Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Tannlækningar í Búdapest — mín reynsla

$
0
0

Ragnheiður Stefánsdóttir skrifar

Líklega vita allir hvað átt er við þegar talað er um Costcoáhrifin. Þegar Costco opnaði með látum, neytendur vöknuðu upp af Þyrnirósarsvefni, nudduðu stýrurnar úr augunum og áttuðu sig allt í einu á okrinu sem hafði viðgengist hér árum saman. „Virkur í athugasemdum“ spurði í umræðum um góð kaup í Costco hvort ekki væri tannlæknaþjónusta þar og uppskar nokkur „læk“ fyrir vikið. Þetta innlegg varðandi tannlæknaþjónustuna er ekki svo galið enda veitti ekki af samkeppni í þeim geira og allir sem hafa þurft að leita til tannlæknis vita að þar er ekkert gefið.

Ég hef frá því ég var krakki verið með lélegar tennur og ég held að ég hafi verið komin um fermingu þegar ég var fyrst send til tannlæknis. Í gegnum tíðina var gert við eins og hægt var, með misjöfnum árangri en það tókst svona nokkurnvegin að halda í horfinu. Svo kom hrunið og þá hrundi fleira en bankakerfið m.a. tennurnar í mér. Í nokkur ár hef ég veigrað mér við að fara til tannlæknis enda stóð ég frammi fyrir mjög kostnaðarsömu dæmi og þá erum við ekki að tala um neinar smá upphæðir og það var ekkert sérstaklega hvetjandi að fylgjast með fólki í kringum mig fara ótal ferðir vegna einnar eða tveggja tanna ásamt tilheyrandi óþægindum og kostnaði.

 

Auglýsing

 

Um síðustu áramót var ástandið orðið þannig að ég gat ekki frestað þessu lengur og fór að leita einhverra leiða til að klára dæmið án þess að þurfa að selja nýra og skuldsetja mig í topp næstu árin. Vitandi það að tannlæknar eru með frjálsa verðlagningu og það getur verið mikill munur á verskrá þeirra lagðist ég í rannsóknarvinnu til að finna einhvern sem byði sanngjarnt verð, en þá komst ég að því að það er hægara sagt en gert að finna verðskrá einstakra tannlækna og það eina sem var að finna á netinu var verðskrá tannlæknavaktarinnar sem er víst í dýrari kantinum og verðskrá sem Sjúkratrygginga Íslands nota sem viðmiðun vegna endurgreiðslna og mun sú vera orðin úrelt fyrir löngu. Það er rétt að taka það fram að ég er á þeim aldri að ég á ekki rétt á endurgreiðslu frá sjúkratryggingunum.

Þessi leit mín á netinu bar vissulega góðan árangur, þó á allt annan veg en ég hafði lagt upp með enda átti ég ekki von á að enda í Búdapest. Ég hafði skoðað þann möguleika að leita til tannlæknis erlendis en var ekki komin það langt að finna út úr því en þarna fann ég síðu Ungversku tannlæknastöðvarinnar Kreativ Dental, nánast fyrir tilviljun og mér til furðu var hún á íslensku.  Ég ákvað að skoða þetta betur og þurfti ekki lengi að hugsa mig um, því ég sá strax að þarna var kominn góður kostur með allan aðbúnað á verði sem er 50-70% lægra en hér á landi. Viðskiptavinum stendur til boða í fyrstu heimsókn ókeypis OPG röntgenmynd og skoðun ásamt meðferðar og kostnaðaráætlum, ein frí nótt á hóteli og niðurgreiðsla á hótelkostnaði. Fríar ferðir eru til og frá flugvelli ásamt fríum ferðum milli hótels og stöðvarinnar. Ef smellt er á linkinn hér fyrir ofan má finna allar upplýsingar á íslensku svo ég fer ekki nánar út í það hér. Kreativ Dental er með umboðsmenn fyrir öll þau lönd sem eru í viðskiptum við þá og bjóða upp á túlkaþjónustu en tímapantanir fara fram með milligöngu þessara umboðsmanna.

