Á fimmtudag tilkynnti Vatíkanið um breytta afstöðu kaþólsku kirkjunnar til dauðarefsinga, sem hún er héðan í frá mótfallin í öllum tilfellum. Breytingin mun birtast í endurútgefnu trúarkveri kaþólskra (e. catechism). Þar verður einnig kveðið á um að kaþólska kirkjan vinni af einurð að því að dauðarefsingar verði afnumdar um allan heim.
Hin nýja stefna er mótuð af Frans páfa. Í þeirri útgáfu kversins sem forveri hans, Jóhannes Páll páfi II samþykkti árið 1992, sagði að kirkjan væri ekki ósamþykk dauðarefsingum þegar aðrar leiðir reynast ófærar til að tryggja mannslíf gegn ranglátum árásaraðila.
Árið 1995 var því bætt við að slík tilfelli væru í reynd sárafá og hugsanlega fyrirfyndust þau alls ekki.
Í hinni nýju útgáfu er vísað til þessa og sagt að áður hafi verið litið svo á að eftir sanngjörn réttarhöld af hálfu lögmæts yfirvalds gæti dauðarefsing falið í sér hæfilegt viðbragð við alvarleika ákveðinna glæpa og viðunandi leið til að varðveita sameiginlega hagsmuni. Um þessar mundir fari „aftur á móti vaxandi meðvitund um að reisn manneskjunnar glatist ekki, jafnvel eftir að afar alvarlegur glæpur hefur verið framinn.“
Þá hafi verið „þróaðar aðferðir við varðhald sem tryggja ekki aðeins vernd borgaranna, heldur gera það án þess að ræna hinn seka möguleikanum á endurlausn“.
Í ljósi guðspjallanna kenni kirkjan því nú að dauðarefsing ótæk í öllum tilfellum.