Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Sextett Ólafs Gauks, Svanhildur og Rúnar —fjórtán lög frá þjóðhátíð Vestmannaeyja eftir Oddgeir Kristjánsson

$
0
0

Árið 1968 rættist draumur margra um að eignast plötu með lögum eftir Oddgeir Kristjánsson þegar út kom stór plata með 14 lögum eftir tónskáldið með textum eftir vini hans Ása í Bæ, Árna úr Eyjum og Loft Guðmundsson sem gerði texta við þrjú lög. Það voru SG-hljómplötur Svavars Gests sem stóðu að verki og hér var ekkert til sparað svo útgáfan yrði sem veglegust.

Svavar valdi til hljóðritunar fjórtán lög eftir Oddgeir Kristjánsson í samráði við Ólaf Gauk. Þessi lög útsetti Ólafur Gaukur síðan fyrir hinn vinsæla sextett sinn þar sem söngvararnir voru Svanhildur eignkona Ólafs Gauks og Rúnar Gunnarsson úr hljómsveitinni Dátum. Lögin voru síðan hljóðrituð á plötu sem kom út á miðju ári 1968 og hlaut þessi plata slíkar vinsældir að einstætt má telja. Fyrsta upplag hennar seldist þegar í stað upp og þó að platan hafi verið gefin út aftur og aftur allt fram undir 1980 þá dró ekkert úr vinsældum hennar.

Lögin á plötunni eru öll Þjóðhátíðarlög sem Oddgeir samdi sérstaklega fyrir Þjóðhátíð í Eyjum og mun Oddgeir vera upphafsmaðurinn að sérstöku þjóðhátíðarlagi fyrir Vestmannaeyjar.
Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum er útihátíð sem haldin er árlega í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum um Verslunarmannahelgina í byrjun ágúst.
Hátíðin heitir eftir þjóðhátíðinni á þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar 2. ágúst 1874 þegar slíkar þjóðhátíðir voru haldnar víða um land. Frá 1901 hefur hátíðin verið haldin árlega í ágústmánuði. Í upphafi 20. aldar var hátíðin fyrst og fremst íþróttahátíð þar sem keppt var í kappróðrum, glímu og fleiri íþróttum, líkt og tíðkaðist þá á þjóðhátíðum víða um land.

Mynd NN: Oddgeir Kristjánsson

Fiðla og gítar

Oddgeir Kristjánsson fæddist í Vestmannaeyjum 16. nóvember árið 1911 og lést 18. febrúar 1966, aðeins 54 ára að aldri. Kona hans var Svava Guðjónsdóttir og eignuðust þau þrjú börn: Hrefnu fædda 1931, Kristján 1938 (látinn 1947) og Hildi fædda 1951. Oddgeir vann við verslunarstörf í Vestmannaeyjum ásamt því að vera forstjóri Bifreiðastöðvar Vestmannaeyja til ársins 1940. Þá sneri hann sér að söng- og tónlistarkennslu við Barnaskóla Vestmannaeyja og starfaði þar til æviloka. Ásamt framangreindu var Oddgeir stjórnandi Lúðrasveitar Vestmannaeyja frá stofnun (1939) og þar til hann lést, jafnframt því að vera eitt af höfuðskáldum Vestmannaeyja ásamt Ása í Bæ, Árna úr Eyjum og Lofti Guðmundssyni. Mörg af fallegustu lögum Eyjanna hafa orðið til á nótnaborði Oddgeirs og nægir þar að nefna perlu eins og „Ég veit þú kemur“. Oddgeir samdi fyrsta þjóðhátíðarlag Vestmannaeyja, lagið „Setjumst hér að sumbli“ árið 1933. Síðustu tónleikarnir þar sem Oddgeir stjórnaði Lúðrasveit Vestmannaeyja, voru haldnir í Landakirkju sunnudaginn 2. janúar árið 1966. Oddgeir lést síðan rúmum mánuði síðar, við tónlistarkennslu.

