Hér á eftir mun ég að svara áður birtu bréfi Þórðar I. Runólfssonar til mín sem og bréfi Kristjáns Þórðarsonar.
Svar til Þórðar I. Runólfssonar
Sæll Þórður,
Ég taldi mig hafa fullvissað íbúa Eyja- og Miklaholtshrepps um það að vangaveltur mínar um það hvort líta megi loforð um frítt vatn í 10 ár efasemdaraugum um tilgang þess, hafi ekki verið ætlað þeim öllum. Ástæða fyrir efasemdum mínum snýr fyrst og fremst að því að í ljósi atburðarrásar sem hefur farið í gang eftir að framkvæmdir við einkaveitu forsvarsmanna FBM hófust, og í kjölfar loforðs um frítt heitt vatn, hafa sveitungar verið að skipta sér í fylkingar, ýmist með eða á móti forsvarsmönnum FBM. Ég hef þ.a.l. velt því fyrir mér hvort loforðið um vatnið sé tilraun til að hala inn atkvæði gegn forsvarsmönnum FBM. Ég vil ítreka að aðeins er um lítinn hóp (fáa einstaklinga) að ræða sem ég gagnrýni harkalega í grein minni. Þú svarar vissulega nokkrum spurningum mínum en rökstuðningur þinn er litaður breyskni og öfund að mínu mati, uppfullur af virðingarleysi gagnvart lögboðnum samningum og virðist til þess eins fallinn að ýta undir flekkingu og svertingu mannorðs forsvarsmanna FBM.
Það gefur augaleið að þeir sem ekki eru tengdir HEM né hafa fengið boð um að tengjast henni og hafa ekki fengið boð um frítt heitt vatn næstu 10 árin eru ekki þeir sem ég gagnrýni.
Þeir sem hafa ekki tekið undir né tekið þátt í þeim óleik að veitast að forsvarsmönnum Félagsbúsins Miðhrauns sf.(FBM) fyrir það að standa á rétti sínum vegna lögmætra samninga eru ekki þeir sem ég gagnrýni.
Ennfremur er ég nema síður sé að gagnrýna þá sem ekki hafa ritað óforskammaða og ógeðfellda tölvupósta til þeirra og dreift til sveitunga og annarra sem ekki búa í Eyja- og Miklaholtshreppi eða þá sem ekki hafa sett sig uppá móti einkaveitu FBM hvorki í skrifuðu og töluðu orði, né hafa á nokkurn annan hátt sýnt forsvarsmönnum FBM annað en vináttu og kærleik.
Það fólk bið ég innilegrar afsökunar ef það hefur tekið hörðum orðum mínum og gagnrýni illa og fundist að þeim vegið. Ætlun mín var fyrst og fremst að upplýsa og spyrja spurninga sem brunnið hafa á mér undanfarna daga varðandi framgang og framferði hluta hreppsnefndar (3 aðilar) og annarra hluthafa sem og stjórnarmenn HEM. Það vill svo til að þetta eru sömu einstaklingarnir í mörgum tilfellum (þ.e. oddviti, hluthafar, stjórnarformenn HEM, og hluti hreppsnefndar). Ég lít svo á að um vanhæfni sé að ræða hjá fleiri aðilum en Sigurði Hreinssyni, sem líst hefur sig vanhæfan á fundum hreppsnefndar þegar málefni HEM eru rædd. Ég velti því fyrir mér ástæðu þess að hluthafar og stjórn HEM sátu hjá að virðist á meðan oddviti afhenti Ólafi Ólafssyni og Ingibjörgu Kristjánsdóttur hitaveituréttinn, sem ætti svo sannarlega að vera sameign allra íbúa hreppsins (sbr. samninginn sem undirritaður var þann 10.september 2013 með fyrirvara af hálfu sveitarstjórnar um samþykki hreppsnefndar). Hvernig í ósköpunum gátu hluthafar og stjórn HEM setið hjá þegar svo yfirgengilega er valtað yfir, án samráðs við aðra en einhverja 24 íbúa sem geta ekki opinberað hverjir þeir eru, aðra íbúa sem ekki hafa verið einu sinni spurðir hvort þeir séu sammála þessum áætlunum? Var það vegna loforðsins um frítt heitt vatn næstu 10 árin? Og ég furða mig á því að hluthafar og stjórn HEM hafi ekkert skipt sér að því er virðist, þegar oddviti réð mág sinn, Sturlu Böðvarsson, til að finna lausnir að vandamálum HEM. Hvað kom út úr þeirri vinnu? Var það eitthvað meira en stórir reikningar?
Þeir aðilar aðrir innan hreppsnefndar sem setið hafa hjá eða mótmælt framgangi og framferði hinna aðilanna eru alfarið undanskildir gagnrýni minnar.
Í ljósi þeirrar staðreyndar að FBM er stærsti hluthafi HEM (FBM á þriðjungshluta HEM á móti 2/3 annarra hluthafa – Holt, Hjarðarfell, Dalur, Vegamót, Miðhraun I, Eiðshús, Fáskrúðarbakki,Breiðablik sem sveitarfélagið á og Ræktunarstöðin Lágafell ehf.), reki stórfyrirtæki og sé þ.a.l. stór tekjulind fyrir sveitarfélagið, er ekki annað að sjá en að þau séu ,,stór“ í því samhengi sem þú setur upp. En það væri ágætt fyrir fólk að rifja upp forsögu HEM sem má segja að hafi byrjað 1998. Það þætti mér gagnleg og fróðleg lesning.
