Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Barnsrán í boði barnaverndarnefndar

$
0
0

Víkingur Kristjánsson skrifar:

Í dag var felld niður kæra á hendur mér, sem byggði á gruni um að ég hafi misnotað sjö ára son minn kynferðislega. Eftir afar langt ferli í dómskerfinu, hefur nú loks verið úrskurðað að ekkert sé hæft í þessum grunsemdum. Þetta ætti að vera gleðidagur, og marka endalok á þeim gegndarlausu árásum sem dunið hafa á mér og fjölskyldu minni frá upphafi ársins 2017. Ég er þó ekki bjartsýnn á að sú verði raunin. Reynslan hefur kennt mér að vera viðbúinn því versta.

„Barnaverndaryfirvöld hjá Reykjavíkurborg hafa brugðist syni mínum“

Mér hefur verið sagt og það nokkrum sinnum undanfarið ár, af fólki sem vill vel, að reiðin gagnist mér ekkert. Ég veit að þetta er rétt og hef því reynt að vanda mig við að taka þessum ljótu árásum af stillingu og yfirvegun. Þetta gerði ég ekki síður vegna tilmæla frá lögfræðingi mínum, um að upphlaup hvers konar sem réttlætiskennd mín kveikti, gæti skaðað málstað minn. Ég hef því haldið mig til hlés og beðið. Sú bið hefur tekið á svo ekki sé meira sagt.

Það væri lygi ef ég segðist ekki vera reiður.  Að sitja í skýrslutökum hjá rannsóknarlögreglu og sverja af sér barnaníð er niðurlægjandi reynsla sem ég óska engri saklausri manneskju. Og ég er sannarlega saklaus af þessum ásökunum. Það er þó, þrátt fyrir allt, ekki aðalatriðið hér. Ég er miklu frekar ósáttur við barnaverndaryfirvöld hjá Reykjavíkurborg, sem hafa í þessu máli algerlega brugðist syni mínum, og heilbrigðu og fallegu feðgasambandi sem við höfum átt frá því hann fæddist. Þetta er vert að undirstrika, því það er mikilvægt, að ég hef frá upphafi sinnt syni mínum og haldið honum heimili að fullu til jafns við móðurina, en við skildum þegar hann var fimm mánaða gamall.

Í málsmeðferð sonar míns, sem ljóst hefði mátt vera að byggði á hatrammri umgengnisbaráttu af hendi móður hans, tók Barnaverndarnefnd eingöngu tillit til einstakra atriða, auk þess sem starfsmaður nefndarinnar leyfði sér að fara út fyrir verkramma sinn, beygja reglur á vafasaman hátt, og verða um leið þátttakandi í tilraunum til að skaða til frambúðar samband sonar míns við mig, systkini sín og stjúpmóður.

„Vildum frá upphafi leiðrétta þetta mál, hvaðan sem það kæmi“

Móðir drengsins hóf tálmun á umgengni okkar við hann í upphafi árs 2017. Þá fengum við bréf þar sem unnusta mín var sökuð um gróft ofbeldi á hendur syni mínum. Lýsingar voru af þeim toga að eðlilegast  hefði verið að fara með málið beint til Barnaverndarnefndar, en móðurinni hugnaðist það ekki. Í staðinn var fundinn sálfræðingur úti í bæ til að taka könnunarviðtal við strákinn. Við samþykktum það að sjálfsögðu, og vildum frá upphafi leiðrétta þetta mál, hvaðan sem það kæmi. Eftir tvo samtalstíma hafði ekkert komið fram sem benti til að hinar þungu ásakanir ættu við rök að styðjast. Sálfræðingurinn sagði ekki þörf á frekari viðtölum, en móðirin gekk fast eftir því að fleiri tímum yrði bætt við, og við því var orðið. Eftir nokkuð langa bið, þar sem ég hafði enga umgengni við son minn, kom greinargerð frá sálfræðingnum. Í niðurlagi hennar stendur:

Ekkert bendir til þess að [nafn sonar míns] glími við klínískan vanda en virðist finna fyrir sálrænni vanlíðan vegna aðstæðna.

