Ásthildur Lóa Þórsdóttir, kennari og formaður Hagsmunasamtaka heimilanna skrifar
Í meira en 8 ár hafa Hagsmunasamtök heimilanna reynt að vekja athygli á spillingu fjármálakerfisins og slæmri stöðu skuldara gagnvart því, en að mestu talað fyrir daufum eyrum, a.m.k. ráðamanna og þeirra sem ábyrgð bera á ástandinu og geta gert eitthvað í því að laga það.
Spillingin í fjármálakerfinu gengi náttúrulega aldrei upp ef stjórnmálamenn og konur stæðu ekki á bakvið það og styddu það með ráðum og dáð, ásamt því að stuðla að hagkvæmu lagaumhverfi fyrir bankamennina, sem gerir möguleika skuldara til varnar litla sem enga.
Það er þannig ekki við góðu að búast frá helstu gerendum málsins sem sitja á Alþingi, í ríkisstjórn, eða hafa hreiðrað þægilega um sig í andlitslausu og ábyrgðarlausu, en mjög svo valdamiklu, embættiskerfi landsins. Þræðirnir liggja bæði víða og djúpt. Þess vegna er þessi barátta svo erfið. Það eru margir að verja sjálfa sig og gjörðir sínar en auk þess eru mál orðin svo margslungin og flókin að erfitt er að henda reiður á þeim.
Það er þó einn þáttur spillingarinnar sem tiltölulega auðvelt er að rekja, jafnvel þó að embættis- og stjórnmálamenn verjist með kjafti og klóm, ásamt því að beita helsta vopni sínu, hunsun. Að láta eins og þeir heyri ekki það sem sagt er og ALDREI AÐ SVARA: „Látum þau hrópa, þetta gengur yfir, og það fá allir leið á að hlusta á þau eftir smá tíma.“
Hunsun er frábært vopn; það fá allir leið á „sama kvabbinu frá sama fólkinu“. En vandinn er bara sá að málunum er ekki lokið og fórnarlömbunum blæðir enn, þ.e.a.s. þeim sem enn eru „á lífi“. Mörgum hefur þegar blætt út.
Er það í lagi? Finnst þér í lagi að stjórnmála- og embættismenn svipti fólk lög- og stjórnarskrárbundnum réttindum sínum?
Það er komin sá tími að almenningur þurfi að segja stopp, hingað og ekki lengra. Við erum ekki fóður fyrir fjármálakerfið og neitum að láta fórna okkur og framtíð barnanna okkar á altari þess.
Ástæðulausar aðgerðir
Ég ætla að rekja fyrir ykkur, á eins skýran hátt og mér er unnt, meðferðina á þeim sem tóku gengislán á árunum fyrir hrun og afleiðingar hennar. Þessi mál eru skýrt afmörkuð; þau eru eins og einkonar eyja inni í öllu því sem gerðist í kringum hrunið.
Það var engin ástæða fyrir aðgerðunum sem stjórnvöld fóru í; enginn neyð, ekkert panik. Það var einfaldlega tekin meðvituð ákvörðun um að láta fórnarlömb glæps taka á sig refsinguna fyrir hann og láta afbrotamennina hagnast gífurlega á lögbrotum sínum – fórnarlömbin voru látin greiða gerendunum bætur fyrir glæpinn!
Hér er stiklað á mjöööög stóru, og einungis allra helstu leikendur nefndir ásamt nokkrum aukapersónum. Það er alveg skýrt hver upphafsmaður málsins var og helstu gerendur ásamt honum, en á sama tíma er ljóst að enginn stjórnmálaflokkur og engin stjórnmálamaður, sem setið hefur á Alþingi undanfarin 6,5 ár, er saklaus. Allir hafa þeir vitað af þessu og enginn þeirra hefur haft manndóm í sér til að berjast gegn því og verja almenning.
Ísland, sem ber sér á brjóst og talar um mannréttindi á sviði Sameinuðu þjóðanna og „á“ núna forstjóra skrifstofu mannréttinda (ODHIR) Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, á sök á einhverjum stórfelldustu og víðtækustu mannréttindabrotum sem átt hafa sér stað í vestrænum ríkjum frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar. Þúsundir liggja í valnum.
Svona gerðist það.
Refsum fórnarlömbum glæpsins
Núna eru 6,5 ár síðan að veiðileyfi bankanna á skuldara var gefið út.