Mér þykir í raun ekki undarlegt að forsvarsmaður FBM hafi farið í framboð og verið kosinn inn í hreppsnefnd á sínum tíma miðað við hugmyndafræði þess tíma, þar sem þau eru stærstu notendur og hluthafar HEM, svo stór reyndar að þau greiða fyrir 96.400 tonn pr.ár, á móti þeim 10 l/mín sem hver hlutur á að skaffa öðrum skv.hemli (sjá nánar í stofnsamningi HEM og Ástandskönnun frá 2012 sem vísað er til í svari til Kristjáns Þórðarsonar), greiði myndarlegt útsvar til hreppsins og, eins og komið hefur fram, hafa stutt við Grunnskólann og Leikskólann á óeigingjarnan hátt svo fátt eitt sé nefnt. Hreppsnefnd hefur verið skipuð hluthöfum (ekki einvörðungu en oft í meirihluta) um árabil og tel ég þá staðreynd vera aðalástæðu kergjunnar sem í gangi er innan hreppsins.
Ég persónulega stend fast á þeirri skoðun að enginn hluthafi hitaveitu ætti að vera í sveitarstjórn, að sveitarstjórn og hún ein væri eigandi hitaveitu og hver notandi myndi greiða sitt gjald skv. fyrirliggjandi taxta við hana til að fyrirbyggja óréttlæti, þar sem vatn (bæði heitt og kalt) ætti að vera almenningseign og ekki í eigu fárra útvaldra. Það breytir því samt ekki að mér finnst alvarlega að Félagsbúinu Miðhrauni sf. vegið og heiðri og æru forsvarsmanna þess. Þá er það alfarið vegna ófaglegra, óskipulagðra og óafsakanlegra athafna hluta hreppsnefndar með oddvita í forsvari og hluthafa HEM sem ég get ekki með nokkru móti unað án þess að gagnrýna.
Ég tel ástæðuna fyrir því að nýjir eða breyttir samningar hafi ekki náðst milli stjórnar HEM og FBM fyrst og fremst vera þá að samningstillögur hafi falið í sér brot á samningi sem ekki er hægt að rifta nema með dómsvaldi. Á það hefur ekki verið reynt að mér best vitandi. Hvort sem fólki finnst samningurinn ósanngjarn eða ekki er hann í fullu gildi.
Það hlýtur að vera öllum skiljanlegt að stórfyrirtæki sem nýtir vatn jafnt og þétt yfir árið er ekki sambærilegt nýtingu vatns íbúðarhúsnæðis. Venjulegur notandi (ekki stórfyrirtæki), má nota 10 l/mín skv.hemli (skv.samningi við HEM) og ef hann notar aðeins 2 l/mín verða lítrarnir að sjálfsögðu dýrari fyrir vikið og ég bendi á að skv. 2.grein í stofnsamningi frá 2004 kemur skýrt fram:
,,Aðrir notendur skulu hafa rétt til að fá vatn umfram hámark skv. hemli með sömu kjörum og Félagsbúið fær skv. hemli með sömu kjörum og Félagsbúið fær skv. samningi þessum. Sala á umframvatni skal þó háð þeim fyrirvara að allir notendur fái samningsbundið hámark af vatni skv.hemli.“
Rétt er að taka fram að FBM er með mæli en ekki hemil.
En í dag er FBM eini aðilinn sem hefur gert samning við HEM um umframvatn og áður en aðrir gætu gert svohljóðandi samning þyrfti að sjálfsögðu meira vatn að vera til ráðstöfunar.
Með öðrum orðum þá stendur öðrum notendum en FB til boða að kaupa umframvatn á sömu kjörum og Félagsbúið fær skv. samningi þessum (sem er 6,5 kr pr.tonn). Það þykir mér ekki hátt gjald þegar búið er að reikna það miðað við l/mín eins og aðrir hluthafar greiða fyrir.
Það hlýtur að liggja í augum uppi að stórfyrirtæki geri samninga útfrá því hvað sé hagstæðast fyrir rekstur þeirra. Það stórefast ég um að Álverið t.d. sé að borga sama taxta og fólk sem býr í íbúðarhúsnæði í næsta nágrenni.
Ég leyfi mér líka að efast um hvort þessi sambærilegi fiskþurrkunaraðili og FBM, í Héraði, sem þú vísar til, sé þriðjungshluta eignaraðili í hitaveitunni þar. Og velti ég því fyrir mér hvort leyfi sé fyrir hendi hjá viðkomandi aðila um að þær upplýsingar, sem eru uppgefnar í bréfi þínu, séu birtar og hvort farið sé með rétt mál í þeim efnum.
Þegar félagið (HEM) var stofnað þá lagði sveitarfélagið (hreppurinn) borholur inn sem hlutafé og holurnar áttu að gefa 7 l af sjálfrennandi vatni. Reyndin varð sú að holurnar gáfu ekki nema 5,3 l en það kom ekki í ljós fyrr en farið var að dæla vatninu til fólks. Þar með vantaði 1,7 l uppá af hálfu sveitarstjórnar sem það átti að gefa til að uppfylla sinn hlut sem lagður hafði verið inní hlutafélagið.
Bara þetta eina atriði hefur valdið miklum vandræðum milli deiluaðila (HEM og FBM) sem sveitarfélagið hefur ekki sýnt (væntanlega vegna bágrar fjárhagsstöðu) neinn vilja til að laga.
Í kjölfarið dýpkaði FBM borholuna og fyrir þá framkvæmd var samið við FBM að það fengi á það 94.600 tonn pr.ár sem gera 6 hluti. Einnig var samið um það að FBM fengi umframvatn úr holunni þegar aðrir hluthafar væru ekki að nota það vatn. Ennfremur væri athyglisvert að fá uppgefnar frá hluthöfum og stjórn HEM þær fjárhæðir sem lagðar hafa verið af hálfu FBM í hitaveituna áður en stofnsamningur var gerður 2004.
