina með það að markmiði að snúa við steinum og opna samferðafólki okkar leiðir til farsældar, já hvatning um að sýna hugrekki í því að leita sannleikans og standa vörð um réttlætið. Jólaguðspjallið er máttugt, ekki síst af því að þar kviknar ljós í myrkri og það skín já í næturmyrkri og í myrkri eyðandi afla og það skein og það skín og það mun skína hvenær og hvar sem þú hleypir því að.