Jeremy Corbyn, formaður breska Verkamannaflokksins, baðst á miðvikudag afsökunar á að hafa komið fram á viðburði þar sem aðgerðum Ísraelsríkis á Gaza var líkt við nasisma.
Frummælandi líkti aðgerðum á Gaza við nasisma
Viðburðurinn átti sér stað árið 2010, á minningardegi helfararinnar, undir yfirskriftinni „Never Again for Anyone —Auschwitz to Gaza“. Aðalræðumaður á viðburðinum var Hajo Meyer, gyðingur sem lifði af útrýmingarbúðirnar í Auschwitz. Meyer líkti, að sögn The Guardian, aðgerðum Ísraelsríkis á Gaza endurtekið við aðgerðir nasista í helförinni.
Corbyn sagði um þátttöku sína:
„Í leit að réttlæti fyrir Palestínumenn og friði í Ísrael/Palestínu, hef ég gegnum tíðina, endrum og eins, birst á viðburðum með fólki með sjónarmið sem ég hafna alfarið. Ég biðst afsökunar á áhyggjum og kvíða sem þetta hefur valdið.“
Ákvæðin sem vantar í viðmið Verkamannaflokksins
Corbyn hefur sætt ámæli síðustu mánuði fyrir að takast ekki af einurð á við gyðingahatur og fordóma í garð gyðinga innan Verkamannaflokksins. Í viðbragði við þeirri gagnrýni hefur Verkamannaflokkurinn lagt fram aðgerðaskrá gegn gyðingahatri. Sú skilgreining á and-semítisma sem þar birtist er hins vegar ekki í fullu samræmi við þau alþjóðlegu viðmið sem lögregluyfirvöld í Bretlandi, skoska þingið, velska þingið, landssamtök háskólanema í Bretlandi og fleiri hafa öll tekið upp. Þau viðmið voru gefin út af Alþjóðasamtökum um minningu helfararinnar (International Holocaust Remembrance Alliance eða IHRA). Corbyn og flokkurinn sæta enn ámæli fyrir þessa vöntun.
Í skilgreiningu Verkamannaflokksins vantar fjögur dæmi af þeim tólf sem talin eru upp í viðmiðum IHRA, meðal annars að gyðingahatur geti falist í samanburði milli stefnu Ísraelsríkis og nasista.
Hinir liðirnir sem vantar í viðmið Verkamannaflokksins eru lýsingar á tilvist Ísraelsríkis sem rasískri framkvæmd, ásakanir í garð gyðinga um að sýna Ísrael eða meintum hagsmunum gyðinga meiri hollustu en hagsmunum þjóða þeirra, og að gera harðari kröfur til Ísraelsríkis en til annarra lýðræðisríkja. Í viðmiðum IHRA er tekið fram að hvert dæmi sem talið er upp geti falið í sér gyðingahatur en það velti þó á samhengi.
Corbyn sakaður um gyðingahatur
Gideon Falter, formaður Hreyfingar gegn gyðingahatri (Campaign Against Antisemitism eða CAA), segir liggja ljóst fyrir að Jeremy Corbyn sé:
„gyðingahatari og að Verkamannaflokkurinn er orðinn andsemitískur að stofni til. Vandinn er ekki einn maður heldur heil hreyfing sem hefur tekið yfir Verkamannaflokkinn, sem áður fyrr var and-rasískur, og spillt honum með rasisma.“
John Mann, þingmaður Verkamannaflokksins, segir brýnt að skilgreining IHRA verði í heilu lagi lögð til grundvallar baráttu flokksins gegn andsemítisma í eigin röðum.