Þetta má skýrt lesa í stofnsamningi FBM við HEM frá árinu 2004 sem lesa má nánar í svari mínu til Kristjáns Þórðarsonar.
Er ekki staðreynd málsins að mun fleiri notendur en reiknað var með í upphafi eru nú farnir að nýta það magn vatns sem í borholunum má finna? Er ekki staðreynd að aðeins eru 9 hluthafar að berjast um það að fá meira vatn en er að finna í borholum HEM?
Skv. samningi fengi FBM 60 % afslátt (sem það var í raun búið að greiða fyrir með dýpkun borholunnar ásamt því að selja lagnir og dælustöð undir kostnaðarverði, dæmi: pexlagnir sem kostuðu 2.600 kr pr.m voru seldar á 600 kr.pr.m.svo fátt eitt sé nefnt).
Vert er að vekja athygli á því að þegar heitt er í veðri á sumrin þá notar hver aðili sáralítið af vatni.
Þegar samningurinn var undirritaður 2004 þótti mönnum eðlilegra að aukavatn yrði nýtt af FBM í stað þess að það rynni út í sjó.
Ég vek ennfremur athygli á því að í samningi frá 2004 kemur jafnframt fram að sveitarfélagið borgar ekkert árgjald fyrir félagsheimilið Breiðablik og er því með 100 % afslátt, Fáskrúðarbakkakirkja var hálfpartinn gefinn sinn hlutur þar sem aðeins var farið fram á að greiða 1/6 af hlut og er Fáskrúðarbakkakirkja því með rúmlega 80 % afslátt, þáverandi eigandi Eiðhúsa fékk einnig gefins heilan hlut en er aðeins að greiða fyrir hálfan og er því með 50 % afslátt. Í ljósi þessara staðreynda get ég ekki með nokkru móti skilið mótstöðu sveitarfélagsins við nýja hitaveitulögn Bryndísar og Sigurðar.
Ég spyr mig hvort ástæða fyrir því að ekkert umframvatn sé til staðar stafi einfaldlega af þeirri staðreynd skv. ástandsskýrslunni 2012, að þeir hluthafar sem eru með hemla séu einfaldlega búnir að rífa þá upp. Ég veit ekki til þess að virku eftirliti af hálfu stjórnar HEM hafi verið sinnt, því það virðist sem allt púður fari í að taka FBM sérstaklega fyrir, þegar ef til vill sé ástæða til að skoða aðra hluthafa betur. Ég vona svo sannarlega að hlutirnir hafi breyst síðan ástandsskýrslan frá 2012 var gerð. Ég vona svo sannarlega að það sem miður var í þeirri skýrslu, sé nú búið að laga. Það er ósk mín að allir hluthafar HEM myndu gera hreint fyrir sínum dyrum og opinberi nú öll gögn um breytingar á upphaflega hannaða kerfinu er varðar lagnir, staðsetningar og fjölda notenda svo og vatnsnotkun þeirra og sýni fram á að kostnaðaráætlun sé til staðar af viðurkenndum aðilum fyrir breytingum sem svo er hægt að sýna fram á að hafi verið greiddar skv. samningi við HEM. Einnig velti ég því fyrir mér hvort yfirhöfuð þetta mikla hitaveitudeilumál snúist ekki fyrst og fremst um það að hluthafar aðrir en FBM vilja fá meira vatn án þess að þurfa að borga fyrir það.
Hvað aðför að starfsöryggi eiginkonu þinnar snertir af hálfu Bryndísar Guðmundsdóttur og Sigurðar Hreinssonar þá tek ég heilshugar sem kennari undir þær réttmætu kröfur til skólastjóra að hún skuli áminnt harðlega fyrir það að vera að senda fjölmarga miður kurteisislega tölvupósta til Bryndísar Guðmundsdóttur um málefni HEM, á skólatíma þegar hún átti að vera að sinna kennsluskyldu sinni. Ég get ekki sem kennari sjálf sett mig neitt upp á móti því að Bryndís og Sigurður hafi mótmælt þessu framferði harðlega, sérstaklega í ljósi þess að dóttir þeirra er nemandi hennar, enda þykir mér kvörtunin réttmæt. Nú veit ég ekki betur en að kona þín sé fyrirmyndarkennari þótt ég gagnrýni þetta tiltekna atriði sérstaklega og þótt ég gagnrýni störf hennar og athæfi sem stjórnarformaður HEM er ég ekki að gera lítið úr henni sem kennara. Mér þætti eðlilegt að kona þín, sem kennari, sjái sóma sinn í því að biðja Bryndísi og Sigurð afsökunar á þessu framferði.
Hvað riftingu kaupa þinna á lóð í eigu hreppsins hef ég ekkert um að segja enda þekki ég ekki forsögu þess máls neitt. En af einhverjum sökum þótti Sigurði sem hreppsnefndarmanni ástæða til að hafa samband við oddvita þess efnis og get ég einungis giskað á ástæður fyrir þeirri ákvörðun.
