Samkvæmt fyrstu rannsókn sem unnin hefur verið til að kortleggja áhrif iðnaðar á öll hafsvæði heims, teljast aðeins um 0,1% af Norður-Atlantshafi nú til villtrar náttúru.
Rannsóknin birtist í vísindaritinu Current Biology. Hlutfall villtra hafsvæða af öllum hafsvæðum heims er, að gefnum forsendum rannsóknarinnar, um 13%. Þar af er stærstu villtu hafsvæðin að finna í grennd við Suðurskautið, en 26,9% sjávar norður af Antartíku teljast villt hafsvæði.
Höfundar rannsóknarinnar greindu hafsvæðin út frá nítján áhrifaþáttum sem þau skiptu í fjóra flokka: áhrif af fiskveiðum, önnur áhrif í hafi, áhrif mengunar frá landi og áhrif loftslagsbreytinga.
Eins og gera má ráð fyrir er óspillt eða villt náttúra fyrirferðarminni eftir því sem fiskiðnaður er fyrirferðarmeiri, og er stærstur hluti þeirra villtu hafsvæða sem eftir standa í veröldinni fjarri ströndum þeirra landa sem eru í byggð. Á engu einu hafsvæði er þó villt náttúra fyrirferðarminni en á Norður-Atlantshafi.
Höfundar rannsóknarinnar hvetja bæði stjórnvöld einstakra ríkja og fjölþjóðlegar stofnanir á við Sameinuðu þjóðanna til markvissra aðgerða til að varðveita líffræðilegan fjölbreytileika og villta náttúru sjávar.