Frá framkvæmdastjórn Pírata
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata í allsherjar- og menntamálanefnd, óskar eftir því að almenningur sendi sér spurningar sem það vill fá svar við í tengslum við uppreist æru Roberts Downey. Hún kemur síðan með að fara með þær spurningar inn á sérstakan fund sem hún hefur óskað eftir í allsherjar- og menntamálanefnd. Minnihluti nefndarinnar hefur samþykkt beiðnina og því veltur það á nefndarformanni hvort og hvenær nefndin kemur saman til að ræða þetta mikilvæga mál.
Þórhildur Sunna ætlar ennfremur að taka saman þær spurningar sem Bergur Þór Ingólfsson, faðir einnar af þeim stúlkum sem Robert Downey beitti kynferðisofbeldi, vill fá svör við og leggja fram á fundinum. Hún hefur ennfremur óskað eftir því að fundurinn verði opinn almenningi. Dómsmálaráðherra er meðal þeirra sem Þórhildur Sunna hefur óskað eftir að komi fyrir nefndina.
Í tilefni af því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd kom saman í morgun vegna frumkvæðis Svandísar Svavarsdóttur, þingmanns Vinstri grænna, spurði Bergur Þór mikilvægra spurninga á Facebook í morgun.
– 09:15 Mikilvægur fundur fyrir mig og mitt fólk.
– Lokaður almenningi og fjölmiðlum (okkur líka).
– Hverjir eru hinir ,,valinkunnu“?
– Hvers verk var uppreist æra R. Downey skv. undirritun?
– Hver ber ábyrgð á framkvæmdinni?
– Verður fólk ákært fyrir að tala um glæpi R. Downey?
– Er rétt og eðlilegt að láta forseta rita blindandi undir uppreist æru?
– Ef svo er, fyrir hvað stendur undirritun hans?
– Er eðlilegt að veita barnaníðingi uppreist æru án þess að faglegt mat fari fram á geðheilbrigði hans þ.m.t barnagirnd?
– Er eðlilegt að veita barnaníðingi lögmannsréttindi sem hann hefur áður verið sviptur án þess að fram fari faglegt mat á geðheilbrigði hans þ.m.t. barnagirnd?
– Hefði átt að spyrja þolendur R. Downey álits í ferlinu um uppreist æru hans?
– Standast rök dómsmálaráðuneytis um að veita ekki upplýsingar um málið þ.m.t. hina ,,valinkunnu“?
– Er eðlilegt að þolendur hins uppreista fái ekki aðgang að gögnum um mál sem sannarlega snertir þær?
– Verða týnd og skemmd skjöl um rannsókn málsins rædd á fundinum? Verða þau ritskoðuð skv. lögum um uppreist æru?
– o.fl. o.fl. o.fl.
#höfumhátt
Á Facebook í morgun skrifaði Þórhildur Sunna síðan í tengslum við spurningar Bergs Þórs:
Þetta eru aðkallandi spurningar sem Bergur Þór setur hér fram. Mér þykir leitt að hafa ekki séð þetta fyrr og komið þessum spurningum áleiðis til kollega minna í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fyrir fundinn, en ég er stödd í Ástralíu og geng því ekki alveg í takt við íslenskan tíma um þessar mundir.
Eftir stendur að þessum spurningum er ósvarað og fundurinn lokaður. Ég hef því óskað eftir því að fundur allsherjar- og menntamálanefndar um sama málefni verði opinn almenningi. Málið varðar almenning og ætti fundurinn því að vera aðgengilegur almenningi. Sömuleiðis lýsi ég mig reiðubúna til þess að taka við fleiri aðkallandi spurningum um málið í veganesti á þennan fund. Spurningar má senda á thorhildursunna@althingi.is