„…hann var barn að aldri þegar hann fór um skeið daglega niður í bæ til að þess að skoða fiðlu sem var stillt út í búðaglugga, en það voru ekki efni til að kaupa hljóðfærið. Pabbi hans gat hins vegar útvegað gamla fiðlu sem var brotin og var nú tekið við að líma gripinn. Leið ekki á löngu þar til litli tónlistamaðurinn var farinn að strjúka villta strengi fiðlunnar sinnar og það leið heldur ekki á löngu þar til Oddgeir var farinn að fá sína fyrstu áheyrendur. Þakklátasti áheyrandi þessara ára var veikur kálfur sem var í eldhúsinu á Heiðarbrún og hallaði kálfurinn sér upp að Oddgeir á meðan hann spilaði fyrir hann á fiðluna.“*

*Úr grein Árna Johnsen, „Hvernig Þjóðhátíðarlög Oddgeirs urðu til“, Þjóðhátíðarblað Þórs, 1978, bls. 5-6.

Eftir fráfall Oddgeirs birti Kristín Ástgeirsdóttir (dóttir Ása í Bæ) minningarbrot sín af vinunum Oddgeiri og pabba hennar:

„Einn daginn hringdi Oddgeir í pabba (Ása í Bæ) og sagðist vera búinn að semja þjóðhátíðarlag. Pabbi settist upp í svarta Skódann og keyrði upp á Heiðarveg 31. Ég fékk að koma með. Oddgeir settist við píanóið og undurfagrir tónar svifu um loftið. Textinn lá eiginlega í augum uppi, þetta var rómantískt sumarlag. Sólbrúnir vangar, siglandi ský og sumar í augum þér. Þetta var í fyrsta sinn sem ég fylgdist með þeim vinunum Oddgeiri og pabba búa til nýtt þjóðhátíðarlag sem söng sig inn í hjartað frá fyrsta augnabliki.

Áður en þetta gerðist vissi ég vel að Oddgeir bjó til lög og pabbi samdi stundum texta, stundum þeir Árni úr Eyjum og Loftur Guðmundsson. Það voru til hljómplötur þar sem Helena Eyjólfsdóttir söng Gömlu götuna, Alfreð Clausen söng Siglingu og Öskubuskur sungu „Vor við sæinn“. Það var þó alveg sérstök tilfinning að fylgjast með sjálfri sköpuninni og heyra lagið svo frumflutt á þjóðhátíðinni. Næstu ár var spennandi að bíða eftir nýju lagi en því miður urðu þau aðeins fjögur til viðbótar, því Oddgeir dó langt fyrir aldur fram aðeins 54 ára gamall. Síðustu lögin eru þó án efa á meðal hans allra bestu verka ekki síst „Ég veit þú kemur“ sem Elly Vilhjálms gerði ógleymanleg skil.“

Ég veit þú kemur (1962)

Ljóð: Ási í Bæ

Ég veit þú kemur í kvöld til mín
þótt kveðjan væri stutt í gær.
Ég trúi ekki á orðin þín,
ef annað segja stjörnur tvær.

Og þá mun allt verða eins og var
sko áður en þú veist, þú veist.
Og þetta eina sem útaf bar
okkar á milli í friði leyst.

Og seinna, þegar tunglið hefur tölt um langan veg,
þá tölum við um drauminn sem við elskum, þú og ég.

Ég veit þú kemur í kvöld til mín
þótt kveðjan væri stutt í gær.
Ég trúi ekki á orðin þín,
ef annað segja stjörnur tvær.

Björn Th. Björnsson hitti Oddgeir á heimili hans í Eyjum árið 1959 og spjallar hér við hann um gítarinn – https://soundcloud.com/hit-2/bjorn-th-bjornsson-spjallar-1959-vi-oddgeir-kristjansson-um-gitar

Eftir gítarspjallið bættist í hópinn að Heiðarvegi og nú var komið að Snarlvísum. Fyrir utan rödd Oddgeirs má greina rödd Svövu konu hans og rödd Ása í bæ – https://soundcloud.com/hit-2/snarlvisur-1959-oddgeir-kristjansson-og-felagar

Mynd NN-KFK: Frá vinstri: Carl Möller píanó, Andrés Ingólfsson saxófón, Páll Valgeirsson trommur, Svanhildur Jakobsdóttir söngur, Rúnar Gunnarsson söngur og Ólafur Gaukur á gítar

Sextett Ólafs Gauks

Hljómsveitina skipuðu: Ólafur Gaukur gítar, Svanhildur Jakobsdóttir söngur, Andrés Ingólfsson tenór-saxófón, Carl Möller píanó og orgel, Páll Valgeirsson trommur og Rúnar Gunnarsson bassi og söngur. Auk þess sungu þau Svanhildur, Rúnar, Ólafur Gaukur og Andrés bakraddir.