Eftir að greinargerðin leit dagsins ljós fórum við fram á að umgengnisréttur okkar yrði virtur og við fengjum son minn aftur til okkar. Við því var ekki orðið. Ég hafði á þessu tímabili hringt nokkrum sinnum á skrifstofu Barnaverndarnefndar og lýst yfir áhyggjum mínum yfir stöðu mála. Þar tilkynnti ég að ég teldi móður drengsins ekki vera í andlegu jafnvægi, hún væri haldin ranghugmyndum og að ég teldi ekki hollt fyrir drenginn að vera haldið jafn markvisst frá mér og fjölskyldu minni, eins og gert væri. Barnavernd sinnti þessu ekki á neinn hátt. Ég var auk þess í góðu sambandi við skólayfirvöld. Þar á bæ voru uppi áhyggjur yfir stöðu mála, félagslegu umhverfi sonar míns og þeirri staðreynd að honum var haldið frá föður sínum, sem hann var augljóslega tengdur sterkum böndum, og fjölskyldu hans. Skólayfirvöld sendu Barnaverndarnefnd bréf, þar sem þessar áhyggjur voru útlistaðar. Barnavernd sinnti því ekki á neinn hátt.

Símtal frá Rannsóknarlögreglunni: lögð fram kæra

Viku eftir að greinargerð sálfræðings kom fram var ég kallaður á fund Barnaverndarnefndar, þar sem ég hélt að umræðuefnið yrði staða mála og hvernig þau væru best leyst. Í staðinn var mér  tjáð að borist hefði nafnlaus innhringing, þar sem lýst var grunsemdum um að ég væri að misnota son minn kynferðislega, og hefði stundað það að þukla á kynfærum hans á kvöldin og á nóttunni. Skýrslur sýna að þessi nafnlausa tilkynning barst frá móður hans. Ég var spurður hvort ég samþykkti að strákurinn hitti sérfræðinga hjá Barnahúsi, sem eru sérmenntaðir í að taka á málum sem þessum og úrskurða um hvort þörf sé á frekari rannsókn. Ég samþykkti það hiklaust, og bað um að því viðtali yrði flýtt eins og mögulegt væri. Málið var nú komið í farveg sem mig óraði ekki fyrir, ég vildi hreinsa mig af þessum ógeðfelldu ásökunum og hitta son minn eins fljótt og auðið væri. Hófst nú löng bið þar sem bæði ég, og lögfræðingar sem ég hafði fengið til liðs við mig, hringdum reglulega til að ýta á eftir könnunarviðtali Barnahúss.

Þann 9. júní fékk ég símtal frá Rannsóknarlögreglunni, og mér sagt að lögð hefði verið fram kæra sem byggði á grunsemdum um kynferðislega misnotkun, rannsókn færi nú í gang og ég var boðaður í skýrslutöku. Ég skildi ekkert. Var gjörsamlega eins og sleginn niður í götuna. Hvernig gat það mögulega verið niðurstaðan að kæra væri lögð fram? Ég er fullkomlega saklaus. Hafði fagfólk Barnahúss, sem ég var fullviss um að kæmust til botns í málinu og hreinsuðu mig af ásökunum, loks tekið könnunarviðtalið og niðurstaðan verið þessi? Hvernig gat þetta gerst?

Bréf til Barnaverndarnefndar

Ég leyfði mér í örvæntingu minni að skrifa bréf til starfskonu Barnaverndarnefndar, sem hafði málið á sinni könnu. Það var svohljóðandi:

Um það mál sem nú er til rannsóknar, og varðar [nafn sonar míns], vil ég koma eftirfarandi á framfæri:

Eftir að hafa staðið í umgengnisdeilu um sjö ára son minn í hálft ár stend ég nú frammi fyrir kæru vegna meints kynferðisbrots á hendur syni mínum. Aldrei í mínum verstu martröðum hef ég getað ímyndað mér þessa stöðu mála. Ég er sannarlega mjög reiður fyrir mína hönd, en þó miklu frekar fyrir hönd sonar míns.

Ég á 4 börn og eina stjúpdóttur til 5 ára. Elsti sonur minn er 24 ára, yngsta dóttir mín verður 3 ára í haust. Börnin mín hef ég alið upp af bestu getu með ást og umhyggju að leiðarljósi. Enga sögu um kynferðislega áreitni af neinu tagi er að finna hjá mér, enda slíkur óhugnaður jafn fjarri huga mínum og gjörðum sem hugsast getur. [Nafn sonar míns] hef ég umgengist frá fæðingu og við eigum náið og kærleiksríkt feðgasamband sem ég er stoltur af.