Eftir að hafa rætt málin við Grím Axelsson, sem er með umboðið fyrir Ísland, ákvað ég að slá til og þannig atvikaðist það að í byrjun febrúar fékk ég frí frá vinnu um óákveðinn tíma og keypti miða með Wizz air aðra leiðina til Búdapest. Til upplýsingar fyrir þá sem eru að mikla fyrir sér flugkostnaðinn: Það ódýrara að fljúga til Búdapest en Akureyrar. Það eina sem ég þurfti að gera var kaupa flugmiðann og senda Grími flugnúmerið en hann sá um allar aðrar bókanir.

Ég skal alveg játa að það var smá kvíðahnútur í maganum þegar vélin lenti í Búdapest klukkan að ganga eitt á aðfaranótt mánudags og þegar farþegarnir gengu í halarófu úr vélinni sem var staðsett lengst úti á velli að mér fannst, flaug í gegnum hugann hvern skollann ég væri búin að koma mér í núna. En þetta voru óþarfa áhyggjur. Bílstjóri beið mín, mér var skutlað á hótel og daginn eftir var ég mætt á biðstofuna hjá Kreativ Dental.

Ég var spurð hvaða tungumál ég vildi nota í samskiptum og Ungverjarnir urðu frekar undrandi þegar ég valdi ensku frekar en dönsku. Eftir að hafa fyllt út nákvæman spurningalista varðandi heilsufar fór ég í röntgen og síðan tók við löng bið meðan tannlæknateymið fór yfir útkomuna og réð ráðum sínum varðandi framhaldið. Niðurstaðan var sú að það þurfti að fjarlægja átta tennur sem voru of illa farnar til að hægt væri að byggja þær upp og síðan bið í lágmark þrjá mánuði meðan beinið jafnar sig og þá tekur við vinna við að byggja upp tennurnar áður en settar eru á postulínskrónur og brýr. Ég fékk afhentar tvær kostnaðaráætlanir þar sem boðið var uppá tvo möguleika: Málmbundnar eða gegnheilar postulínskrónur sem eru töluvert dýrari en ég þurfti ekki að ákveða strax hvorn kostinn ég veldi þar sem byrjunarferlið er það sama. Á þessum tímapúnkti gat ég farið heim og komið aftir innan sex mánaða, byrjað strax eða hætt við alltsaman.

Ég ákvað að byrja meðferðina strax og fékk tíma daginn eftir en þá hitti ég tannlækninn minn Barnabás Tóth sem fór nákvæmlega yfir það sem ég átti í vændum og síðan fengu tvær fyrstu tennurnar að fjúka. Ég er hreint engin hetja og veit fátt skelfilegra en sprautur og verð stjörf þegar verið er að deyfa en þarna var sett deyfikrem á stungusvæðið áður en sprautað var og ég fann aldrei fyrir neinu. Smátt og smátt fór ég að slaka betur á enda fann ég fljótt að þarna var fagmaður að verki sem var vel treystandi. Tvær tennur þurfti að fjarlægja með skurðaðgerð og annar tannlæknir sá um það. Tannlæknirinn bannaði mér að borða mjólkurvörur meðan sárin væru opin, sagði það geta valdið sýkingum og eins lagði hann blátt bann við reykingum og áfengisneyslu en það hefði ég nú getað sagt mér sjálf. Þetta með mjólkurvörurnar man ég ekki eftir að hafa verið vöruð við hér heima. Jafnvel ráðlagt að borða jógúrt eftir píningar hjá tannsa.

Eftir að búið var að fjarlægja þessar átta tennur og gera við nokkrar til bráðabirgða voru tekin mát og daginn áður en ég fór heim voru gómarnir tilbúnir en fullkomið tannsmíðaverkstæði er á staðnum. Þetta tók allt sinn tíma enda engin hraðmeðferð. Þessi fyrri hluti meðferðarinnar tók tvær vikur. Allt gekk eins og í sögu og ég fann aldrei fyrir sársauka og slapp alveg við sýkingar.