Um leið og ég gleðst fyrir hönd tengdra aðila við HEM um að Hitaveita Eiðhúsa sé búin að bora eftir meira heitu vatni , sem býðst nú frítt í 10 ár ,velti ég því fyrir mér, sökum þess hve nálægt nýja borholan er borholu HEM hvort ekki verði enn meiri barátta um vatn þegar dæla verður sett í nýju borholu Hitaveitu Eiðhúsa? Mun þá sú dæla ekki soga til sín vatn úr borholu HEM? Ég velti því fyrir mér hvernig þau mál verða leyst ef til þess kemur. Ég vona líka einnig að búið sé að panta dælu í borholu Hitaveitu Eiðhúsa því auðvitað hljóta allir að bíða spenntir eftir öllu því magni af vatni sem þar er að finna, en ég velti því samt fyrir mér hvort reiknað sé með því að endalaust vatn sé að finna í umræddri holu, og hvort að það verði í raun hægt að standa við loforðið um að allir tengdir HEM nú eða Hitaveitu Eiðhúsa muni fá frítt heitt vatn í 10 ár. Verður nóg vatn til að anna nýjum væntanlegum notendum sem munu ef til vill vilja tengjst HEM fljótlega? Skv.samningi HEM þá á HEM raun það vatn sem Ingibjörg og Ólafur (Hitaveita Eiðhúsa) ætla að fara að gefa frítt í 10 ár. Hvað samning varðar við Ingibjörgu Kristjánsdóttur hefði ég talið að frá upphafi hefði rekstur HEM átt að vera hugsaður til enda, svo ekki væri ástæða til að fjársterkan einkaaðila þyrfti til að rétta hann við. Það hefði nær verið að tryggja frá upphafi að allir sveitungar Eyja- og Miklaholtshrepps hefðu greiðan aðgang að vatni burtséð frá staðsetningu og eða fjárhagsstöðu á bankabók.
Ég tel ástæðu fyrir birtingu umfjöllunar á fréttum varðandi framkvæmd Bryndísar og Sigurðar eingöngu snúast um það að sýna fram á að verið sé að brjóta á þeim, lagalega séð. Ég er þeirrar skoðunar útfrá gögnum er fyrir liggja í reglugerð um framkvæmdaleyfi, samningum, ástandskönnun, atburðarrásar af hálfu oddvita og hluta hreppsnefndar, hluthafa og stjórnar HEM, orðum sem skrifuð hafa verið og sögð, að verið sé án nokkurs vafa að brjóta á réttindum þeirra. Ennfremur er ég því algjörlega ósammála að réttur landeigenda sem þú vísar til í grein þinni, eigi á nokkurn hátt við í tilfelli framkvæmdar þessarar einkaveitu. Ég lít einfaldlega svo á að forsvarsmenn FBM séu í fullum rétti til framkvæmda og er ósammála þér um aðferðafræði.
Þú vísar í Hnefaréttinn. Ég veit hreinlega ekki hvað ég á að kalla aðferðafræðina sem oddviti, hluti hreppsnefndar, stjórn og hluthafar HEM hafa beytt síðustu daga. Ég veit ekki hvað á að kalla það framferði að taka ákvarðanir útfrá eigin geðþótta, án samráðs við lögboðna aðila sbr.Byggingarfulltrúa, án löggjafarvalds fyrr en eftir á, og með bréfaskrifum þar sem aðeins brot af staðreyndum er birtur.
Hreppsnefnd hefur fengið þónokkuð mörg tilboð frá FBM um lausn á deilunni, síðast með óformlegum hætti fyrir nokkrum dögum. Ég myndi því fara varlega í að gefa í skyn að sáttaboð séu alfarið að koma frá HEM, því það er alls kostar ekki rétt. Ég reikna fastlega með því að skriflegt, formlegt tilboð muni berast hreppsnefnd og stjórn HEM frá lögfræðingi FBM innan tíðar.
Hvað lagnir að Stórakróki varðar þá þykir mér ótrúlega vænt um að Sigurður og Bryndís hafi í öll þessi ár greitt fyrir vatn sem áætlað var að rynni einhvern tímann, vonandi, um hús í Stórakróki. Ég hef aðeins búið hér í Stórakróki í tæp 4 ár og aðrir sem búa nú hér eða hafa aðsetur hér yfir sumartímann í húsum, sumarhúsum eða öðrum húsakynnum hér í kring hafa búið hér eða dvalist í mun styttri tíma.
Það hefur ávallt legið fyrir að einhvern tímann væri hægt að leggja lagnir hér í Stórakróki, það er í okkar valdi (við sem búum hér í Stórakrók) að fara í þær framkvæmdir að mínu mati. Mér og mínum dettur ekki í hug að krefjast þess, eða ætlast til þess að það séu í raun Bryndís og Sigurður sem sjálf greiði fyrir lagnir. Okkur hér í Stórakróki þykir eðlilegt að það væri okkar eigið verk, burtséð frá samningi. Við teljum að Sigurður og Bryndís hafi með samningnum tryggt framtíðarábúendum Stórakróks vatn, þar sem engin byggð var komin hér þegar þessi samningur varð gerður. Við sem í Stórakróki fögnum því að Bryndís og Sigurður hafi og eru enn að greiða fyrir hlut Stórakróks. Það hefur aldrei og mun ekki standa á Bryndísi og Sigga með að leggja lagnir í Stórakrók, það er einfaldlega ekki enn til nóg vatn, þar sem ábúendur hér eru orðnir fleiri en áætlað var í upphafi. Hluturinn er einfaldlega ekki nógu stór. Ég og minn maki munum endurgreiða Bryndísi og Sigurði fyrir lagnagerð þegar og ef hún verður gerð, einhvern tímann í framtíðinni. Nú tala ég einungis fyrir hönd mína og míns maka en vænti þess að aðrir sem hér búa í Stórakrók taki heilshugar undir þau orð.
Að lokum lýsi ég því yfir að mér finnst meira en lítið undarlegt að bera gjafir til skólastarfs saman við gjafir fárra útvaldra til eiginhagsmunanota. Það þykir mér því miður renna stoðum undir illan hug þess sem skrifar svo.
Það er einlæg ósk mín að fólk sjái sér fært að skoða fortíðina með það að ljósi að biðjast afsökunar á því sem miður hefur farið og bæta fyrir misgjörðir, og að fólk sjái sér fært um að leggjast á eitt til að tryggja öllum, ekki fáum útvöldum, hagstæð og góð lífsskilyrði hér í hreppnum, svo byggja megi hér upp heiðarlegt samfélag sem einkennist af opnum, umburðarlyndum og óeigingjörnum samskiptum milli fólks sem hér býr og að sumarið muni færa frið í Eyja- og Miklaholtshrepp. Það er rétt hjá þér Þórður að vorverkin bíða, ég mæli eindregið með því að fólk hreinsi til í sínum eigin garði áður en það fer að gramsa í görðum annarra.