Ólafur Gaukur Þórhallsson tónlistarmaður fæddist í Reykjavík 11. ágúst 1930. Hann lést á hvítasunnudag, 12. júní, 2011.

Ólafur Gaukur var fagmaður fram í fingurgóma og einn helsti brautryðjandi dægurtónlistar á Íslandi sem gítarleikari, lagahöfundur, hljómsveitarstjóri, útsetjari, textahöfundur, plötuútgefandi og kennari. Aðeins fimmtán ára gamall stofnaði hann sitt fyrsta tríó og á menntaskólaárum sínum hóf hann að leika með vinsælustu danshljómsveitum landsins, m.a. KK-sextett, þó svo að djasstónlistin væri honum alla tíð kærust. Hann stýrði einnig eigin hljómsveitum og mun Sextett Ólafs Gauks og Svanhildur vera þeirra þekktust, en hljómsveitin kom fram í sjónvarpsþáttum og á hljómplötum sem seint munu gleymast. Ólafur Gaukur samdi tónlist fyrir sjónvarp og kvikmyndir og má nefna að tónlist hans í íslensku kvikmyndinni Benjamín dúfu var útnefnd til verðlauna á Berlin Film Festival í Þýskalandi árið 1996. Heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna hlaut hann árið 2006. Árið 2008 var hann sæmdur hinni íslensku Fálkaorðu og sama ár var hann kjörinn heiðursfélagi í Félagi tónskálda og textahöfunda.

Ólafur Gaukur var glúrinn textahöfundur og eftir hann liggja textar á borð við: Bláu augun þín með Hljómum, Æ, ó, aumingja ég með Gerði Benidiktsdóttur, Þú ert minn súkkulaðiís með sextett Ólafs Gauks og Heyr mína bæn með Elly Vilhjálms.

Heyr mína bæn

Heyr mína bæn mildasti blær,
berðu kveðju mína’ yfir höf,
syngdu honum saknaðarljóð.
Vanga hans blítt vermir þú sól
vörum mjúkum kysstu hans brá,
ástarorð hvísla mér frá.

Syngið þið fuglar, ykkar fegursta ljóða lag,
flytjið honum, í indælum óði, ástarljóð mitt.

Heyr mína bæn bára við strönd,
blítt þú vaggar honum við barm,
þar til svefninn sígur á brá.
Draumheimi í, dveljum við þá,
daga langa, saman tvö ein,
heyr mínar bænir og þrá.

Syngið þið fuglar, ykkar fegursta ljóða lag,
flytjið honum, í indælum óði, ástarljóð mitt.

Heyr mína bæn bára við strönd,
blítt þú vaggar honum við barm,
þar til svefninn sígur á brá.
Draumheimi í, dveljum við þá,
daga langa, saman tvö ein,
heyr mínar bænir og þrár.

Mynd NN-KFK: Hefti með 5 dægurlögum Oddgeirs frá 1940.

Lög og textar

Það gerist stundum að hinir óræðu straumar lífs, anda og sálar spinna vefi svo fagra að eftir er tekið. Dæmi um slíkan vef eru Bítlarnir og samspil þeirra í laga og textagerð. Samskonar vefur var spunninn í Vestmannaeyjum á síðustu öld þegar tónskáldið Oddgeir Kristjánsson og textahöfundarnir Ási í Bæ og Árni úr Eyjum hófu samstarf sitt með tilstilli Lofts Guðmundssonar. Þá urðu til margar af perlum Íslenskrar tónlistarsögu, lög sem munu lifa svo lengi sem land byggist.

Vor við sæinn (Bjartar vonir vakna) (1940)

Ljóð: Árni úr Eyjum

Bjartar vonir vakna
í vorsins ljúfa blæ.
Bjarmar fyrir björgum,
við bláan sæ.

Fagur fuglasöngur
nú fyllir loftin blá,
brjóstin ungu bifast
af blíðri þrá.

Í æðum ólgar blóð
í aftansólarglóð,
ég heyri mildan hörpuslátt.
Ég heyri huldumál,
er heillar mína sál,
við hafið svalt og safírblátt.

Komdu vina kæra,
ó, komdu út með sjó.
Bylgjur klettinn kyssa,
í kvöldsins ró.