Ef ég ætti að nefna eitthvað sem kom mér á óvart í öllu þessu ferli voru það mannlegu samskiptin sem voru alveg til fyrirmyndar og mun persónulegri en ég átti von á. Þeir sem hafa verið í svipuðum aðstæðum vita að þetta er ekki bara spurning um kostnað sálfræðin spilar líka þarna inní. Það er líka lögð sérstök áhersla á að maður skildi allt sem fram fór. Allir töluðu mjög góða ensku en fyrir þá sem ekki treysta málakunnáttunni er hægt að útvega túlk.  Grímur var mér líka innan handar og alltaf hægt að hafa samband við hann. Þjónustufulltrúi fylgdist með því hvort allt væri í lagi og hvernig mér liði. Hann baust líka til að hjálpa mér að bóka flug heim ef á þyrfti að halda og var alltaf tilbúinn að útskýra og svara spurningum varðandi ferlið. Ég hafði lúmskt gaman af erfiðleikum bílstjórans sem keyrði milli hótelsins og stöðvarinnar þegar hann reyndi að bera fram nafnið mitt, en hann var með lista og las upp þá sem hann átti að ferja á milli. Að lokum gafst hann upp og spurði mig hvernig hann gæti borið nafnið mitt fram á auðveldari hátt. Við komumst að samkomulagi um að hann mætti kalla mig Heidi og við vorum bæði nokkuð sátt við þá lausn.

 

Auglýsing

 

Þetta var fyrsta ferðin mín til Búdapest en ég fer aftur í september og verð þá í þrjár vikur. Ég heillaðist af þessari fallegu borg og fékk tækifæri til að upplifa hana á allt annan hátt en ég hefði gert í venjulegri borgarferð. Þeim sem hafa gaman af að versla ætti ekki að leiðast því verð á fatnaði er mjög hagstætt. Það er nóg að skoða og allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi og ég hlakka til að koma aftur og sjá hana í haustskrúða.

Fólk var forvitið um þetta bras í mér og margir höfðu samband eftir að ég kom heim. Ég fékk fyrirspurnir frá ókunnugu fólki gegnum sameiginlega vini og Facebook. Nokkrir hafa farið út eftir að hafa fengið mín meðmæli og hafa ekkert nema gott að segja um árangurinn. Fleiri lönd bjóða upp á svona þjónust en mér vitanlega býður enginn nema Kreativ Dental uppá það að samskipti fari fram á íslensku þannig að fólk sem ekki treystir sinni tungumálakunnáttu þarf ekki að láta það stoppa sig.

Ég efaðist ekki eitt augnablik um að sú ákvörðun að leita út fyrir landsteinana var rétt og líður eiginlega eins og ég hafi fengið stóra vinninginn í lottóinu. Þeim sem ætla að slá um sig með frasanum: Grasið er ekki alltaf grænna hinum megin vil ég benda á það að vissulega getur það verið rétt, en það getur svo sannarlega verið grænna eða í það minnsta jafngrænt. Gæðin eru ekki síðri en hér á landi þó verðmunurinn sé umtalsverður en verðlag í Ungverjalandi er allt annað en hér.

Það sem ég vildi koma á framfæri með þessum skrifum er að það er samkeppni í tannlæknaþjónustu þó hana sé ekki að finna í Costco. Og svona ykkur að segja: það flokkast ekki sem framhjáhald að skipta um tannlækni.

 

Myndin er af vefsíðu Kreativ Dental

 

Screen Shot 2017-07-19 at 17.03.20Ragnheiður Stefánsdóttir er ferðaglaður grúskari sem tekur sjálfa sig ekki of alvarlega og lætur sér fátt mannlegt óviðkomandi.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283