Á föstudag birtist í Fréttablaðinu grein eftir Sigríði Á. Andersen. Í greininni lýsir Sigríður yfir áhyggjum af vaxandi gyðingahatri í Evrópu og nefnir eitt dæmi.
Sigríður velur dæmi af imam í Danmörku, sem hefur verið kærður fyrir hatursorðræðu í garð gyðinga. Hún skrifar:
„Við hér á Íslandi höfum sem betur fer ekki þurft að bregðast við andstyggilegri ræðu eins og þessari. Ég vil leyfa mér að vona að það sé vegna þess að Íslendingar eru almennt vel upp aldir í góðum siðum og náungakærleik, vel upplýstir og umburðarlyndir“.
Ekkert bendir til að hér fari Sigríður með rétt mál. Nægir að nefna þær rökstuddu ásakanir sem komið hafa fram á síðastliðnum árum um gyðingahatur í íslenskri samfélagsumræðu: í umræðu um frumvarp að banni við umskurði drengja uppnefndi töluverður fjöldi fólks gyðinga „barnaníðinga“ vegna umskurðarsiðarins; í Passíusálmum Hallgríms Péturssonar er gyðingum hallmælt í öðru hverju orði, en þeir eru enn fluttir ár hvert í Ríkisútvarpinu, til hátíðarbrigða. Fyrr á þessu ári birti ritstjórn DV reyndar grein þar sem forstöðumanni Simon Wisenthal-stofnunarinnar var lýst sem „óvini Íslands“ fyrir að fara þess á leit að útvarpið endurskoði þennan árlega bölbænaflutning ríkisstofnunarinnar í garð gyðinga.
Að síðustu mætti nefna skrif Sigríðar sjálfrar. Sigríður Á. Andersen hefur nú um hríð setið í embætti dómsmálaráðherra. Með því að velja aðeins eitt dæmi, hatursorðræðu eins múslima í Danmörku, gefur ráðherrann til kynna að óbeit í garð eins minnihlutahóps sé fyrst og fremst öðrum minnihlutahópi að kenna, segir Smári McCarthy, þingmaður Pírata, á Facebook, og lýsir athæfinu sem hundaflautupólitík:
„Hér stundar dómsmálaráðherra svakalega hundaflautupólitík á hundadögum. Nefnir dæmi um brjálaðan imam sem mun líklega sæta refsingar eftir dómsmál, og fer svo rakleitt þaðan yfir í almenna umræðu um gyðingahatur og ráðherraráð ESB. Mjög takmörkuð merking er í þessu. Það er lítið sem ekkert af upplýsingum um hverjir það eru sem eru að hatast svona við gyðinga og skapa slíka ógn að ráðherraráðið þurfi að ræða málið, en það er „implicit“ tenging sem vísar til múslima sem vonda fólkið í frásögninni. Dómsmálaráðherra á að hafa aðgang að nægum upplýsingum til að geta upplýst almenning betur en þetta, og hefur kannski líka eitthvað betra við tímann sinn að gera en að búa til ófreskjur undir rós.“