Gleðilegt sumar
Sonja Karen Marinósdóttir
Stórakróki 5, Eyja- og Miklaholtshreppi
Áður en ég svara Kristjáni Þórðarsyni vil ég taka fram að Kristján svarar ekki spurningum mínum úr greinum mínum. Heldur þykir mér Kristján fara frjálslega með sannleikann hér í bréfi sínu þar sem engan rökstuðning eða sannanir má finna utan vísunar í reglugerð um framkvæmdaleyfi. Rétt er að taka fram að þegar bréf til Kristjáns er skrifað hafði ekki borist svar frá Þórði I. Runólfssyni.
Svar til Kristjáns Þórðarsonar:
1) Það er rétt hjá þér að ég var persónulega ekki á staðnum , en það voru um 20 starfsmenn á vegum Bryndísar og Sigurðar við vinnu hinsvegar. Það eru því um 20 vitni sem staðfesta lýsingar mínar af vettvangi. Þórður Guðmundsson sat ekki í gröfunni sem hann var að vinna á allan tímann ,líkt og þú heldur fram, meðan umræddir atburðir áttu sér stað og heyrði vel, eins og hinir 20 sem þarna unnu, þau orðaskil sem manna voru höfð á milli. Þeir sem voru þarna á staðnum að vinna geta staðfest lýsingar mínar og gerðu reyndar í samtali við lögreglu.
Þar sem engar sannanir liggja fyrir meintu árásarbroti Sigurðar Hreinssonar gegn þér né símastuldi get ég ómögulega tekið þeim orðum sem neinu öðru en alvarlega grófum sögusögnum.
Ég reikna með að þú hafir fengið áverkavottorð hjá lögreglu og að málið sé í rannsókn hjá þeim.
Ég tel augljóst að vinnumennirnir hefðu unnið þar til þeir hefðu verið svo stöðvaðir af lögreglu í umboði sýslumanns á lögboðinn og eðlilegan hátt. Ég vissi ekki að þið Eyjólfur Gísli Garðarsson á Vegamótum hefðuð löggæsluvald til að stöðva framkvæmdir.
Það á enn eftir að koma í ljós hvort Bryndís og Sigurður hafi í raun gerst sek um brot á reglugerð um framkvæmdaleyfi né nokkuð annað málinu tengt, ég býð eftir svari frá Byggingarfulltrúa. Geri ráð fyrir því að þau muni leita réttar síns með eðlilegum hætti hvort sem niðurstaða falli þeim í hag eður ei.
2) Hvað reglugerð um framkvæmdaleyfi varðar þá er það einlægt mat mitt útfrá lestri hennar að ég telji Sigurð og Bryndísi í fullum rétti til að framkvæma sína einkaveitu. Sitt sýnist hverjum í þeim efnum og höfum við fullan rétt á að vera ósammála . Ég er hins vegar enginn sérfræðingur og mun bíða svara frá Byggingarfulltrúa og það tel ég að þú og allir aðrir ættu að taka til fyrirmyndar.
3) Ég tel þig ekki vera í málsvari fyrir HEM og tel það í hlutverki stjórnar HEM að tilkynna mér hvort ég geti fengið heitt vatn úr HEM. Þar sem ég er ekki tengd HEM mun boð um frítt heitt vatn í 10 ár ekki gagnast mér á nokkurn hátt.
Staðhæfing þín, og margra annarra, er varðar Félagsbúið Miðhraun er alvarlegur rógburður ef engar sannanir eða haldbærar röksemdarfærslur liggja fyrir hendi. Það er auðvelt að segja svona staðhæfingar upphátt, nú eða skrifa á blað, og halda að þar með séu þær orðnar réttar og sannar. Það að ásaka Félagsbúið opinberlega um að vera eini aðilinn í HEM sem liggi á umframvatni og greiði ekki fyrir það, og koma þannig í veg fyrir að aðrir notendur fái það sem þeim ber, þykir mér ansi þungur dómur án þess að færa nein rök fyrir máli sínu. Eitt er að krefjast slaufuloka á stærsta notandann sem notar mæli skv. stofnsamningi án þess að athuga hvort hemlar sem aðrir notendur eiga að vera með séu virkir, og annað að vera þá sjálfur (stjórn HEM, hluthafar og aðrir tengdir HEM) ekki tilbúinn til að veita leyfi til skoðunar af óháðum aðilum á sínum lögnum, lokum og stýribúnaði, geta ekki lagt fram teikningar um breytingar á lögnum þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir. Slíkar framkvæmdir eru nefnilega óheimilar nema þær hafi verið hannaðar og kostnaðaráætlanir liggi fyrir, skv. 3. grein stofnsamnings HEM, sem ég mun birta brot úr hér á eftir. Sigurður hefur margítrekað óskað eftir gögnum en án árangurs.
Það að ganga svona hart gegn einum og stærsta hluthafa (Bryndísi og Sigurði) þykir mér undarlegt, sérstaklega í ljósi þess að fyrir liggur samningur milli HEM og Félagsbúsins Miðhrauns sf. sem og Ástandskönnun frá árinu 2012 sem sýnir glöggt að víða er pottur brotinn.
