Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Leiðbeinendur leikskóla eru með lægstu heildarlaun fyrir fullt starf: 354.000 kr. á mánuði

$
0
0

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:

Sólveig Anna

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.

Nú get ég auðvitað ekki fullyrt um hvaða ástæður eru fyrir því að vinnuslysum starfsfólks á leikskólum hefur fjölgað um rúman helming síðan árið 2008. Hálka er nefnd sem sökudólgur og ég ætla ekkert að andmæla því; starfsfólk leikskólanna er mikið úti, ekki bara þegar veðrið er gott og aðstæður til fyrirmyndar heldur líka yfir vetrartímann þegar, eins og við öll vitum, það getur verið vandasamt að reyna að fóta sig á svellinu. Og stundum þarf að bregðast ansi fljótt við og hlaupa af stað án þess að hugleiða eigin líkamlegt öryggi, eins og öll ættu að þekkja sem hafa eytt einhverjum tíma með börnum.

En ég ætla samt að nota tækifærið, bæði sem fyrrum leikskólastarfsmanneskja og sem núverandi formaður Eflingar og benda á eftirfarandi, sem ég held að sé gríðarlega mikilvægt fyrir okkur öll að horfast í augu við svo að við getum í kjölfar þess sameinuð krafist þess að eitthvað verði að gert (enda hlýtur að vera augljóst að ekki verður lengur við óbreytt ástand unað):

Samkvæmt viðhorfskönnun síðasta árs (Efling lætur framkvæma slíka könnun árlega meðal félagsmanna) kemur fram að leiðbeinendur á leikskólum eru af félagsmönnum langóánægðastir með laun sín (8 af hverjum 10 óánægð). Það skal engan undra: Leiðbeinendur á leikskólum eru með lægstu heildarlaunin að meðaltali fyrir fullt starf eða 354.000 krónur á mánuði.

Ekki aðeins eru leiðbeinendur á leikskólum með svona glæpsamlega lág laun; áhyggjur leiðbeinanda af fjárhagsstöðu sinni aukast á milli ára en ríflega helmingur þeirra sem tilheyra þessum hóp hafa miklar áhyggjur af fjárhagsstöðu sinni. Þarna væri auðvitað hægt að skrifa mikið og margt um orsök og afleiðingu og ábyrgð þeirra sem halda að svona framkoma við vinnuaflið sé í lagi en við látum það bíða betri tíma.

Til að bíta höfuðið af skömminni telja jafnframt nálægt 8 af hverjum 10 sem starfa á leikskólunum (samkvæmt fyrrnefndri könnun) að vinnuálagið sé of mikið.

Staðan er semsagt svona:

Fólkið (mestmegnis konur) sem starfar með börnun íbúa borgarinnar eru ekki aðeins með svo lág laun að þau hafa miklar áhyggjur af fjárhagsstöðu sinni heldur eru einnig látin starfa við aðstæður þar sem vinnuálag er of mikið.

Og nú berast okkur þær fréttir að vinnuslysum starfsfólks á leikskólum hafi fjölgað um rúman helming á áratug.

Hljótum við ekki að vera sammála um að það plús það sem ég taldi upp hér að ofan bendi til þess að eitthvað verulega mikið sé að í þessu kerfi? Stór hópur fólks við vinnu í því sem hlýtur að vera hægt að flokka sem eitt af mikilvægustu störfum samfélagsins, á svívirðilega lágum launum, undir gríðarmiklu álagi og þar að auki í vaxandi slysahættu.

Nú bíðum við öll eftir því að fá nánari greiningu á því hverjar orsakir aukinnar slysatíðni eru en það kæmi mér ekki á óvart þó að ekki sé við hálkuna eina að sakast, að niðurskurður eftir-hruns áranna og álagið sem honum fylgdi, plús álagið sem fylgir því að starfa í aðstæðum sem eru oft mjög erfiðar, séu stór partur af ástæðunum.

Að lokum: Ég get ekki fullyrt um orsakir beinbrota og vinnuslysa en ég get fullyrt að við hjá Eflingu munum setja fullan kraft í það í komandi kjarasamningum að hækka laun okkar félagsmanna sem starfa hjá leikskólunum. Við nefnilega vitum og viðurkennum það sem borgin virðist því miður ekki hafa viðurkennt:

Það er óboðlegt með öllu að hafa fólk við svo mikilvæg störf á óboðlegum launum og við aðstæður sem eru fyrir löngu orðnar fáránlegar.

Og ég er sannfærð um það að við og starfsfólk leikskólanna muni njóta afdráttalauss stuðnings almennings. Ég bókstaflega finn það í hjartanu á mér.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283