Meðal óvæntra afleiðinga hitabylgjunnar sem ríður yfir Evrópu er töluvert magn af sprengjum úr síðari heimsstyrjöld sem koma upp úr kafinu, bókstaflega, þegar yfirborð áa og stöðuvatna lækkar vegna uppgufunar. Við ána Saxelfur (þ. Elbe) hafa 22 sprengjur af ýmsum toga fundist á þessu ári, en töluverðu magni af sprengiefni var fleygt í ána eftir stríðið. Áin rennur frá Tékklandi, nálægt landamærum Póllands, til Hamborgar í norðurhluta Þýskalands.
Nokkuð algengt er að sprengjur úr stríðinu finnist í Þýskalandi, og kemur fyrir, enn þann dag í dag, ef hættulegt er talið að flytja sprengjurnar, að heilum borgarhverfum er lokað á meðan sprengjunum er fargað. Magnið nú er aftur á móti óvenjulegt. Grit Merker, lögreglufulltrúi í Saxland-Anhalt, segir orsök þessarar auknu tíðni vera skýra: lækkun vatnsyfirborðs.
Nýliðinn júlímánuður var heitasti mánuður í Þýskalandi frá því að mælingar hófust, og síðasti dagur mánaðarins var heitasti dagur í landinu fyrr og síðar, en hiti í Saland-Anhalt mældist þann dag allt að 39,5°C. Vatnsyfirborð árinnar Saxelfur hefur ekki verið lægra frá því fyrir síðari heimsstyrjöld.