Ég hef fengið góðlegt leyfi Bryndísar og Sigurðar fyrir því að birta brot úr stofnsamningi Félagsbúsins sf við Hitaveitu Eyja- og Miklaholtshreppi ehf og Ástandskönnun á Hitaveitu Eyja- og Miklaholtshrepps sem gerð var 2012 að ósk Félagsbús Miðhrauns sf (Bryndísar og Sigurðar). Skoðendur voru Ragnar G. Gunnarsson, pípulagnameistari og byggingartæknifræðingur BS og Friðrik Ólafsson byggingarverkfræðingur MS.
Tekið skal fram af gefnu tilefni að Sigurður og Bryndís höfðu Bryndís og Sigurður höfðu áður hafnað niðurstöðu ástandskönnunar, sem stjórn HEM fór fram á, á þeim forsendum að aðeins var gerð ástandskönnun á Miðhrauni II, en ekki hjá öðrum hluthöfum og vegna þess að úttektaraðili var á vegum Sturlu Böðvarssonar, mágs Guðbjartar Gunnarssonar, oddvita Eyja og Miklaholtshrepps. Bryndís og Sigurður fóru svo fram á lögbann vegna slaufuloka sem stjórn HEM heimtaði að yrði settur á hjá þeim . Lögbannið var samþykkt af Sýslumanni þar sem hann tók undir sjónarmið þeirra og röksemdarfærslur.
Af ærnu tilefni skal tekið fram að ástæðan fyrir lögbanninu er ekki sú að þau hafi verið að ,,fela umframvatn sitt“ sem þau eiga að neita að borga fyrir, eins og margir vilja halda fram, heldur fóru þau fram á lögbann því skv. samningi frá 2004 var gert ráð fyrir mæli hjá Félagsbúinu Miðhrauni en hemlum hjá öðrum notendum, og vegna þess að í ástandskönnuninni 2012 komi fram upplýsingar um að fleiri aðilar séu ekki hafnir yfir grun um að draga að sér umframvatn og greiða ekki fyrir, sem og að nokkrir hafi komist upp með að leggja ekki fram teikningar um breytingar á lögnum og séu þar með að brjóta reglur samnings síns við HEM. Ljóst þykir að umframvatn verði hjá öllum á sumrin, einfaldlega sökum hærri lofthita. Skv.mælum Félagsbúsins Miðhrauns er ekkert umframvatn. Þar sem Miðhraun II stendur hæst landi ætti það að vera eðlisfræðilega ómögulegt að þau gætu verið að taka til sín umframvatn, það ætti skv.lögmáli eðlisfræði og náttúrulögmála að renna niður en ekki upp. Bryndís og Sigurður hafa ávallt greitt fyrir sín 94.600 tonn af vatni sem þau eiga forgang að, skv.stofnsamningi við HEM eins og sjá má á í bókhaldi HEM.
Bryndís og Sigurður hafa gagnrýnt rekstur og stjórn HEM um árabil og ítrekað óskað eftir gögnum án árangurs.
Vert er að árétta að aðeins verður hér birt brot úr Stofnsamningi frá 2004 og Ástandskönnuninni frá 2012, með tilvísun í stofnsaming. Allir sem áhuga hafa geta fengið afrit af bæði samningi og Ástandskönnun senda til nánari skoðunar.
Úr Ástandskönnun á Hitaveitu Eyja- og Miklaholtshrepps 2012:
,,Fram kemur í stofnsamningi og skýrslu, sem Verkís gerði um HEM í ágúst 2012, að Félagsbúið Miðhrauni II (FM), eigi forgang á 94.600 tonnum á ári, eða 180l/mín jafngilt 3 l/sek. Hemlar eiga að vera hjá öllum notendum nema FM, þar skuli vera mælir. Ef umfram vatn er til, þá geta aðilar fengið það keypt gegn skriflegum samningi. Hola gefur 330 l/mín af 95°C, við 9,3 bar þrýsting, því eru um 150 l/mín til ráðstöfunar inn á ,,hemlakerfi“. Forsendur fyrir rekstri hitaveitna, er að stýribúnaður sé virkur og notendur séu ekki að fikta í honum, enda á stýribúnaður að vera innsiglaður. Vatnsnotkun einbýlishúss á hitaveitusvæði Orkuveitu Reykjavíkur (OR), samkvæmt ,,Hitamenningarbæklingi“ hennar, er 1,2 til 1,8 l/mín (1.700 til 2600 lítra á sólahring). Miðað við þessar forsendur ætti hitaveita Eyja- og Miklaholtshrepps að geta annað a.m.k. 167 til 250 húsum.“
Borhola er sunnan þjóðvegar 1 við Grímsá. Vatni er dælt um stofnlögn upp að þjóðvegi, en þar skiptist lögn/kerfi í tvennt samkvæmt gildandi teikningu VV.
Vesturhluti, í átt að Vegamótum: Þar eru sagðir 6 notendur: 1 Holt, 2 Hjarðarfell, 3 Dalur, 4 Vegamót, 5 Lyngholt, 6 Hofstaðir.
Austurhluti í átt að Breiðabliki: Þar eru sagðir 11 notendur: 1 Þurrkun, 2 Miðhraun I, 3 Miðhraun II, 4 Miðhraun III, 5 Lækjarmót, 6 Hörgsholt, 7 Minni Borg, 8 Borg, 9 Eiðshús, 10 Fáskrúðarbakki, 11 Breiðablik.
Ljóst er að breytingar hafa orðið á upphaflega hannaða kerfinu er varða lagnir, staðsetningar og fjölda notenda svo og vatnsnotkun þeirra, án þess að skriflegu ferli þar um, skv.stofnsamningi, hafi verið fylgt. Ekki virðast vera til opinber gögn þar um þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir. En slíkar framkvæmdir eru óheimilar nema þær hafi verið hannaðar og kostnaðaráætlanir liggi fyrir, skv. 3. grein samnings.
