
Viku eftir að hungurverkfalli Ghasems Mohamadi lauk og tveimur vikum eftir að ég hitti hann fyrst bankaði ég aftur uppá hjá honum. Omid var í heimsókn, en Ghasem kom til dyra. “Þú lítur miklu betur út!” hrópaði ég uppyfir mig og hann flissaði, sennilega ekki fullviss hvað ég hafði hrópað. Inni í herbergi var Omid að stunda einhverja leikfimi á gólfinu. Stemmingin í húsinu var miklu líflegri en áður. Fólk brosti, og ekki bara af háðskri biturð.
Við fórum að spjalla um hvernig hefði verið þessa síðustu viku. Ghasem getur enn bara borðað súpur og drukkið mjólk – hann finnur ekki lengur til svengdar og munnur hans er alsettur munnangri. Meltingarvegurinn hefur farið illa úr mótmælasveltinum. Ég sagði þeim frá því að fólk hefði dregið í efa að hann hefði í alvöru svelt sig. Það trúði ekki þyngdartapinu, né að hann væri ekki bara að sækjast eftir athygli. Omid starði á mig og fór svo að hlæja. “Þau hefðu átt að tala við læknana! Í fyrra skiptið sem við komum sögðu þeir að hann hlyti að gefast upp bráðlega. Næst trúðu þeir ekki eigin augum. Enda fékk hann þá strax tvo lítra af blóðvökva í æð.”
Við töluðum um þær vísbendingar sem Ghasem hafði fengið, á meðan hann svelti sig, um að ráðuneytið hefði þegar tekið ákvörðun um málið hans. Ghasem mundi ekki eftir því, frekar en mörgu öðru sem átti sér stað þá daga, en Omid mundi eftir því. Ghasem hafði verið sagt að ráðuneytið hefði þegar tekið ákvörðun um málið hans. Hann fékk ekki að vita um hvað sú ákvörðun var. Enginn frá ráðuneytinu bar honum nein skilaboð á meðan hann svelti sig um að tilefni væri til að hætta því. Þótt Hanna Birna hafi sagt opinberlega að málið hans yrði leyst svo fljótt sem vera mætti, viku eftir að mótmælasveltirinn hófst, var honum sagt að málið hans væri “á ís” þar til hann hætti hungurverkfallinu.
Annað atriði sem hefur verið velt upp síðustu vikur er hvers vegna Ghasem var neitað um hæli í Svíþjóð. Sumum þykir væntanlega eðlilegt að fjölskyldulaust barn frá einu stríðshrjáðasta landi heims fái ekki hæli í Skandinavíu, og fyrir þeirra hönd spurði ég hvers vegna hann teldi hælisumsókninni hafa verið synjað. Hann sagði sögu sína hafa verið illa eða ranglega þýdda, en þar fyrir utan hafi maðurinn sem fór yfir umsóknina hans líka verið alræmdur rasisti.
Þegar ég spurði hann hvaða væntingar hann hefði til fundarins með ráðuneytinu, sem hann hefur nú fengið óljóst loforð um, var svarið einfalt. “Ég vona bara að þau séu ekki að fíflast með mig. Ég get ekki afborið það lengur.” Hann spurði lögfræðinginn sinn hvað hann gæti gert ef þetta væri gildra, og lögreglan handtæki hann við komuna í ráðuneytið. “Lögfræðingurinn sagði ‘Nei, ráðuneytið mun ekki gera neitt svo heimskulegt.’” Það er vissulega erfitt að trúa því. En maður skilur efasemdirnar.
Pistill Benjamín Julian birtist áður á vefnum pistillinn.is
Þann 27. apríl birtum við grein eftir Evu Hauksdóttur um mál Ghasem sem þá var í hungurverkfalli, hana má lesa hér.