Bankarnir frömdu glæp og þeir sem tóku gengislánin eru fórnarlömb hans. Bankamenn „seldu“ fólki ólöglega vöru með fullri vitneskju og blessun stjórnmála- og embættismanna. Fórnarlömb glæpsins skiptu þúsundum þegar upp var staðið, en þegar upp um glæpinn komst, snerist „kerfið“ til varnar. Það kom ekki til greina að opinbera klúður „kerfisins“ og ákveðið var að vernda glæpsamlega vanrækslu embættis- og stjórnmálamanna með öllum ráðum. Lausnin var einföld; fremjum bara annan glæp og refsum fórnalömbunum!
„Vinir og félagar“ réðu ráðum sínum og afleiðingin var eitthvert versta og afdrifaríkasta dómaklúður (spilling) sem um getur í vestrænu samfélagi. Fórnarlömb þessara dómara og embættismanna skipta þúsundum, en enginn þessara manna hefur þurft að svara til saka – fórnarlömbum þeirra blæðir hins vegar enn.
Við höfum leitað svara víða og hvergi hefur nokkur maður getað sagt okkur hvað við brutum af okkur eða fyrir hvað sé verið að refsa okkur.
ENGINN hefur heldur getað mótmælt því að það er BANNAÐ að breyta samningum eftir á neytanda í óhag!!
Persónugerum hrunið – sviptum fólk réttindum sínum
Stiklum á stóru yfir söguna:
#1
Það eru 16 ár síðan bankamenn tóku ákvörðun um að fremja glæpinn – að veita gengistryggð húsnæðislán – og sami tími síðan stjórnvöld ákváðu að líta í hina áttina og leyfa þeim að gera það í friði fyrir sér.
#2
Það eru 10 ár síðan við hjónin skrifuðum undir lán fyrir 55% af fasteign með 25 milljónir í eigið fé.
Kaldhæðnin í málinu er að við vorum svo skynsöm að ákveða um áramótin 2001/2 að safna meiru áður en við færum í íbúðakaup og „lokuðumst inni“, því við; skynsama fólkið, horfðum í forundran á bóluna stækka og neituðum að taka þátt, því hún hlyti að springa fyrr eða síðar. Illu heilli gáfumst við upp á að bíða eftir því árið 2007.
Frá upphafi höfum við hafnað því að hægt sé að breyta lánum okkar og svipta okkur eigum okkar, einvörðungu vegna þess að þær lægju í fasteign en ekki inni á bankabók. Við hefðum alveg getað tekið 100% lán, og lagt milljónirnar okkar inn á banka og þá værum við í góðum málum í dag.
Við hefðum samt aldrei getað trúað því að 9 árum eftir hrun stæðum við enn þá í sömu baráttunni við að fá að borga lánið okkar. Við viljum gera það, við erum bara ekki til í að borga lán sem við höfum aldrei tekið eða skrifað undir – lái okkur hver sem vill!
Árið 2011(!) skrifaði ég fyrstu greinina mína um þetta, Gengislánin eru ekki flókin mál. Þó ég viti meira í dag en þá, get ég staðið við allt sem þar kemur fram.
#3
Það eru bráðlega 9 ár frá hruni. Ég held að við ættum að fara að persónugera hrunið því það voru ekki kaup almennings á flatskjáum sem áttu sök á því. Það var FÓLK sem átti sök á því, sama fólkið og makar krókinn á fórnarlömbunum núna.
Hrunið sem ekki mátti persónugera því það hefði verið óþægilegt fyrir einhverja, hefur verið vandlega persónugert í þeim sem tóku gengistryggð lán. Það er mjööög persónulegt að vera sviptur öllum eigum sínum fyrir „afbrot“ sem aldrei var framið, eða lán sem maður skrifaði aldrei undir.
#4
Það eru ca. 8,5 ár síðan þv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon ákvað að fórna fórnarlömbum glæpsins á altari fjármálafyrirtækjana og reri síðan að því öllum árum með hjálp „góðra“ manna.
Það má lesa nánar um þá sögu alla í „Ég ákæri landráðafólkið á Íslandi“.
#5
Það eru rúm 7 ár síðan að gengislánin voru dæmd ólögleg í Hæstarétti og „kerfið“, undir forystu Steingríms, Gylfa, Más og félaga, fór í varnargírinn.
#6
Það eru nákvæmlega 7 ár þessa dagana, síðan að Héraðsdómur braut lög með dómi sínum E-4787/2010 um gengislánin og fór að flækja Seðlabankavöxtum inn í dóminn.
