Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

„Flóttamenn án landamæra“ hafa engin tengsl við No Borders

$
0
0

Fréttamiðlar hafa í vikunni greint frá kröfum sem bárust gegnum netbanka fjölda fólks frá samtökum sem kalla sig „Flóttamenn án landamæra“ eða „Refugees Without Borders“. Ekki hafa fundist neinar heimildir um nokkra starfsemi á vegum þessara samtaka hingað til. Meðlimir hinna raunverulegu samtaka No Borders höfðu aldrei heyrt af þessu félagi eða mönnunum að baki því fyrr en það rataði í fréttir.

Að þykjast mannúðarsamtök

Samkvæmt skráningu skattstjóra var félagið „Flóttamenn án landamæra“ stofnað árið 2017. Starfsemi þess er skilgreind sem „Starfsemi annarra ótalinna félagasamtaka“. Í stofnsamþykkt félagsins er tilgangur þess sagður sá að „hjálpa flóttamönnum sem misst hafa heimili sitt, útvega þeim mat, húsaskjól og aðlögun að samfélaginu“. Stjórnarmenn félagsins eru allir á þrítugsaldri og er ekki vitað til að þeir hafi verið virkir í réttindabaráttu flóttafólks eða annarra til þessa. Þeir hafa hins vegar sakaferil að baki, sem rennt hefur stoðum undir þann grun að ætlunin með útsendum greiðsluseðlum hafi verið sú að villa á félaginu heimildir með eins konar nafnarugli.

Doctors Without Borders og Journalists Without Borders eru virt mannúðarsamtök sem starfa á heimsvísu. Samtökin No Borders hafa verið áhrifamikil í áralangri baráttu fyrir réttindum flóttafólks á Íslandi sem annars staðar. Sé markmiðið með samtökunum „Refugees Without Borders“ það eitt að villa á sér heimildir til að hafa fé af fólki, má segja að það hafi lánast að því leyti að einhverjir virðast enn rugla þessari meintu svikamyllu og hinum raunverulega starfandi samtökum No Borders.

Aldrei heyrt af félaginu eða stofnendum þess

„Kannski eru No Borders svona vön að hafa ekki almenningsálitið með sér, að við kipptum okkur ekki upp við þetta“

Kvennablaðið hafði samband við meðlim raunverulegu samtakanna, Elínborgu Hörpu Önundardóttur og spurði hana hvort hún hefði einhvern tíma heyrt af félaginu „Flóttamenn án landamæra“ eða aðstandendum þess. Elínborg sagði nei, hún hefði aldrei heyrt af þeim. Bróðir hennar hafi hins vegar haft samband til að spyrja hvort hún hefði verið í fréttunum, No Borders hefði eitthvað komist upp á kant við lögin:

„Ég fór á RÚV og tékkaði á þessu. Þá kom þetta upp, Flóttamenn án landamæra, og nöfn á þremur gaurum sem ég hafði aldrei heyrt um áður. Þannig að það var einhver misskilningur.“

Aðspurð hvort No Borders sjái fyrir sér að senda frá sér einhvers konar yfirlýsingu um málið, og leiðrétta þá sem ruglast á þeim og falsfélaginu, segist Elínborg hafa hringt í fólk sem hún hafi verið í slagtogi við. Það hafi ýmist ekki heyrt af málinu eða ekki þótt það vera tiltökumál:

„Kannski eru No Borders svona vön að hafa ekki almenningsálitið með sér, að við kipptum okkur ekki upp við þetta. Af því þetta vorum ekki við.“


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283