Viltu með mér vaka,
þú veist ég elska þig,
Komdu vina kæra
og kysstu mig.

Gamla gatan (1955)

Ljóð: Ási í Bæ

Ó, gamla gatan mín
ég glaður vitja þín
og horfnar stundir heilsa mér.
Hér gekk ég gullin spor
mín góðu bernskuvor,
sem liðu burt í leik hjá þér.

Í sól og sumaryl
hve sælt að vera til,
við þekktum hvorki boð né bann
en kveiktum ástareld,
sem öll hin rauðu kveld
í ungum hjörtum okkar brann.

Dagarnir hurfu með draumsins þyt.
Dóu mín sumarblóm.
Nú geymi ég þeirra ljós og lit,
sem lifandi helgidóm.

það berast ómar inn,
ég opna gluggann minn,
og um mig leikur andi hlýr,
því æskan fram hjá fer,
til fundar hraðar sér
að yrkja lífs síns ævintýr.

Um plötuna Gamla gatan mín á Wikipedia:
https://is.wikipedia.org/wiki/Helena_Eyj%C3%B3lfsd%C3%B3ttir_og_Atlantic_kvartettinn

Þjóðhátíðarlögin á plötunni:

1931 Ship ohoj – Ljóð Loftur Guðmundsson.
1932 Góða nótt – Ljóð Árni úr Eyjum og Ási í Bæ.
1935 Glóðir (Villtir strengir) – Ljóð Loftur Guðmundsson.
1936 Fyrir austan mána – Ljóð Loftur Guðmundsson.
1937 Ágústnótt – Ljóð Árni úr Eyjum.
1940 Sigling (Blítt og létt) – Ljóð Árni úr Eyjum
1940 Vor við sæinn (Bjartar vonir vakna) – Ljóð Árni úr Eyjum.
1951 Heima – Ljóð Ási í Bæ
1955 Gamla gatan – Ljóð Ási í Bæ
1961 Sólbrúnir vangar – Ljóð Ási í Bæ
1962 Ég veit þú kemur – Ljóð Ási í Bæ
1964 Þar sem fyrrum – Ljóð Ási í Bæ
1965 Ég vildi geta sungið þér – Ljóð Ási í Bæ
Vorvísa (Ég heyri vorið) – Ljóð Ási í Bæ.

Mynd KFK: 14 lög á þjóðhátíð.

A – hlið

01 Þar sem fyrrum – Lag – texti: Oddgeir Kristjánsson — Ási í Bæ
02 Blítt og létt – Lag – texti: Oddgeir Kristjánsson — Árni úr Eyjum
03 Góða nótt – Lag – texti: Oddgeir Kristjánsson — Árni úr Eyjum og Ási í Bæ
04 Ágústnótt – Lag – texti: Oddgeir Kristjánsson — Árni úr Eyjum
05 Ég veit þú kemur – Lag – texti: Oddgeir Kristjánsson — Ási í Bæ
06 Ship-oh-hoj – Lag – texti: Oddgeir Kristjánsson — Loftur Guðmundsson
07 Ég vildi geta sungið – Lag – texti: Oddgeir Kristjánsson — Ási í Bæ

Sextett Ólafs Gauks er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG – hljómplötum árið 1968. Á henni flytur Sextett Ólafs Gauks, Svanhildur Jakobsdóttir og Rúnar Gunnarsson fjórtán lög eftir Oddgeir Kristjánsson. Hljóðritun hljómplötunnar fór fram í upptökusal sjónvarpsins og sá Jón Þór Hannesson um hljóðritun.
Útlit á umslagi, litaval og leturgerð mun Svavar Gests hafa séð um en myndina frá Vestmannaeyjum á framhlið plötuumslags tók Oddgeir Kristjánsson. Myndina af sextett Ólafs Gauks tók Óli Páll. Setningu á bakhlið annaðist Prentsmiðja Jóns Helgasonar en um myndamót og prentun sá Kassagerð Reykjavíkur um.

Mynd KFK: Tónlistin á bakinu.

