Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Virðingarsætið og fyrirgefningin

$
0
0

Auðbjörg Reynisdóttir skrifar

Maður nokkur var boðin ásamt vinum sínum og fleirum til máltíðar hjá höfðingja einum. Hann fylgdist með hvernig gestir völdu sér hefðarsæti. Hann tók dæmi og sagði við vini sína: „Þegar einhver býður þér til brúðkaups, þá set þig ekki í hefðarsæti. Svo getur farið að manni þér fremri að virðingu sé boðið og sá komi er ykkur bauð og segi við þig: Þoka fyrir manni þessum. Þá verður þú með kinnroða að taka ysta sæti. Far þú heldur er þér er boðið og set þig í ysta sæti svo að sá sem bauð þér segi við þig þegar hann kemur: Vinur, flyt þig hærra upp! Mun þér þá virðing veitast frammi fyrir öllum er sitja til borðs með þér. Því að hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða.“ (Lúk; 14. kafli).

hqdefault

 

Nú hefur Robert Downey (áður Róbert Árni Hreiðarsson) boðið sjálfum sér til veislu, sótt um og fengið hefðarsæti. Að sjálfsögðu vekur það sterk viðbrögð þeirra sem þekkja hann af illu og margir ekki sáttir. Sumir vilja hann helst úr partýinu. Allt er á huldu hver það var sem bauð honum þetta sæti og ekki hægt að krefjast skýringa. Þannig vinnur stjórnsýslan. Já þær hljóma stundum einkennilega þessar tæknilegu lögskýringar. Erum við kannski ekki í sama partýi? Oft hef ég þurft að eiga samskipti við stjórnsýsluna vegna réttlætisbaráttu minnar við kerfið eftir að sonur minn lést af manna völdum. Þá hefur, eins og nú komið í kolli minn lagið skemmtilega “Ég er rangur maður á röngum tíma í vitlausu húsi”. Viðbrögð kerfisins eru svo einkennileg að þau eiga ekkert skylt við mannlega reisn eða umhyggju. Það er oft eins og ég sé ekki í sama heimi og fólkið sem starfar hjá hinu opinbera. Akademískar / stjórnsýslulegar skýringar eru ekki það sem við þurfum á að halda og algerlega á skjön við þarfir þeirra sem verða fyrir ofbeldi, mistökum eða öðru óréttlæti.

Takk Karl Ágúst Úlfsson fyrir að ávarpa vandamálið með svo skörpum hætti. Ekki ætla ég að fjalla mikið hér um vinnuna að baki nýju stjórnarskránni en eitt vil ég segja um hana. Það mætast tveir heimar, í nýju og gömlu stjórnarskránni en sá gamli vill ekki láta af völdum því hann er hræddur við gott og fallegt hjartalag. Það á bara að vera til eitt blákalt ríkishjarta og það slær mjög REGLULEGA og ekki í takt við neitt annað. Tveir heimar eru þetta alla vega og þeir ná engu sambandi sín á milli þótt þeir ættu að gera það á Alþingi. Ég vona að við höldum í þau gildi sem nýja stjórnarskráin byggir á enda er umræðan á þeim nótum.

 

Auglýsing

 

Það sem stendur uppúr í umræðunni síðustu vikur er tvennt. Annars vegar umræðan sem lögmaðurinn (Jón Steinar) bendir á og felst í að ofgnótt sé af fyrirgefningarleysi. Því verði að útrýma í samfélaginu svo öllum líði nú betur. Þetta er algjört aukaatriði því okkur kemur ekkert við né getum við metið hvort einhver hafi fyrirgefið eða ekki. Hins vegar skiptir öllu máli það sem feður stúlknanna segja sem beittar hafa verið kynferðislegu ofbeldi. Sr. Bjarni Karlsson tekur í sama streng, fórnarlömb Roberts (ný og gömul) sem og önnur fórnarlömb ofbeldis sem hafa lagt orð í belg. Allir stíga fram af hugrekki í þeim tilgangi einum að stöðva þessar hörmungar gagnvart börnum okkar. Það verðum við að gera, vera vakandi og taka á í sameiningu. Þetta er ekki í lagi. Robert Downey skal skipað ysta sætið ef hann vill vera með í partýinu. Auðmýkt er stundum skilgreind sem hæfileikinn til að sjá sig í réttu samhengi svo það komi nú fram líka. Traust sem byggist á undirskrift frá stjórnvöldum er lítils virði og ómarktæk í mínum augum í þessu samhengi.

Akademían og stjórnsýslan eru algjörlega máttlaus eins og er að koma fram í enn fleiri málum. Getuleysi barnaverndarnefnda virðist algjört þegar vitað er um alvarlegt ofbeldi gagnvart börnum. Það er ógeðfelld tilhugsun að maður þessi stundi jafnvel enn í dag sín níðingsverk. Þess vegna hefur verið athyglisvert að fylgjast með viðbrögðum við ákvörðun stjórnvalda að veita honum uppreist æru og réttindi til að starfa á ný sem lögmaður. Hann fær þar með fleiri og betri tækifæri til að stunda iðju sína í skjóli stjórnsýslunnar. Hún ætlar auðvitað að taka á málum ef upp koma vandamál enda eru barnaverndarnefndir svo öflugar.

Ég tek undir með Bergi Þór og Þresti Leó að við foreldrar verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að tryggja öryggi barnanna, að þeim sé sýnd virðing hvort sem þau eru lífs eða liðin eftir óréttlæti. Vona að það sé skýrt frá minni hálfu að ég mun aldrei gefast upp fyrir vanvirðingu sama hvernig hún birtist, ekki heldur akademískri vanvirðingu. Ég held áfram minni baráttu hvort sem viðkomandi hefur tekið út refsingu, beðist afsökunar eða ekki. Ég hef fyrirgefið en það tekur ekki réttinn frá mér til að verja aðra gegn sömu óáran eða minnast sonar míns af virðingu.

Höfum hátt.

E5A79877-E1AA-41AF-A147-8B9CC9B5468D Auðbjörg Reynisdóttir er hjúkrunarfræðingur og markþjálfi.

 

 

 

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283