Ljóst er eftir skoðun á hitaveitu HEM, að sumir notendur gera sér ekki grein fyrir rekstrarformi veitunnar og eru að taka of mikið vatn á kostnað annarra notenda og án samning, en þetta kemur einnig fram í úttekt Verkís í ágúst 2012. Til þess að hægt sé að ná vatni umfram heimild hlýtur hemlum að hafa verið breytt eða þeir aftengdir. Lagnagerð frá skiptistað í átt að Vegamótum eru ekki samkvæmt teikningu og ekki er lögn upp að Miðhrauni I inni á teikningu VV. Þá hefur lagnalegu víða verið breytt án leiðréttingar á teikningum.“
,,Ekki var komist inn í sum húsanna til að skoða ástand lagna og stýribúnaðar. Helstu atriði er komu fram við skoðun eru:
- Inn á verksmiðjuna á Miðhrauni II fara 8,8 m3/klst eða 147 l/mín (2,45l/sek). Þannig næst ekki lámarks magn skv. samningi, vantar 18% þar uppá.
- Á Félagsbúinu Miðhrauni II, voru 5 hús, að undanskildu verksmiðjuhúsi, að nota vatnsmagn sem nam 10 l/mín (1 hlut) eða um 2 l/mín hvert, aðeins yfir OR viðmiðum.
- Veiðihúsið við Straumfjarðará er að nota um 12 l/mín, en skv. skýrslu Verkís eiga þeir að vera að nota 10 l/mín (1 hlut), en það á 5 l/mín (1/2 hlutur). Notkun margfalt OR-viðmiði (7-10 falt?).
- Skv. skýrslu Verkís, ,,fjórar sviðsmyndir“ sést að Hjarðarfell er að nota um 28,3 l/mín (sem svarar um 41.000 kg á sólarhring) Hjarðarfell á rétt til 20 l/mín (2 hlutir). Ekki fékkst leyfi til að skoða aðstæður. Ekki er vitað um breyttan eða nýjan samning við aðila né vitað til þess að Hjarðarfell greiði umframmagn.
- Ábúandi á Vegamótum bar við önnum við útiverk þegar leitað var leyfis til að skoða búnað.
- Á Lágafelli , gróðurstöð, eru innsigli rofin, en ekki náðist í húsráðendur.
- Á Bakka, Kirkju og Eiðshúsum eru lagnir eðlilegar nema smit er með tengjum.“
,,Hitatap, á skoðunardegi, á vestursvæði frá borholu að dæluhúsi við Dal mældist 35°C, eða um 1°C/100m. Miðað við þetta, þá ætti hitatap frá dæluhúsi við Dal að Hjarðarfelli að verða 20°C í viðbót, eða alls 55°C frá borholu? Þannig er ekki hægt að koma heitara vatni upp að Hjarðarfelli en 30°C, nema með margskiptri þrepadæingu og miklum vatnshraða. Það er, leiðin upp að Hjarðarfelli er of löng miðað við valið lagnaefni og lagnastæði. Sama á líklega við heimtaugina upp að Miðhrauni I, en engin haldbær tæknileg skýring virðist til, hvers vegna ekki var notuð fyrirliggjandi stofnlögn upp að Miðhrauni II. Enginn var á staðnum á skoðunardegi til að sýna inntak þar.
Svæði umhverfis borholu er illa girt, ómerkt, hlið og dæluskúr ólæst. Frárennsli við borholu er hættulegt, 95°C heitt vatn, og opið og óvarið vatnrennsli? Raftöflur í dæluhúsi eru opnar og áfrágengar, viðhald og rekstur dælukerfis er ekki faglegur og ekki er rekstrarhandbók á staðnum. Vararafstöð er hnýtt saman með sputtoum, en vökva vantar á vatnskassa.
Brunnar á tengistöðum stofnlagnar eru ólöglegir og stafar af því tæringarhætta og orkutap í lagnakerfi og getur valdið HEM skaðabótaábyrgð.
Út frá gildandi samningi frá 2004 er ekki verið að selja orku, heldur vatnsmagn (FM er að kaupa tonn á ári og aðrir notendur l/mín). Vandamál veitunnar er að sumir notendur eru að taka meira magn en samningur segir til um, breyta lögnum, stýringum, virkni kerfis, sóa verðmætum og valda erfiðleikum í rekstri veitunnar. Þannig er verið að taka og gefa umfram það sem veitan annar, án þess að farið sé eftir gildandi samningi/reglum veitunnar (sjá 3. grein) og aðilar (sjá 2.grein) ekki látnir borga fyrir viðbótina, að því er best er vitað
Hitaveituna þarf að endurhanna, laga og stilla. Sinna þarf betur öryggis, viðhalds- og rekstrarmálum með virku eftirliti svo ekki sé verið að rýra tekjur hennar og öryggi hennar. Það vantar formfestu við stjórn og rekstur veitunnar.“
Ég óska notendum HEM innilega til hamingju með að fundist hafi vatn í nýju borholunni sem borað var fyrir í landi Eiðshúsa þótt ég sé gríðarlega forvitin ennþá um það hverjir skoruðu á Ingibjörgu að greiða fyrir hana. Nú hljóta allir íbúar Eyja- og Miklaholtshrepps að geta fengið heitt vatn og er það fagnaðarefni.
Nú hlýtur það að vera einhuga vilji oddvita, hreppsnefndar, stjórnar og hluthafa HEM að tengja alla íbúa, sinna svo reglulegu mánaðarlegu eftirliti óháðra aðila til að koma í veg fyrir að fólk svindli á kerfinu sem og að tryggja tekju- og öryggismál HEM, allir hluthafar munu svo að sjálfsögðu selja hreppnum hluti sína á sanngjörnu verði, svo hægt verði að tryggja með óyggjandi hætti að heitt vatn sé í boði fyrir alla en) en sé ekki eign fárra útvaldra.