B – hlið

08 Gamla gatan – Lag – texti: Oddgeir Kristjánsson — Ási í Bæ
09 Sólbrúnir vangar – Lag – texti: Oddgeir Kristjánsson — Ási í Bæ
10 Villtir strengir – Lag – texti: Oddgeir Kristjánsson — Loftur Guðmundsson Hljóðdæmi (uppl.)
11 Bjartar vonir vakna – Lag – texti: Oddgeir Kristjánsson — Árni úr Eyjum
12 Ég heyri vorið – Lag – texti: Oddgeir Kristjánsson — Ási í Bæ
13 Fyrir austan mána – Lag – texti: Oddgeir Kristjánsson — Loftur Guðmundsson
14 Heima – Lag – texti: Oddgeir Kristjánsson — Ási í Bæ

Texti á baki hljómplötuumslags:

„Þegar ég settist niður til að rifja upp eitt og annað varðandi lög Oddgeirs Kristjánssonar, þá rak ég mig fljótt á þá staðreynd, að lög hans hafa gengið eins og rauður þráður gegnum líf mitt frá því að ég fór fyrst að gera mér einhverja grein fyrir, að með því að setja saman tóna á mismunandi vegu mætti fá lag.

Ég var skólastrákur á Núpi í Dýrafirði þegar ég tók ástfóstri við fyrsta lag Oddgeirs. Þannig var, að við þurftum að fá ferju á Gemlufalli ef við ætluðum að skreppa til Þingeyrar og þá hafði ég það fyrir sið að setjast klofvega fram í stafn og syngja upp í vindinn Blítt og létt báran skvett bátnum gefur. Þá vissi ég að sjálfsögðu ekki hver hafði gert þetta skemmtilega lag, komst að því löngu seinna, en laginu gleymi ég aldrei. Og fáeinum árum síðar var það hinn seiðandi tangó „Bjartar vonir vakna“, sem togaði mig út á dansgólfið í Listamannaskálanum.

Svona hélt þetta áfram. Eitt fyrsta lagið, sem ég gaf út á hljómplötumerkinu Tónika fyrir 15 árum var eftir Oddgeir. Enn liðu nokkur ár og þegar ég var fenginn til að skemmta á Þjóðhátíð Vestmannaeyja ásamt hljómsveit minni árið 1961 átti að sjálfsögðu að kynna nýtt þjóðhátíðalag, sem Oddgeir Kristjánsson hafði verið fenginn til að gera.

Það er einmitt í sambandi við Þjóðhátíð Vestmannaeyja, sem flest laga hans hafa orðið til. Eftir að ég kynntist lögum Oddgeirs betur og síðan Oddgeiri sjálfum lagði ég áherzlu á að kynna sem flest lög hans í útvarpsþáttum mínum eða að koma þeim á hljómplötur. Fyrir nokkrum árum lék hljómsveit mín inn á plötu fyrir Íslenzka Tóna fjögur lög, sem öll voru eftir Oddgeir. Því miður var þessi plata aðeins á boðstólum í nokkrar vikur en þar var m. a. lagið „Ég veit þú kemur“, sem mér finnst eitt fallegasta lag Oddgeirs.

Þegar ég stofnaði eigið hljómplötufyrirtæki var það hugmynd mín strax í upphafi að gefa út stóra plötu, þar sem eingöngu mætti finna lög eftir Oddgeir Kristjánsson og með þessari plötu hefur sú hugmynd orðið að veruleika.
Nokkur þessara laga hafa áður verið gefin út á hljómplötum, en hér eru þau i nýrri og mörg hver nýstárlegri útsetningu ásamt öðrum lögum, sem ekki hafa áður komið á hljómplötu og sjaldan eða aldrei heyrzt utan Eyja.

Oddgeir Kristjánsson, tónskáld lézt í blóma lífsins fyrir tveimur árum. Lög Oddgeirs eru öll vönduð. Þau spanna yfir þrjátíu ár, en samt gefur það elzta hinu yngsta ekkert eftir. Sönglög samdi Oddgeir nokkur, sem því miður hafa fá heyrzt opinberlega.

Oddgeir var mikill náttúrudýrkandi. Hann fór víða um Ísland og tók fagrar myndir.

Það er allt annað en gaman að taka fjórtán lög, sem mörg hver eru komin til ára sinna og klæða þau í þann búning hljóðfæraleiks og söng sem hæfir árinu 1968. Þetta hefur Ólafi Gauki tekizt með svo miklum ágætum að aðdáunarvert er.
Eitt elzta lag Oddgeirs er gamall tangó sem ber heitið „Glóðir“. Hér hefur Ólafur t. d. yngt þetta lag upp í útsetningu á svo skemmtilegan máta að varla kom annað til greina en að skýra lagið upp í anda þess stíls, sem það er nú flutt í og heitir það því „Villtir strengir“.

