Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Réttlætisbyltingin

$
0
0

Hér geng ég um borgina róttækur, réttsýnn og keikur
og ræði við fólk sem í flestu er sammála mér,
ég trúi á sáttfýsi sanngjarnra manna
en siðblindu græðginnar helst vil ég banna.
Við lyddur og slóttuga valdhafa vart er ég smeykur
þótt vopn sín þeir brýni er felur þá lyginnar reykur
því bros minnar gæsku ég veit að um varirnar leikur
og vonin er máttur sem ávallt í brjósti ég ber.

Ef þjóð mín sér skiptir í sálir sem siðblindu fagna
og sálir sem vilja að réttlæti fái sinn mátt
þá vil ég þeim öllum að sjálfsögðu sinna
sem sanngjörnu leiðirnar ætla að finna
því sæll er sá maður sem réttlætið reynir að magna,
og rödd hinna fegurstu dygða fær aldrei að þagna
en fátt fá þeir gert sem í baráttu bölva og ragna
og berjast gegn fólki sem treystir á drengskap og sátt.

Í hjartanu tifar hinn bálreiði byltingarsinni
sem biður um stuðning hvers manns sem um götuna fer.
Ég hallmæli lygurum lúmskum og kvikum
sem lýðskrumi fagna og stjórna með svikum.
En þeir eru nokkrir sem hæðast að heimspeki minni
og hugsjónum þeim sem ég nú fyrir landsmönnum kynni.
Ég óska þess jafnan að hamingju fólkið mitt finni
og fræði sín börn um það undur sem réttlætið er.

Ég geri þá kröfu að réttlætið verði að virða
að vanmáttur hverfi en upp rísi löngunin sterk,
að fái hér vitundarvakning að dafna
að vesöld og kúgum við náum að hafna.
Hér sé ég það fólk sem má brauðmylsnu húsbóndans hirða,
ég horfi á fjöldann sem treystir á laun sinna byrða.
Og svo eru hinir sem ætla mitt mannorð að myrða
ef minnist ég á þeirra glæpi og fólskunnar verk.

Ég fordæmi sviksemi úlfa og illgjarnra refa
sem auðmagn með kúgun og fláræði draga til sín,
ég fordæmi rökvillur ranglátra manna
en réttlætiskennd mín skal sýna og sanna
að sómi hvers manns býr í því sem hann glaður vill gefa,
að græðgin mun falla til jarðar sem sandkorn úr hnefa.
Ég fordæmi siðblindu, skammsýni, ótta og efa
því einlægni hjartans er tær einsog hugsjónin mín.

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283