Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Ofbeldisást

$
0
0

Í nótt lauk einum stærsta boxbardaga í sögu Las Vegar þegar atvinnuboxarinn Floyd Mayweather hálfrotaði boxáhugamanninn Conor McGregor í 10. lotu. Spekingar hafa verið að ráða í bardagann og dæma ýmist McGregor eða Floyd lotur og eins eru áhöld um hvort dómarinn hafi stoppað bardagann of snemma. Þrátt fyrir þetta sagði McGregor að dómarinn hafi verið sanngjarn. Eins og hann sagði: “Þetta var búið”.

Launin fyrir sigurinn eru ekki af verri endanum og fær Floyd yfir 20.000.000.000 kr. fyrir að sigra en McGregor litla 3.000.000.000 kr. fyrir að tapa. Já, það er eflaust kostnaðarsamt að vera boxari og margir sem þurfa laun í kringum svona menn, svo þarf æfingaaðstöðu sem þarf að leigja eða jafnvel kaupa, það þarf mikið að borða og einhverstaðar verða menn að búa. Þetta eru vissulega fyrirtæki sem þarf að reka og það er ekki ókeypis í henni Ameríku.

Íslendingar þjöppuðu sér fyrir framan sjónvarpsskjái landsins í nótt til að fylgjast með bardaganum og þá sérstaklega karlmenn sem horfðu ekki í að borga 5000 kall fyrir að snúa sólarhringnum við. Sjá mátti á samfélagsmiðlum í nótt að vel var fylgst með og McGregor átti greinilega hug flestra. Áhugi Íslendinga á bardagaíþróttum hefur vaxið mikið með tilkomu UFC og velgengni Gunnar Nelsonar og Sunnu Tsunami, sem hafa kept fyrir Mjölni undanfarin ár með góðum árangri.

En hvað varðar bardagann í nótt er rétt að nokkur atriði komi fram svo aðdáendur átti sig kannski á því að ekki er nú alltaf allt sem sýnist og oftast er glamúrinn sem verið er að styðja ekki jafn glansandi á röngunni.

Floyd þessi hefur margsinnis verið dæmdur fyrir ofbeldisverk gegn konum sem hann hefur barið til óbóta. Yfir fimm mánaða tímabil 2001 og 2002 var hann dæmdur í tvígang fyrir ofbeldi gegn konum og játaði að hafa barið barnsmóður sína svo harkalega að leggja þurfti hana inn á spítala. Í nóvember 2003 var hann svo aftur handtekinn fyrir að berja á hvorki meia né minna en tveimur konum á næturklúbbi í Las Vegas, svo hann er ekkert að fela þessa hegðun sína ef svo má að orði komast. Floyd Mayweather þekkir greinilega ekki muninn á boxhring og næturklúbbi þar sem fólk er að reyna að skemmta sér. 2008 voru svo ákærur látnar niður falla eftir að Floyd hafði rétt konunum peninga í gegnum dómsátt.

En það er ekki allt búið enn. Þegar hann var rétt búinn að jafna sig á að þurfa að borga konunum tveimur fyrir að hætta að bögga sig þá barði hann þriggja barna móður barna sinna árið 2011 og var handtekinn og loks settur í 90 daga fangelsi. Hann fékk að fara eftir 60 daga, sennilega fyrir góða hegðun. Floyd heldur því reyndar fram að hann hafi verið að reyna að hjálpa konunni sinni sem hafi verið á eiturlyfjum, með því að halda henni. Það sé ekki ofbeldi heldur hafi hann raunar verið að stunda þarna hjálparstörf. Áverkavottorð frá sjúkrahúsinu sýndu annað og lýsingum konunnar og vitna (barnanna) bar ekki saman við hjálparstarf Floyd.

Já, hvort sem okkur finnst gaman að horfa á menn berja hver á öðrum í boxhring eða ekki þá hljótum við að spyrja okkur hverja við erum að horfa á og klappa fyrir. Og hverja við erum að styrkja með myndarlegu fjárframlagi: 20 milljarðar eru miklir peningar og með bandarísk lög með sér má ná ansi mörgum dómsáttum og berja ansi margar konur fyrir þennan pening.

En karlmenn um allan heim og konur líka skemmtu sér konunglega og fyrirtæki bókstaflega slógust um auglýsingarplássið. Vonandi voru börn Floyd sofandi hjá góðri og umhyggjusamri barnapíu eða móður sem veit hvað það er að elska.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283