Þá hefur „Ágústnótt“ fengið á sig skemmtilegan nútímablæ, en þetta lag samdi Oddgeir fyrir tæpum tuttugu árum.

Svanhildur Jakobsdóttir syngur flest laganna á þessari plötu, en oft syngja meðlimir sextettsins með henni og þá syngja þau Svanhildur og Rúnar Gunnarsson nokkur lög saman. Rúnar, sem þegar er orðinn kunnur fyrir sinn sérstæða söngstíl gefur m. a. hinu gamalkunna lagi „Blítt og létt“, ferskan blæ.

Ólafur Gaukur stofnaði sextett sinn fyrir rúmlega tveimur árum og komst hljómsveitin strax í hóp fremstu hljómsveita á Íslandi. Vandaður hljóðfæraleikur og áferðarfallegur söngur er aðalsmerki hljómsveitarinnar, en hvort tveggja er fyrst og fremst tengt saman með hinum vönduðu útsetningum Ólafs Gauks. Sjónvarpsþættir þessara kunnu krafta hafa borið af öðru íslenzku efni sem flutt hefur verið hér á landi og hljómplötur þeirra, sem með þessari eru orðnar fjórar fyrir SG-hljómplötur hafa hlotið sérstaklega góða dóma alls staðar.“
svavar gests

Platan á Wikipedia – https://is.wikipedia.org/wiki/Sextett_%C3%93lafs_Gauks,_Svanhildur_og_R%C3%BAnar_-_L%C3%B6g_Oddgeirs_Kristj%C3%A1nssonar

Mynd KFK: Þjóðhátíðarlagið 1951

Þjóðhátíð í Eyjum 1951

Ég man þá tíð þegar fréttir af aflabrögðum báta og skipa frá Vestmannaeyjum voru stórtíðindi á meginlandinu, hvort sem var í útvarpi eða sjónvarpi. Þá var mikið talað um aflaklærnar og aflakóngana sem gerðu Vestmannaeyjar að verðmætustu verstöð landsins.

Haukur Morthens syngur lagið HEIMA árið 1959 og Lana Kolbrún Eddudóttir segir frá laginu – https://soundcloud.com/hit-2/lana-kolbrun-um-lagi-heima

HEIMA (1951)

Ljóð: Ási í Bæ

Hún rís úr sumarsænum
í silkimjúkum blænum
með fjöll í feldi grænum
mín fagra Heimaey.
Við lífsins fögnuð fundum
á fyrstu bernskustundum,
er sólin hló á sundum
og sigldu himinfley.

Hér réri hann afi á árabát
og undi sér bezt á sjó,
en amma hafði á öldunni gát
og aflann úr fjörunni dró.

Er vindur lék í voðum,
og vængir lyftu gnoðum,
þeir höfðu byr hjá boðum
á blíðvinafund.

Og enn þeir fiskinn fanga
við Flúðir, Svið og Dranga,
þótt stormur strjúki vanga,
það stælir karlmannslund.

Mynd NN-KFK: Bræður saman á bát

Þjóðhátíðarlög

Fyrstu helgina í ágúst er haldin þjóðhátíð í Herjólfsdal. Þá flykkist fólk til Eyja til að skemmta sér, sýna sig og sjá aðra.
Sú hefð hefur skapast að samið er þjóðhátíðarlag fyrir hverja hátíð og er það að margra mati ómissandi þáttur af þjóðhátíðarstemmningunni.

Ágústnótt

(1937)
Ljóð: Árni úr Eyjum

Undurfagra ævintýr
ágústnóttin hljóð
um þig syngur æskan hýr
öll sín bestu ljóð.

Ljósin kvikna, brennur bál,
bjarma slær á grund.
Ennþá fagnar sérhver sál
sælum endurfund.
Glitrandi víf og vín
veita mér stundarfrið.
Hlæjandi ljúfa líf
ljáðu mér ennþá bið.

Undurfagra ævintýr
ágústnóttin hljóð
hjá þér ljómar ljúf og hýr
lífsins töfraglóð.

