Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Á rölti niður minningagötu

$
0
0

Á rölti mínu niður minningargötu um daginn dró ég þá ályktun að ég hafi ekki verið nógu spurult barn.

Ég gaf mér hluti, spurði einskis og gekk því um í villu og svíma árum saman.

Einhvern tímann bloggaði ég um fenómenið og komst að því að þetta var nokkuð algengur andskoti meðal barna.

Útvarpið var miðpunktur okkar sem fædd vorum upp úr miðri síðustu öld.

Stór hluti visku minnar kom þaðan.

Muniði tilkynningar fyrir hádegisfréttir?

„Elskuleg konan mín, dóttir okkar, móðir og systir, lést að morgni mánudags….. Ástkær eiginmaður minn, sonur og faðir lést……. Sonur okkar dóttir okkar.“

Ég var miður mín. Ofboðslega dó fólkið hans Jóns Múla. Það var epídemía í gangi hjá manninum. Allir í kringum hann hrundu eins og flugur. Ár inn og ár út. Ég vissi audda að eitthvað var bogið við þetta en spurði ég? Nebb.

„Austurland að Glettingi“. Veðurfréttirnar sko, þessar löngu.

Austurland að Glettingi.. Hvar er þessi Glettingur? Var þetta endirinn á heiminum eins og við þekkjum hann? Hola, hyldýpi, norsk eyja þar sem austfirskri lögsögu lauk?

Ég tékkaði á Glettingi fyrir nokkrum árum.

Það er fjall fyrir austan. Af hverju spurði ég ekki?

Barnatíminn á sunnudögum gerði mig alltaf sorgmædda.

Ætli það hafi verið Skeggi sem fór svona fyrir brjóstið á mér? Segi sonnna.

Muniði eftir laginu: Ahahahaha -úhúhúhúhúhúhúhú – ahahahahahahahaha.

Krípí sjitt.

Hvaða þáttastjórnandi velur kórsyngjandi (örugglega blindfulla) kalla til að hræða líftóruna úr litlum börnum?

Ef ég lít til baka þá var fullt af þunglyndisvaldandi efni fyrir börn í útvarpinu í denn.

Eins og tómstundaþátturinn eða hvað hann hét. Börn voru að föndra eftir fyrirmælum þáttastjórnandans. Búa til lampa og svona. Ég þekkti ekki eitt einasta föndurbarn en einhver lampi hlýtur að hafa verið smíðaður – úti á landi.

Sjaldan hef ég fundið fyrir jafn áþreifanlegum sönnunum um skort á verkgreind minni (og hún er algjör) þegar ég hlustaði á lampamanninn – helst að ég verði fyrir þessu núorðið ef ég þarf að skrúfa eitthvað.

Svo var það útlitið – tilvistin – framtíðin.

Frændi minn – úr sveit – var með rólegri mönnum, datt hvorki af honum né draup nema þegar hann datt í það – þá brjálaðist hann og kíkti í heimsókn.

Ég spurði ömmu af hverju Siggi væri svona reiður stundum.

Amma – þessi yndislega kona kunni ekki að skammast sín og laug að mér eins og sprúttsali. Hún sagði:

„Hann Siggi verður alltaf svo reiður þegar hann kemur til Reykjavíkur“.

Votttttt? Pælið í hvernig mér gekk að vinna úr þessu svari.

Ég hefði átt að spyrja um svo margt, líka stráka, hvernig börnin yrðu til og allskonar.

Þegar tekin eru viðtöl við fólk, einkum þá sem hafa meikað það, er það spurt hvað það hafi ætlað að verða þegar það yrði stórt.

Ég hef ekki enn heyrt einn einasta kjaft eiga í vandræðum með þessa spurningu.

Stendur bunan út úr þeim. Alveg: Jú, ég ætlaði að verða leikari strax í vöggu, eða, hjúkrunarstarfið varð köllun mín í móðurkviði.

Efi? Ekki nokkur.

Eins gott að það er ekki eftirspurn eftir mér í svona viðtöl því ég stæði algjörlega á gati og hef verið metnaðarlausasta barn landsins varðandi framtíðarhlutverk mitt.

Engin áform uppi um að verða eitthvað, svo ég muni.

Hjúkka, læknir, kennari? Engin heilabrot varðandi það göfuga verkefni að gera heiminn betri yfirhöfuð.

Var ég svona dúmm? Svona brotin? Svona hokin af lífinu?

Aldeilis ekki. Ég var bara í núinu. Ég lifði milli bóka. Ég vildi lesa, hanga á bókasafninu í Verkó, þar sem lyktin var svo góð.

Hm….

Ætli þetta sé svona einfalt. Þurfti ég greiningu?

Nú eru börn farin að leggja drög að framtíðinni á leikskólanum, ég sver það.

Mig er nú farið að gruna að það hafi verið eitthvað verulega mikið að.

Látið mig ekki ljúga að ykkur dúllurnar mínar – ég var bara svona kúl krakki.

Ég er rígmiðaldra – ríg og enn veit ég ekki með vissu hvað ég hefði viljað verða og það mikið fyrr á lífsleiðinni.

Jú annars, ég veit það og vinn að því en segi engum. Ekki spyrja mér er í nöp við spurningar. DJÓK.

Ég er bara svona leit blúmer.

Síjú.

Njótið svo helgarinnar börnin mín á skerinu.

Hvað sem þið gerið – gerið það almennilega.

Gó bigg or gó hóm.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283