Stjórnvöld á Írlandi hafa boðað til þjóðaratkvæðagreiðslu í lok maímánaðar á þessu vori, um breytingar á löggjöf og stjórnarskrárákvæði sem bannar þungunarrof.
Þungunarrof eru bönnuð í báðum ríkjum Írlands, það er bæði í írska lýðveldinu (hér annars nefnt Írland) og á Norður-Írlandi, sem tilheyrir Bretlandi en hefur eigið löggjafarvald á mörgum sviðum. Á Írlandi hefur þungunarrof tilheyrt refsilöggjöfinni frá árinu 1861. Árið 1983 var gengið enn lengra og bannið bundið í stjórnarskrá landsins, með hinum svonefnda „áttunda viðauka“ hennar. Samkvæmt útfærslu stjórnarskrárákvæðisins í núgildandi lögum varðar meðgöngurof allt að 14 ára fangelsi.
Á Norður-Írlandi eru viðurlög enn strangari og varðar þungunarrof þar allt að lífstíðarfangelsi. Í báðum löndum er lögunum framfylgt. Enginn situr í fangelsi vegna þungunarrofs um þessar mundir en árið 2016 var 21 árs kona á Norður-Írlandi dæmd til eins árs skilorðsbundins fangelsis, fyrir að rjúfa meðgöngu. Og í fyrra tilkynnti heimilislæknir móður 15 ára stúlku til lögreglu, fyrir að reyna að verða dóttur sinni úti um getnaðarvarnir. Fyrir vikið ferðast, samkvæmt opinberum gögnum, um 4.000 konur á ári, eða að meðaltali 11 konur á dag, frá Írlandi til Englands og Wales, til að rjúfa meðgöngu.
Skólabörn send á „pro-life“-ráðstefnur
Í viðtali við The Guardian segir Isis O’Regan, stofnandi samtakanna Room for Rebellion, frá reynslu sinni úr kaþólskum unglingaskóla á vesturströnd Írlands, þar sem engin kynlífsfræðsla hafi farið fram og unglingarnir hafi verið látnir vinna skírlífisheit. Vöntunin á fræðslu hafi leitt til ótal óætlaðra þungana. „Það var alltaf einhver sem þú þekktir í skólanum sem var ólétt, og sem hvarf síðan til að láta rjúfa“.
Sjálf segist O'Regan hafa orðið sér úti um neyðarpillu þegar hún var 16 ára gömul. Það hafi verið ólöglegt vegna aldurs hennar. Því hafi hún ekki getað haft foreldra sína með í ráðum, og endað á að stela 80 evrum til að hafa efni á lyfinu. „Þá þurfti ég samt að sannfæra læknana um að láta mig fá það, eftir að þeir hótuðu að segja foreldrum mínum frá. Upplifunin var ótrúlega niðrandi.“
Í grein The Guardian er einnig rætt við Anna Cafolla, konu sem ólst upp hinu megin landamæranna, á Norður-Írlandi, en lýsir engu að síður hliðstæðu uppeldi í kaþólskum skóla og O'Regan: frá 13 ára aldri hafi börnin verið send á „pro-life“ ráðstefnur á vegum kaþólsku kirkjunnar, og verið látin taka undir afstöðu kirkjunnar til viðfangsefnisins við sameiginlegt bænahald.

„Room for Rebellion“ – plakat fyrir eina af fjölmörgum tónleikum samtakanna sem starfrækt eru í London.
Hægfara breyting viðhorfa
O'Regan segir að á Írlandi sé ungt fólk „heilaþvegið“. „Okkur er mismunað daglega. Þegar kemur að kynréttindum eru konur annars flokks borgarar innan Írlands.“ Sjálf býr O'Regan í London, að eigin sögn til að búa við viðurkenningu líkamsréttinda sinna, og skipuleggur baráttu meðal annarra brottfluttra Íra. Það gerir hún meðal annars með baráttupartíum, tónlistar- og dansviðburðum. Þegar hún hefur reynt að halda sams konar Room for Rebellion-viðburði í Dublin hefur reynst erfitt að finna staði fyrir samkomurnar, erfiðara en hún bjóst við. „Þar reyndist fólk hrætt við neikvæð viðbrögð og lagalegar hliðar, svo við hættum að endingu við.“
Tæpur helmingur íbúa Norður-Írlands eru skráðir sem kaþólskir, og tæp 80% íbúa írska lýðveldisins. Þrátt fyrir viðvarandi áhrif kaþólsku kirkjunnar sýna kannanir að viðhorf Íra til kynréttinda hafa heldur færst í átt til frjálslyndis á síðari árum. Bæði á Írlandi og Norður-Írlandi gildir að engin undanþága er veitt frá banninu vegna kringumstæðna, hvorki í tilfelli nauðgana né af læknisfræðilegum eða heilsufarsástæðum. Samkvæmt nýlegri könnun frá Amnesty International vilja 60% íbúa að þungunarrof standi konum til boða án takmarkana eða skilyrða um ástæður.
Baráttan háð í öðrum löndum
Árið 2015 birti samráðshópur stjórnmálamanna og sérfræðinga, að frumkvæði írska Labour flokksins, drög að frumvarpi um stjórnarskrárbreytinguna. Fyrir þingkosningarnar 2016 hétu fimm stjórnmálaflokkar því í sameiningu að boða til þjóðaratkvæðagreiðslunnar, sem nú er framundan – verkamannaflokkarnir tveir (Labour og Workers' Party), Sósíal-demókratar, Græningjar og Sinn Féin.
Fleiri samtök eru rekin með sama hætti og Room for Rebellion, það er stofnuð af konum sem flust hafa burt frá Írlandi og heyja baráttu fyrir réttindum á Írlandi frá London. Mótmælasamkomur og samstöðufundir um afnám áttunda viðaukans hafa verið haldnir í fjölda borga víða um heim á síðustu árum. Cara Sanquest er meðal stofnenda samtakanna London Irish Abortion Rights Campaign, sem hefur það að markmiði að skapa samstöðu í London fyrir afnámi áttunda viðaukans við írsku stjórnarskrána og afglæpavæðingu þungunarrofs á Norður-Írlandi.
Sanquest segist, í viðtali við The Guardian, ekki gera ráð fyrir því að þjóðaratkvæðagreiðslan dugi, ein sér, til að konum verði tryggður réttur á „frjálsu, öruggu og löglegu þungunarrofi um allt eylandið Írland, frá og með maí 2018“. Hver sem verði niðurstaða atkvæðagreiðslunnar, verði baráttunni ekki þar með lokið. Ábyrgðina á baráttunni sé hins vegar ekki alla hægt að leggja á herðar þeim konum sem sjálfar gengið hafi gegnum þungunarrof.
„Það er gríðarþung byrði að ætlast til að fólk heyi þessa baráttu, sem þegar hefur verið svikið af lögunum og gert útlægt úr landi sínu,“ segir Sanquest. „Jafnvel þó að þú hafir ekki persónulega reynslu af málinu ættirðu að láta þig það varða. Þetta snýst um hvernig komið er fram við konur í samfélagi okkar.“