Saga þessa dóms er með miklum ólíkindum, en í honum fylgir dómarinn Arnfríður Einarsdóttir í einu og öllu eftir leynilegum lögfræðiálitum sem fjármálaráðuneytið hefur væntanlega afhent henni og brýtur þannig fyrirmæli stjórnarskrárinnar um að „dómarar skuli ekki lúta boðvaldi annarra“.
Tengsl þeirra sem að dómnum og málinu standa eru einnig eftirtektarverð auk þess sem forsagan og málatilbúnaðurinn allur gefur tilefni til grunsemda.
Arnfríður er núna að fara í Landsdóm, einn af dómurunum sem Dómsmálaráðherra fannst tilefni til að „bömpa upp“ vegna „dómarareynslu“. Greinilegt er að gæði dóma eru ekki skoðuð í því samhengi.
#7
Það eru 7 ár í september síðan Hæstiréttur staðfesti þennann arfavitlausa og illa unna dóm Arnfríðar og leit algjörlega framhjá lögvörðum neytendarétti og samningsrétti lánþega, auk þess að hunsa algjörlega stjórnarskrárvarinn eignarétt.
Þessi dómur Hæstaréttar byggði ekki á lögum og er því í eðli sínu ólöglegur, auk þess sem hann er í hrópandi ósamræmi við ALLA dóma sem aðrir dómstólar í Evrópu hafa fellt, auk þess að vera í algjörri andstöðu við öll ráðgefandi álit og úrskurði sem borist hafa frá EFTA/ESA.
ALLIR þessir dómar/álit/úrskurðir sem fallið hafa í Evrópu, ganga út frá neytendarétti sem ósnertanlegum grundvallarréttindum almennings.
Með þessum dómi 471/2010 varð Hæstiréttur einn af helstu gerendum í einhverjum stærstu og víðtækustu mannréttindabrotum sem framin hafa verið í vestrænum réttarríkjum á síðari tímum.
Rétturinn hefur verið á harðahlaupum undan þessum gjörðum sínum síðan; þaðan er einskis réttlætis að vænta og allir dómarar hans í raun óhæfir til að dæma í málum sem þessu tengjast. Í raun eru flestir lögfræðingar landsins óhæfi í þessum málum vegna hagsmunatengsla.
Um hlut Hæstaréttar má lesa nánar í „Guðinn sem gerir ekki mistök“.
Spillingin í Hæstarétti er ein stærsta hindrunin sem skuldarar standa frammi fyrir. Það er því miður hæpið að Landsréttur bæti úr því, því þar hafa safnast saman nokkrir af helstu lögfræðingum bankanna auk þess sem einhverjir þeirra eiga beinan þátt að þessum málum þó einungis Arnfríður sé nefnd hér.
#8
Það eru 6,5 ár síðan að Alþingi freistaði þess að stinga lögum undir ólöglegan dóm Hæstaréttar með setningu laga 151/2010, hinum alræmdu Árna Páls lögum.
Við setningu þeirra var Alþingi blekkt og litið var fram hjá tugum álita sem vöruðu eindregið við setningu laganna enda brytu þau gróflega á réttindum lánþega og hefðu í för með sér stórfellda eignaupptöku.
Sitjandi formaður Efnahags- og viðskiptanefndar vék sæti í umfjöllun málsins og við formannssætinu tók Álfheiður Ingadóttir, einn nánasti samstarfsmaður Steingríms J. og eiginkona Sigurmars K. Albertssonar, eins helsta lögfræðings Lýsingar og sækjanda í báðum bílalánsmálunum sem hafa valdið öllum þessum hörmungnum.
Handrukkarar kerfisins
Með lagasetningunni var hringnum lokað og veiðileyfi bankanna á skuldara gefið út. Bankamennirnir una sér enn þá glaðir inni í Skjaldborginni sem Steingrímur, Hæstiréttur og Alþingi reistu í kringum þá, og skjóta þaðan í allar áttir á varnarlausa skuldarana.
Við skulum ekki fara í neinar grafgötur með það að þetta eru mannréttindabrot – það eina sem vantar er að raunverulegri kylfu sé beitt til að fullkomna glæpinn. Það er enginn munur á þeirri kúgun sem við sitjum undir og kúgun handrukkara. Handrukkarar nota kylfur, bankarnir hafa „kerfið“ til að berja á fólki. Í báðum tilfellum er verið að krefja fólk um greiðslur sem það annaðhvort hefur ekki stofnað til eða greiðslur sem hafa tútnað út vegna einhverskonar okurvaxta. Handrukkarar brjóta hnéskeljar, en bankarnir hafa aðrar leiðir til að kippa fótunum undan lífinu. Í báðum tilfellum stendur hinn kúgaði frammi fyrir ofurvaldi sem vílar ekkert fyrir sér og getur ekki rönd við reist.
