Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Þvinguð mannshvörf og pyntingar í Afrin undir hernámi Tyrklands

$
0
0

Íbúar í Afrin hafa verið teknir til fanga og pyntaðir, hús þeirra og fyrirtæki rænd og tekin eignanámi, skólar eyðilagðir og yfirteknir, segir í fréttatilkynningu sem mannréttindasamtökin Amnesty International létu frá sér aðfaranótt fimmtudags.

Íbúar í Afrin greindu fulltrúum Amnesty frá að minnsta kosti 86 tilfellum handahófskenndrar frelsissviptingar, pyntinga og þvingaðra mannshvarfa. Um er að ræða bráðabirgðaniðurstöður en ítarlegri skýrslu frá svæðinu er að vænta.

Sýrlenskar bardagasveitir á ábyrgð Tyrklands

Samtökin segja að tyrknesk yfirvöld á svæðinu hafi veitt sýrlenskum bardagasveitum, hliðhollum Tyrklandi, næði til að fremja alvarleg mannréttindabrot gegn almennum borgurum í Afrin. Meðal þeirra hópa sem sagðir eru ábyrgir fyrir alvarlegum mannréttindabrotum í Afrin eru Ferqa-55, Jabha al-Shamiye, Faylaq al-Sham, Sultan Mourad og Ahrar al-Sharqiye.

Eftirfarandi er haft eftir manni sem tekinn var til fanga af liðsmönnum Sultan Mourad:

„Ég var færður í al-Ra’i fangelsið í Azaz, sem starfrækt er af Soultan Mourad. Ég var ekki ypntaður, en ég sá meðlimi Sultan Mourad berja menn fyrir framan mig, að gamni sínu, og að nóttu til heyrði ég ópin í mönnum bergmála gegnum bygginguna. Mér var sleppt án þess að vera færður fyrir dómara. Ég hélt ég kæmist aldrei þaðan.“

Maðurinn er annað tveggja vitna sem segjast hafa séð blaðamenn, kennara, verkfræðinga og aðgerðasinna, ásamt fyrrverandi starfsliði PYD og YPG í fangelsinu í Azaz.

Herliðið bregst skyldum sínum algjörlega

Stjórnandi rannsókna samtakanna í Mið-Austurlöndum, Lynn Maalouf, segir að eftir hernám Afrin beri Tyrkland ábyrgð á velferð íbúa svæðisins og á því að viðhalda lögum og reglu. Hingað til, segir hún, „hefur herlið þeirra brugðist þeirri skyldu algjörlega.“ Maalouf segir Tyrkland ekki geta vikist undan ábyrgð með því að láta sýrlenska bardagahópa um skítverkin.

140.000 manns frá Afrin dvelja nú í tjaldbúðum eða eyðilögðum húsum, án aðgangs að grunnþjónustu á við heilbrigðisþjónustu. Slasaðir og veikir þurfa að bíða leyfis frá stjórnvöldum til að vera hleypt inn í Afrin-borg, nálægustu borg þar sem heilbrigðisþjónusta er í boði. Þá hafa sýrlensk stjórnvöld komið í veg fyrir ferðalög þeirra til annarra svæða í Sýrlandi, þar sem lífskjör eru betri. Þá kemur fram í skýrslunni að kúrdísku sveitirnar YPG, sem áður fóru með yfirráð í borginni, varni hundruðum íbúa borgarinnar frá því að ferðast til hennar aftur, með vegatálmum á fjallvegum.

Fjöldi þeirra sem hefur engu að síður tekist að snúa aftur til borgarinnar hefur þar staðið frammi fyrir því að íbúðarhúsnæði og verslunarhúsnæði hafi verið teknar eignanámi og öðrum eignum rænt af vopnuðum sveitum undir vernd Tyrkja. Húsnæðið er ýmist nýtt af meðlimum bardagasveitanna eða fært flóttafólki frá Ghouta og Homs.

Vitnað er í konu frá Afrin sem sagði samtökunum: „Það er ekki hægt að ásaka fjölskyldurnar frá Ghouta. Þær hafa lent á flótta eins og við og eru jafnvel í enn lakari stöðu.“

Íslenskur ríkisborgari hvarf í Afrin

Haukur Hilmarsson hvarf í Afrin, í innrásaraðgerð Tyrklands, og lýstu tyrkneskir fjölmiðlar því yfir, í byrjun marsmánaðar, að hann hefði fallið í átökum. Haukur hefur ekki komið í leitirnar síðan, lífs né liðinn, og eru afdrif hans því enn óstaðfest, nú að verða fimm mánuðum síðar.

Íslensk stjórnvöld segjast hafa leitað svara, annars vegar með fyrirspurnum til ráðherra og sendiherra ýmissa ríkja, hins vegar með lögreglurannsókn sem enn er opin. Íslensk stjórnvöld segjast einnig hafa verið gagnrýnin á aðgerðir Tyrklands í Afrin. Ekki er ljóst hvar eða hvernig sú gagnrýni hefur komið fram.

Fjölskylda og aðstandendur Hauks Hilmarssonar hafa gagnrýnt viðbragðsleysi íslenskra stjórnvalda í málinu, og meðal annars bent á að samkvæmt framburði ráðherra virðast þau kjósa að haga fyrirspurnum sínum í samræmi við tilmæli tyrkneskra stjórnvalda sjálfra.

Þær niðurstöður Amnesty International sem hér er fjallað um byggja á viðamikilli rannsókn samtakanna á daglegu lífi í borginni eftir hernám hennar síðastliðið vor. Í tilkynningunni kemur fram að þann 16. júlí hafi samtökin borið bráðabirgðaniðurstöður rannsóknarinnar undir tyrknesk yfirvöld og leitað viðbragðs. Níu dögum síðar hafi ríkisstjórn Tyrklands svarað með því að draga hlutleysi samtakanna í efa, en ekki svarað innihaldi niðurstaðanna efnislega.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283