Þykir stofnun Barnaverndar ekkert einkennilegt við tímasetningu á meintum ásökunum? Þykir auk þess ekkert einkennilegt að þær koma í kjölfarið á ásökunum um gróft ofbeldi unnustu minnar á hendur [nafn sonar míns], sem viðtöl sálfræðinga hafa leitt í ljós að eiga ekki við rök að styðjast?

Ég hika ekki við að láta í ljós þá skoðun mína að hér hefur sú mikilvæga stofnun Barnarverndarnefnd algerlega brugðist hlutverki sínu. Sök sér með hina alvarlegu ákæru á mínar hendur. Mun verra er að hún hefur brugðist skjólstæðingi sínum, syni mínum [nafn sonar míns]. Barnaverndarnefnd á með réttu að grípa hann úr þeim ólgusjó sem hann nú svamlar í. Barnaverndarnefnd á með réttu að greina uppspuna og rógburð frá sannleikanum. [Nafn sonar míns] hefur ekki hitt föður sinn og systkini í hálft ár vegna geðþóttaákvörðunar móður hans, sem kýs að nota drenginn og barnslegan huga hans sem vopn í stríði sínu gegn föður hans og fjölskyldu.

Að Barnavernd hafi ekki á sínum snærum fagfólk til að greina sannleikann frá öfgafullum rógburði er umhugsunarvert og mjög ámælisvert.

Ég mun mæta með verjanda mínum til skýrslutöku hjá lögreglunni nk. mánudag.

Virðingarfyllst,

Víkingur Kristjánsson.

„Móðirin var ekki einungis viðstödd, heldur tók þátt í viðtalinu við drenginn“

Starfskona Barnaverndar hringdi í mig sama dag, að því símtali hef ég vitni, og tjáði mér að svona væri ferlið. Ef minnsti grunur kæmi fram í könnunarviðtali Barnahúss, væri lögð fram kæra og málið rannsakað frekar. Hún lét hins vegar, af einhverjum ástæðum, alveg vera að segja mér að mál sonar míns fór ekki hina viðurkenndu faglegu leið, ferli þess var nokkuð óvenjulegt og hún sjálf bar stærstu ábyrgð á því að kæran á hendur mér var lögð fram.  Þessar upplýsingar fékk ég fyrst þegar ég mætti með lögfræðingi til lögreglu í skýrslutöku. Þar kom eftirfarandi fram:

  • Sonur minn hitti vissulega sérfræðinga Barnahúss
  • Úrskurður fagaðila þar eftir viðtalið var sá að enginn fótur væri fyrir ásökunum.
  • Barnahús lét málið niður falla og átti það þar með að vera úr sögunni.

Viku síðar hringdi móðir drengsins í umrædda starfskonu Barnaverndarnefndar og bað um að sonur minn færi aftur í viðtal. Sagði hún að strákurinn hefði tjáð henni að hann hefði ekki þorað að nefna ákveðin atriði í viðtali Barnahúss. Móðirin mætti í kjölfarið sjálf með son minn á skrifstofu Barnaverndar. Þar átti áðurnefnd starfskona Barnaverndar, ásamt móðurinni, samtal við hann, og í sameiningu drógu þær upp úr honum að ég hafi verið að snerta á honum kynfærin. Að samtalinu loknu tók svo starfskonan ákvörðun um að leggja fram kæru. Öllu hlutleysi sem fagfólk Barnahúss byggir á, öllum takmörkunum á að barnið sé matað eða leitt í ákveðnar áttir af málsaðila var hér hent í burtu eins og ekkert væri. Móðirin var ekki einungis viðstödd, heldur tók þátt í viðtalinu við drenginn.

Og þar er komin ástæðan fyrir því að ég var kominn upp á lögreglustöð í yfirheyrslu út af grun um  kynferðislega misnotkun. Og ekki var aftur snúið, því um leið og kæra eins og þessi er lögð fram tekur sjálfkrafa við rannsóknarferli, sem í mínu tilfelli hefur staðið síðan. Sýslumannsembættið svipti mig auðvitað umsvifalaust rétti til að eiga nokkur samskipti við strákinn meðan rannsókn færi fram. Þar með var nokkuð augljósum markmiðum móðurinnar náð.

