Skiptar skoðanir eru nú um alvarleika þess að útskriftarnemandi í viðskiptafræði við Háskólann á Akureyri hafi farið rangt með mikilvægi virðisaukaskatts fyrir fjárhag ríkisins í lokaritgerð sinni, og hvar ábyrgð á vinnubrögðum nemandans liggur.
Vísir birti á laugardag frétt um niðurstöður ritgerðarinnar undir fyrirsögninni „Virðisaukaskatturinn er bókstaflega engu að skila“. Í fréttinni var haft eftir Jóhanni Elíassyni, nýútskrifuðum viðskiptafræðingi:
„Virðisaukaskatturinn er bókstaflega engu að skila. Tekjurnar 2011 voru 20 milljarðar og 2012 voru þær 18. Svo hafa þær reyndar farið hækkandi eftir það“.
Þessu svaraði Þórólfur Matthíasson, hagfræðiprófessor við HÍ, sem rætt var við í sama miðli daginn eftir. Ummæli hans birtust undir fyrirsögninni „Virðisaukaskattur er stærsti tekjustofn ríkisins“ og er þar haft eftir Þórólfi:
„Virðisaukaskatturinn skilar um það bil 30% af tekjum ríkissjóðs samkvæmt fjárlögum 2018 og er einn af mikilvægustu tekjustofnum ríkisins.“
Ekki virðist um það deilt að Þórólfur hefur á réttu að standa og að fullyrðing útskriftarnemans er röng. Hvort það, út af fyrir sig, er aftur á móti hneyksli eða þá hvað hneykslið ætti að snúast um er nú umdeilt á samfélagsmiðlum.
Með ólíkindum að menn geti lokið BS-gráðu með svona uppleggi
Vilhjálmur Þorsteinsson, fjárfestir, segir út í hött að „menn geti lokið BS-gráðu við íslenskan háskóla með svona uppleggi“:
„Búinn að skoða aðeins ofan í furðulega virðisaukaskatts-BS-ritgerðar-málið. Feillinn hjá höfundi, leiðbeinanda hans og Háskólanum á Akureyri er að byggja á Excel-skjali frá RSK sem sýnir útskatt og innskatt hjá ýmsum atvinnugreinum. Það skjal innifelur hins vegar ekki VSK-inn sem endanlegur notandi greiðir, þ.e. fólk eins og ég og þú, og lögaðilar sem ekki eru VSK-skyldir (t.d. bankar og tryggingafélög). Langstærstur hluti nettó VSK tekna kemur að sjálfsögðu frá endanlegum neytanda, það er einn aðalfídus kerfisins. – Hinn nýútskrifaði viðskiptafræðingur ber svo saman hugmynd um flatan veltuskatt við þennan afmarkaða part af VSK-kerfinu og fær þá út skattprósentu sem er út í hött. Það er satt að segja með nokkrum ólíkindum að menn geti lokið BS-gráðu við íslenskan háskóla með svona uppleggi.“
Kröfur íslenskra háskóla mættu vera meiri – en þar hjálpar kerfið ekki kennurum
Ásgeir H. Ingólfsson, blaðamaður og gagnrýndi, segir sannleikskorn í því, en aftur á móti veiti kerfið kennurum lítinn stuðning til að halda uppi hörðum kröfum til útskriftarnemenda. Þá segir hann að ef til vill ættu ekki allar útskriftarritgerðir íslenskra háskóla að vera gerðar aðgengilegar á vefnum skemman.is, án frekara gæðaeftirlits, enda skapist þar hætta á að vondar heimildir virðist traustar:
„Tvennt sem fer í taugarnar á mér í umræðum um lélegu BA-ritgerðina frá HA:
Allir þeir sem eru að halda því fram að BA-ritgerðir séu nánast allar eitthvað drasl og eigi því nánast aldrei að vera fréttaefni. Það er til hellingur af góðum BA-ritgerðum – og hellingur af vondum vissulega líka.
Allir þeir sem líta á þetta sem sérstaka hneysu fyrir skólann og/eða leiðbeinandann. Án þess að vita neitt meira en að þessi BA-ritgerð sé til og sé á skemmunni, þótt vel geti verið að nemandinn hafi nýtt sér alla hjálp leiðbeinanda illa og mögulega rétt slefað upp í fimm.
Það er samt sannleikskorn í hvoru tveggja, kröfurnar hjá íslenskum háskólum mættu vera meiri – en kerfið er alls ekki að hjálpa kennurum að halda þeim kröfum uppi. Og það kerfi að setja allar ritgerðir á Skemmuna, óháð gæðum, er mögulega eitthvað sem mætti endurskoða – enda geta þetta jú endað sem heimildir í öðrum ritgerðum.“