Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Helga Katrín Tryggvadóttir — minning

$
0
0
Helga Katrín Tryggvadóttir lést fimmtudaginn 26. júlí sl. á gjörgæsludeild Landspítalans, aðeins 34 ára gömul. Hún var mann- og þróunarfræðingur, eiginkona og tveggja dætra móðir, anarkisti, prinsippkona og baráttujaxl fram í fingurgómana — og beitti sér ötullega á fádæma víðtæku sviði aktívisma.

Helga vann statt og stöðugt að málefnum flóttafólks, hælisleitenda og innflytjenda á Íslandi og annarsstaðar, til að mynda með grasrótarsamtökunum No Borders og í störfum sínum innan akademíunnar. Hún tók þátt í mörgum af aðgerðum anarkistahreyfingarinnar sem hafði veruleg áhrif á hið samfélagslega umrót sem blómstraði í kjölfar efnahagshrunsins 2008, átti hlut að pólitískum hústökuverkefnum í Reykjavík, og starfaði með Öskru! — hreyfingu byltingarsinnaðra stúdenta við Háskóla Íslands árin 2009-10. Hún var einn af stofnendum, ritstjórum og helstu greinahöfundum tímaritsins Róstur — sem kom út árin 2010-11 og gerði jaðarmálefnum hátt undir höfði — auk þess sem hún sat um stund í ritstjórn Hugsandi, vefrits um menningu og fræði. Hún beitti sér í málum sem varða borgararéttindi, meðal annars svonefndu níumenningamáli, en í því öfluga stuðnings- og upplýsinganeti sem varð til og starfaði í kringum málið var Helga — að öðrum ólöstuðum — einn af hornsteinunum. Einnig lét hún sig róttæka náttúruvernd varða og barðist gegn rányrkju orku- og stóriðjufyrirtækja um víða veröld, allt frá heimahögunum við bakka Þjórsár til heimkynna frumbyggja í fjöllum Odisha-fylkisins á austanverðu Indlandi.

Meistararitgerð Helgu í þróunarfræði — um orðræðu þróunar og andóf gegn henni — á sér fáar ef einhverjar líkar innan íslensks fræðasamfélags. Þegar hún féll frá var hún langt á veg komin með doktorsverkefni í mannfræði um upplifun hælisleitenda af mannfjandsamlegu hæliskerfi íslenska ríkisins.

Helga Katrín skilur eftir sig eiginmanninn Jón Levy Guðmundsson og dæturnar Árúnu Emmu og Sivíu Láru.

Eftirfarandi minningargrein birtist upphaflega í Morgunblaðinu.

„Mannshöfuð er nokkuð þungt
en samt skulum við standa uppréttir
og sumarið bætir fyrir flestar syndir okkar.“

Svo segir í ljóði Sigfúsar Daðasonar.

Og þó óboðinn gestur, mannýgur og miskunnarlaus, hafi íþyngt höfði Helgu Katrínar síðustu árin — til viðbótar við hið sammannlega farg — gerði hún einmitt það: hún stóð upprétt.

Fyrir ekki svo löngu stóð Helga keik á Austurvelli og flutti ræðu á mótmælum gegn innrás Tyrklandshers í Afrin, sjálfstjórnarhérað Kúrda í Sýrlandi. Stuttu áður hafði borist sú harmafregn að Haukur Hilmarsson — ástkær vinur okkar og bróðir í baráttunni — hafi að öllum líkindum fallið í umræddum árásum, en þar barðist hann með alþjóðaher byltingarsveita Kúrda. Ræða Helgu var samhljóma grein hennar, sem birst hafði skömmu áður, þar sem hún sagði meðal annars að Hauki hafi þarna tekist að rífa hana upp úr hægindastóli hugsananna — ekki í fyrsta sinn.

Þannig var Helga: eldklár og næm, iðin og óeigingjörn, en alltaf efins um eigið framlag — alltaf jafn sannfærð um að hún gæti gert betur, ætti að gera betur, líka þegar hún sjálf atti kappi við dauðann.

Og þar lágu hugur hennar og hjarta: í baráttunni gegn rányrkju og fyrir lífum og réttindum þeirra sem allra minnst mega sín — þeirra sem oftast og verst verða fyrir barðinu á ógnarstjórn víggirts ríkisvalds og landamæralauss auðmagns.

Störf hennar á vettvangi þróunar- og mannfræða voru samofin andófinu, frjáls undan þeirri víðförlu blekkingu að aðgerðaleysi jafngildi hlutleysi — og að velgengi fylgi undirgefni. Þau voru og verða áfram liður í átökum sannleikans við lygaveldið. Óhjákvæmilegt er að ímynda sér umfang, gæði og mikilvægi frekari verka Helgu á þessu sviði, hefði henni gefist til þeirra heil mannsævi. En um leið felst huggun í því efni sem eftir hana liggur og mun blása öðrum kjark í brjóst, sé því haldið á lofti.

Sjálf hefði Helga líkast til ekki þóst kannast við slíkt, gert lítið úr eigin starfi og vísað athyglinni annað. En eins og fram kom í nýlegu viðtali við móður hennar um fyrirhugaðar virkjanir í Þjórsá opnuðu einmitt Helga og Jón Levý annarra augu fyrir þeim fjandsamlega fáránleika sem knýr slík áform.

Í greininni um Hauk sagði Helga það einkennandi fyrir karakter hans að hann hafi haft meiri áhyggjur af henni en sjálfum sér — samt kominn hálfa leið til Sýrlands með hjálp hugans. En á sama hátt lýsir það manngerð hennar í hnotskurn hversu lítið hún lét bera á átökunum við boðflennuna, en var undantekningarlaust viljug til að leggja lífsbaráttu annarra lið.

Helga hvatti okkur til þess að gráta ekki Hauk — og halda baráttu hans frekar lifandi: „Við skulum aldrei aftur leyfa okkur að horfa í hina áttina.“

En auðvitað grátum við Hauk, sé hann farinn fyrir víst.

Og nú grátum við Helgu Katrínu, ástkæra vinkonu, jafnvel þó við reynum einnig héðan í frá að stinga höfðinu aldrei í sandinn — halda þannig minningu hennar og baráttu lifandi og heiðra hana um leið.

„Og jafnvel þó við féllum
þá leysti sólin okkur sundur í frumefni
og smámsaman yrðum við aftur ein heild.“

Snorri Páll


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283