Sjö ára syni mínum var rænt frá mér af aðilum sem augljóslega svífast einskis í aðgerðum sínum, og ég bý í samfélagi þar sem engin leið er að treysta á að yfirvöld komi mér til hjálpar

„Verst af öllu að fá ekki að hitta strákinn minn“

Rannsóknin hefur verið mjög erfið og reynt á mig og fjölskyldu mína. Faðir stjúpdóttur minnar fékk t.a.m. símtal vestur á Ísafjörð frá lögreglunni, þar sem honum var tjáð að dóttir hans þyrfti að koma í könnunarviðtal út af grunsemdum um að ég væri kynferðisbrotamaður. Honum var eðlilega mikið brugðið. Stúlkunni var flogið suður. Í viðtalinu kom að sjálfsögðu ekkert fram sem studdi grunsemdir.

Systur sonar míns áttu sterkt og náið samband við hann, og þá sérstaklega stjúpsystir hans en þau kynntust þegar hann var 2 ára og hún 3 ára. Þau eru miklir vinir og hafa eytt löngum tíma saman, deildu herbergi og dóti. Hvernig útskýrir maður þessar aðstæður fyrir henni svo að vel sé? Yngri systirin, sem nú er 3 ára, hugsar mikið til bróður síns, og það er í raun með ólíkindum hvað jafn ungt barn og dóttir mín man langt aftur. Eftir rúmlega 1 árs fjarveru spyr sú stutta enn hvenær bróðir hennar komi aftur.

Verst af öllu hefur verið biðin, það að fá ekki að hitta strákinn minn, fá ekki að heyra í honum. Hvað gengur á í lífi hans? Hvað er honum sagt um þetta skyndilega gap í tilverunni? Og hvar endar þessi martröð, sem komin er svo fáranlega langt í kerfinu að maður þorir ekki að ímynda sér hvar eða hvenær lyktir verða.

Ég veit fyrir víst að Rannsóknarlögreglan komst að niðurstöðu í málinu í október síðastliðnum og sendi hana þá til saksóknaraembættisins. Niðurstaðan var sú að ég væri fullkomlega saklaus. Síðan þá hefur málið legið í bunka, fyrst hjá Ríkissaksóknara, og því næst Héraðssaksóknara án þess að nokkuð væri aðhafst fyrr en nú, rúmu ári eftir að þessi ótrúlega atburðarrás fór af stað.

Sjö ára syni mínum var rænt frá mér

Eftir stendur staðreynd sem má að mínu mati með fullum rétti orða svona: Sjö ára syni mínum var rænt frá mér af aðilum sem augljóslega svífast einskis í aðgerðum sínum, og ég bý í samfélagi þar sem engin leið er að treysta á að yfirvöld komi mér til hjálpar, þvert á móti hefur starfsfólk á sviði barnarverndar stutt þennan gjörning með vafasömum ákvörðunum sínum.

Ég hef nú þegar sent Sýslumanni erindi um lyktir mála og farið fram á að fá drenginn sem allra fyrst. Eins og ég nefndi í upphafi er ég ekki bjartsýnn. Næst er að sjá hvaða brögðum móðir hans beitir næst, og ekki síður hvernig barnaverndaryfirvöld munu haga sér í þeim efnum? Þeirra er valdið, en það má ljóst vera að ég treysti þeim engan veginn til að taka eðlilegar og rökréttar ákvarðanir í málinu.

Ég get ekki breytt því sem gerst hefur, en með þessum skrifum vil ég leggja mín lóð á vogarskálar, í þeirri von að ekkert foreldri þurfi að upplifa það sama og ég í samskiptum sínum við íslensk barnaverndaryfirvöld. Slík málsmeðferð er með öllu óboðleg og á ekki að líðast.

Auk þess vil ég hreinsa mannorð mitt. Þrátt fyrir að mál þetta hafi blessunarlega ekki komist í hámæli, hef ég oftar en einu sinni heyrt af sögum sem um mig ganga úti í bæ, þess efnis að ég hafi í raun og sanni misnotað son minn. Mér þykir ljóst hvaðan þær sögur spretta. Það er gott að geta hér undirstrikað að þær eiga ekki við rök að styðjast.

Ég hef nú þegar beðið um viðtal hjá forstjóra Barnaverndarstofu og mun á næstu dögum fara yfir næstu skref með lögfræðingi mínum.


Ofangreinda grein Víkings má ekki afrita að hluta eða í heild nema að undangengnu samráði við ritstjórn Kvennablaðsins. Hafið samband í síma 694 8881 eða í tölvupósti: kvennabladid@kvennabladid.is.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283