Úr stofnsamningi 2004 :
2.grein Árgjöld
,,Stjórn ákveður árgjöld og notendagjald skv. 4.mgr. að fenginni tillögu endurskoðenda félagsins. Árgjöld notenda og notendagjald skv. 4. mgr. skulu einungis standa undir rekstrarkostnaði félagsins á hverjum tíma þar með talinn fjármagnskostnaður, viðhald og afskriftir eigna auk framlags í lögbundinn varasjóð félagsins. Eitt árgjald skal greiðast fyrir hvern 200.000 króna hlut í félaginu (minni hlutir greiða hlutfallslega).“
,,Samkomulag er um að Félagsbúið Miðhrauni greiði sérstakt notendagjald fyrir notkun umfram 94.600 tonn á ári í fisverkun (6 hlutir). Skulu greiðast kr.6,5 pr.tonn sem umfram er. Mælir skal settur á notkun Félagsbúsins Miðhrauns sf., í fiskverkun en hemlar hjá öðrum notendum. Aðrir notendur skulu hafa rétt til að fá vatn umfram hámark skv. hemli með sömu kjörum og Félagsbúið fær skv. samningi þessum. Sala á umframvatni skal þó háð þeim fyrirvara að allir notendur fái samningsbundið hámark af vatni skv. hemli.
Stjórn skal kanna möguleika á að setja ákvæði þess efnis í gjaldskrá félagsins þess efnis, að hver notandi geti sett upp á eigin kostnað mæli sem mæli vatnsnotkun. Komi fram við mælingu að hann noti ekki allt það vatns sem hann á rétt á miðað við hemlun, á notandinn rétt á afslætti af árgjaldi sem hér segir:
Grunngjald er 2/3 af árgjaldi sem greiðist óháð notkun. 1/3 árgjalds greiðist í hlutfalli við notkun þannig að ef engin notkun er greiðist einungis grunngjald en full notkun leiðir til greiðslu fulls árgjalds og hlutfall nýtingar þar á milli. Á sama hátt getur félagið innheimt gjald fyrir umframvatn, enda hafi verið samið um afhendingu á því.“
3.grein Innganga nýrra hluthafa/notenda
,,Samkvæmt samþykktum félagsins er skilyrði fyrir inngöngu nýrra hluthafa að þeir verði jafnframt notendur hitaveitunnar. Tengigjald vegna nýrra áfanga skal reiknast miðað við heildarkostnað af nýframkvæmd og skiptast jafnt á nýja hluthafa/notendur miðað við fjölda keyptra hluta.
Óheimilt skal að hefja framkvæmdir við nýja áfanga nema væntanlegir notendur í þeim áfanga hafi gerst hluthafar í félaginu, greitt hlutafé og tengigjald. Reynist kostnaður við nýframkvæmdir umfram áætlun skulu notendur í áfanganum greiða félaginu aukatengigjald vegna þess umframkostnaðar í sömu hlutföllum og að framan greinir. Í samræmi við upphaflegar áætlanir um hitaveituna, skal lágmarkstengigjald vera ígildi kr. 1.300.000 á verðlagi í desember 2003 (neysluvísitala).
Nýjir hluthafar/notendur skulu greiða árgjöld frá því vatni hefur verið hleypt á lögn, óháð því hvort vatn sé nýtt.“
Hvað slóg varðar þá hefur það verið staðfest af sérfræðingum á vegum Landgræðslu Ríkisins að það reynist dýrmætur og krafmikill lífrænn áburður, sem sjálfsagt þykir að nýta til áburðargjafar. Lyktin er vissulega ókostur, en sitt sýnist hverjum. Og ég ítreka að lyktin hefur farið batnandi með hverju ári, þar sem reynt hefur verið eftir fremsta megni að finna lausnir við dreifingu. Ég get hins vegar með engu móti skilið hvernig fólk geti ruglast á slóglyktinni og lykt af mykju. Fólk hefur séð sig knúið til að hringja að Miðhrauni II og kvarta undan slóglykt þegar nágranni Miðhrauns II hefur verið að dreifa mykju á tún sín og er það undarlegt í ljósi þess að eðlilegt er að ,,skítalykt“ sé í loftinu á vissum tímum, eða þegar verið er að bera á túnin eins og gert hefur verið í sveitinni hér eins og annarsstaðar um margra ára skeið.
Ég furða mig á því að þú hafið lagt inn kæru vegna brota á starfsleyfum um losun á úrgangi, þætti eðlilegra að það væri í höndum ábúenda að Miðhrauni I, ef þeim hefur þótt tilefni til.
Gott væri að opinbera úttektina og skýrsluna sem þú vísar í hér og gefa upp hver óháði úttektaraðilinn er. Þætti fróðlegt að sjá hana í ljósi ummæla þinna.
Hvað myndina varðar, þá gæti hún hugsanlega verið héðan af tilraunaræktunarsvæðinu í Stórakróki, þó hún sé ekki nægjanlega skýr til að ég geti verið fullviss. Ef myndin sýnir tilraunaræktunarsvæði Stórakróks þá er hér verið að gera tilraunir með magn á slógi til áburðargjafar til skógræktar. Það er spennandi tilhugsun að hægt sé að nýta jafn óaðlaðandi úrgang og slóg til lífrænnar áburðargjafar og er ég afar spennt með útkomuna úr tilraunaverkefninu. Ef þú hefur áhuga á lífrænni ræktun býð ég þér að koma með mér að skoða svæðið og kynna þér verkefnið betur.
Með vinsemd og virðingu
Sonja Karen Marinósdóttir
ábúandi í Stórakrók 5, Eyja- og Miklaholtshreppi.