Að krefja fólk um greiðslur á lánum sem það hefur ekki stofnað til, er líka eitt af því sem handrukkarar gera og nákvæmlega það sem bankarnir gera líka í skjóli stjórnvalda sem beita kylfunum fyrir þá.
Að hagnast á lögbrotum sínum
Bankamenn hafa hagnast stórkostlega á lögbrotum sínum, enda varðir í bak og fyrir af stjórnvöldum, og hafa frá hruni dúllað sér við að ryksuga upp Ísland heimili fyrir heimili.
Og fyrir hvað??!!!
Til þess eins að bankamennirnir geti klappað hver öðrum á bakið, fengið feita bónusa, sem síðan eru notaðir til að auka ítök þeirra enn frekar t.d. í leigufélögum á fasteignamarkaði, eða fluttir úr landi. Ef þessi illa fengnu „landflótta“ bónusar skila sér aftur heim, hefur Seðlabankinn verið svo almennilegur að greiða 20% álag ofan á allt og þá hafa gæðingarnir nú aldeilis getað fjárfest meira og styrkt enn frekar hreðjatök sín á íslenskum almenningi og atvinnulífi.
Þetta er af mannavöldum og þvert á flokka
Þessi mannréttindabrot eru ekki vegna náttúruhamfara eða veikinda, heldur vegna þess að MENN og KONUR tóku ákvörðun um að fórna fjölda fólks á altari fjármálafyritækja, kröfuhafa og hrægamma. Hvernig væri að fara að láta fólkið sem að þessu stóð svara til saka, auk þess að krefja núverandi ráðamenn um aðgerðir. Í dag er ábyrgðin þeirra.
Á eftir upphafsmanninum Steingrími hafa setið fjórir fjármálaráðherrar, sem allir hafa látið sér þetta vel líka; Oddný G. Harðardóttir, Katrín Júlíusdóttir, Bjarni Benediktsson, og svo í dag, Benedikt Jóhannesson. Allir hefðu þessir fjármálaráðherrar getað breytt þessu en enginn þeirra hafði manndóm í sér til þess, eða kannski skorti þau viljann. Það er a.m.k. ljóst að Bjarna Ben finnst þetta fínt og þetta hefur þjónað hans hagsmunum ágætlega.
Hvað Oddnýju og Katrínu varðar tilheyrðu þær náttúrulega flokknum/ríkisstjórninni sem að þessu stóð, og hefur væntanlega fundist óþarfi að rugga bátnum út af smámálum eins og mannréttindabrotum eða því að „óskynsamt“ fólk væri að missa heimili sín í gráðugan kjaft bankanna.
Nú er komið að Benedikt Jóhannessyni og hann getur breytt þessu ef hann vill. Hann ber fulla ábyrgð á því að staðan sé enn þá svona á hans vakt og það er hans að stöðva mannréttindabrotin sem framin eru á hans ábyrgð!
Persónugerum þetta! Því „kerfið“ gerir ekkert í sjálfu sér, það eru MENN og KONUR innan þess sem gera og bera ábyrgð. Það eru stjórnmálaMENN og KONUR sem bera ábyrgð og geta gert eitthvað í málunum. Krefjumst þess að fjármálaráðherra og aðrir ráðherrar og alþingismenn vinni einu sinni fyrir fólkið í landinu.
Allt sem þarf er vilji og endurskoðun laga
Það eina sem fjármálaráðherra þarf að gera er að setja í gang endurskoðun á hinum svokölluðu Árna Páls lögum út frá mannréttindum, neytendarétti, samningsrétti og eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar, og stöðva allar aðfarir á meðan. Endurskoðun hlýtur alltaf að leiða til afnáms.
Er ekki nóg komið og mál að linni?
Að mínu mati snúast þessi mál um framtíð Íslands. Því ef stjórnmálamenn komast upp með lagasetningar sem brjóta mannréttindi fólks, munu þeir gera það aftur.
Gleymum því ekki að á bakvið alla milljarða hagnaði bankana er fólk, menn, konur og börn, sem verið er að mergsjúga með beinum og óbeinum hætti.
Við erum ekki fóður fyrir bankanna og ég NEITA að fórna lífsstarfi þúsunda á altari þeirra!