Það er ekki á hverjum degi sem tvær íslenskar konur gera mynd um konur í Hollywood en það eru þær Þóranna Sigurðardóttir og Sara Nassim einmitt að gera. Myndin sem um ræðir er höfundarverk Þórönnu sem einnig mun leikstýra myndinni. Þóranna var nýlega valin úr hópi fjölda umsækjenda til að taka þátt í leikstjórnar sumarnámskeiði á vegum AFI (American Film Institute). Aðeins átta konur voru valdar til þátttöku eða rétt um 6% umsækjenda og því ljóst að þetta er mikill heiður fyrir Þórönnu.
Um framleiðslu ZELOS munu sjá þær Sara Nassim sem stundar meistaranám í framleiðslu við AFI og bekkjarsystir hennar, Contanza Castro. Tökur á ZELOS munu fara fram í júlí og myndin verður fullkláruð í febrúar 2015.
Hér má sjá stiklu úr myndinni:
Kvennablaðið heyrði í Þórönnu og forvitnaðist um verkefnið og efnivið myndarinnar.
Til hamingju með að vera valin úr hópi fjölda umsækjenda, Þóranna, segðu okkur um hvað myndin ZELOZ fjallar?
Handritið er um keppniskonuna Maríu sem pantar fullkomið klón frá Norður-Kóreu á netinu, undir því yfirskini að með aðstoð klónsins geti hún sjálf eytt meiri tíma með fjölskyldunni. Maria verður svo upptekin af því að vera hin fullkomna útivinnandi móðir að hún byrjar að keppa við klónið. Það rennur svo smátt og smátt upp fyrir Maríu að þetta voru kannski ekki hennar bestu kaup.
Hver var kveikjan að þessari hugmynd?
Í sögunni er ég að skoða tíunda boðorðið, Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna, né nokkuð það, sem náungi þinn á. Öfund er sífellt stærri hluti af lífi fólks sérstaklega með þeirri nútímatækni sem við búum við þar sem fólk getur endalaust fylgst með nágrannanum og borið líf sitt saman við líf annarra.
Þóranna er um þessar mundir að fjármagna mynd sína Zelos á Indiegogo sem er hópfjármögnunarsíða og við hvetjum þá sem hafa tök á að styrkja þetta verkefni þeirra en það má gera hér. Því þótt að þátttakendur í námskeiðinu fái mikinn stuðning frá AFI og allt starfsfólk gefi vinnuna sína, þá er farið fram á að hver leikstjóri safni $25,000 með fjáröflun, til að myndin geti orðið að veruleika.
Þóranna er búsett í Los Angeles og er enginn nýgræðingur í kvikmyndabransanum en hún hefur fengist við kvikmyndagerð og framleiðslu frá unga aldri og nú nýverið vann hún við hlið Darren Aronovsky við tökur myndarinnar Noah. Við spyrjum Þórönnu um kynni hennar af Íslandsvininum Darren Aronovsky.
Ég kynntist Darren í gegnum listamennina Eið og Einar Snorra í New York í gamla daga og síðan þá höfum við haldið sambandi. Hann kom til Reykjavíkur árið 1999 með myndina sína Pi og þá fór pabbi minn með hann og þáverandi framleiðanda hans, Eric Watson, í smá bíltúr að skoða íslenska náttúru. Hann hreifst mjög af landinu eins og margoft hefur komið fram en hann hefur meðal annars stutt náttúruvernd á Íslandi veglega.
Það var svo vorið 2011 sem Darren hafði samband við mig út af Noah og ári síðar fór hún á fullt skrið. Það var mjög áhugavert að fylgjast náið með þessari mynd verða að veruleika. Aronofsky er greindur og góður sögumaður en fyrir mér náði hann að svipta allri dulúð af leikstjórahlutverkinu. Hann vaknaði fyrstur af okkur öllum og fór síðastur að sofa. Hann var einlægur og opinskár um allar sínar vangaveltur ,hugmyndir og þær áhyggjur sem fylgdu starfinu. Þetta reyndist mér mikil hvatning í að láta mína eigin drauma um að leikstýra verða að veruleika. Það var síðan Eric Watson, sameiginlegur vinur okkar Darren, sem hvatti mig svo til að sækja um þátttöku í þessu leikstjóranámskeiði hjá AFI. Þannig að óbeint á ég þeim félögum það að þakka að hafa drifið mig og það er mikill heiður að vera valin í hóp þessara frábæru kvenleikstjóra og að fá til liðs við mig þessar frábæru konur til að framleiða.
Kvennablaðið hvetur lesendur sína til að styrkja þórönnu á síðunni Indigogo en einnig er hægt að millifæra á íslenskan reikning og þá fær fólk sama glaðning og á Indiegogo.
Reikningsnúmerið er:0137-26-000914 og kenntalan er: 140974 3749