Frá árinu 1933 hefur tíðkast að velja eitt þjóðhátíðarlag hverju sinni. Þá skrifaði Árni úr Eyjum ljóðið Setjumst hér að sumbli og Oddgeir Kristjánsson bjó til lag því til undirspils. Oddgeir samdi þjóðhátíðarlögin eftir það óslitið þar til að hann féll frá árið 1966, en Árni úr Eyjum, Ási í Bæ og Loftur Guðmundsson skiptust á að semja textana. Frá dauða Oddgeirs fram til ársins 1969 voru gömul lög eftir hann notuð sem þjóðhátíðarlög, en síðan þá hafa nýjir menn skipst á að semja lögin. Árni Johnsen hefur gert fjölmarga texta, og einnig Guðjón Weihe. Ólafur M. Aðalsteinsson hefur gert nokkur lög, sem og Þorgeir Guðmundsson, Sigurður Óskarsson og Gylfi Ægisson. Síðasta áratuginn hafa Hreimur Örn Heimisson, Sigurjón Haraldsson og fleiri komið að gerð laganna. Frá 1969 hafa alls rúmlega 40 manns komið að lagasmíðum og textaskrifum þjóðhátíðarlaganna.

Lögin hafa vakið misjafnar undirtektir og sitja misjafnlega fast eftir í minningum manna, en sérlega minnistæð þykja lögin Dagur og nótt í dalnum (1941), Út í Elliðaey (1980), Þú veist hvað ég meina (1997) og Lífið er yndislegt (2001), en þó eru mörg önnur sem sitja misjafnlega fast í hugum manna, og hefur þar aldur, smekkur og upplifun margt um það að segja.

Þjóðhátíðarlögin:

2017: Sjáumst þar
2016: Ástin á sér stað
2015: Haltu fast í höndina á mér
2014: Ljúft að vera til
2013: Iður
2012: Þar sem hjartað slær
2011: La dolce Vita
2010: Viltu elska mig á morgun
2009: Eyjan græna
2008: Brim og boðaföll
2007: Stund með þér
2006: Ástfangin í þér
2005: Með þér
2004: Í Herjólfsdal
2003: Draumur um þjóðhátíð
2002: Vinátta
2001: Lífið er yndislegt
2000: Í Vestmannaeyjum
1999: Í dalnum
1998: Á Þjóðhátíð
1997: Þú veist hvað ég meina
1996: Sumarnótt
1995: Þúsund eldar
1994: Út við sund og Eyjar
1993: Þjóðhátíðarlag Alltaf á Heimaey
1992: Dagar og nætur
1991: Þjóðhátíð í Eyjum
1990: Næturfjör
1989: Í brekkunni
1988: Ég meyjar á kvöldin kyssi
1987: Síðasti dans í dalnum
1986: Dalbúinn
1985: Í Herjólfsdal Í skjóli fjalla
1984: Ástin bjarta
1983: Gaman og alvara
1982: Þjóðhátíðarlag Hvar sem eyjamaður fer
1981: Í Herjólfsdal
1980: Út í Elliðaey
1979: Peyjaminning
1978: Á þjóðhátíð
1977: Þjóðhátíðarlag „Dalurinn fagri og dætur hans“ og „Herjólfsdalur 1977“
1976: Vornótt í Eyjum
1975: Þjóðhátíðarlag Nú hátíð enn við höldum
1974: Eyjan mín bjarta
1973: Við höldum þjóðhátíð
1972: Eyjasyrpa
1971: Heimahöfn
1970: Bros þitt
1969: Draumblóm Þjóðhátíðarnætur
1968: Svo björt og skær
1965: Vögguvísa
1962: Ég veit þú kemur
1961: Sólbrúnir vangar
1956: Maja litla
1955: Gamla gatan
1954: Vísan um dægurlagið
1953: Síldarvísa
1951: Heima
1950: Hve dátt er hér í dalnum
1949: Breytileg átt og hægviðri
1948: Þjóðhátíðarvísa
1945: Á útlagaslóð
1942: Takið eftir því
1941: Dagur og nótt í dalnum
1940: Meira fjör
1939: Hátíðarnótt í Herjólfsdal
1938: Þjóðhátíðarsöngur
1937: Undurfagra ævintýr
1936: Blái borðinn
1933: Setjumst hér að sumbli

Þjóðhátíð í Eyjum 2018 – https://www.dalurinn.is/


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283