Hinsegin dagar hafa staðið í Reykjavík frá því á þriðjudag – og í dag, laugardaginn 11. ágúst – hér um bil í þessum skrifuðu orðum, leggur gleðigangan af stað frá Sæbraut, niður Lækjartorg að Hljómskólagarði. Gleðigangan hefur fyrir löngu tekið við af 17. júní og öðrum hátíðum sem fjölmennasta og líklega gleðiríkasta fjöldasamkoma Reykjavíkur. Á föstudag, daginn fyrir, gleðigöngu, náði Kvennablaðið tali af Gunnlaugi Braga, formanni Hinsegin daga.
Hátíðin er vissulega lítil, segir Gunnlaugur, enda í litlu landi, en þekkt erlendis sem „the Biggest Small Pride in the World, þar sem við erum að ná ótrúlegum fjölda saman, allt að þriðjungi þjóðarinnar sem kemur saman til að fagna fjölbreytileikanum. Það er eitthvað sem eftir er tekið.“
Í leiðara tímarits Hinsegin daga fjallar Gunnlaugur sérstaklega um orðið „baráttugleði“ – sem ekki á sér beina samsvörun í ensku: gleði þess að berjast:
„Allavega tókst okkur ekki að finna neitt sambærilegt í ensku, kannski leynist það einhvers staðar. En þetta er mjög áhugavert orð og lýsir vel því sem hefur átt sér stað í hinsegin samfélaginu og þeirri baráttu. Því þetta er sannarlega barátta og hefur verið sársaukafull oft á tíðum, en þar er líka mikil gleði.“
Fræðsla um heimilisofbeldi í hinsegin samböndum
Dagskráin virðist verulega viðamikil í ár. Það stemmir, segir Gunnlaugur, atburðirnir séu fleiri í ár en nokkru sinni fyrr. Hinsegin dagar voru til að byrja haldnir yfir eina helgi, segir hann en teygja sig nú yfir fleiri daga. Mestu breytinguna í ár segir hann felast í fjölda fræðsluviðburða „þar sem við erum að reyna að fanga málefni sem hafa verið í umræðunni, eða sem talið er að þurfi að komast meira í umræðuna.“ Eitt af þessum viðfangsefnum er karlmennska, segir Gunnlaugur:
„sem hefur verið til umræðu, kannski í kjölfarið á #metoo-byltingunni, þar sem er verið að tala um birtingarmyndir karlmennsku, eitraðrar karlmennsku og svo framvegis. Og þarna er verið að velta fyrir sér hvaða áhrif það hefur inn í hinsegin samfélagið.“
Þá segir Gunnlaugur fræðslu hafa farið fram um heimilisofbeldi í hinsegin-samböndum:
„Það er eins og opnist ekki sjálfkrafa á umræðuna um ofbeldi í afmarkaðri hópum, eins og hinsegin samfélaginu. Þannig að við nýtum þennan vettvang, og þá athygli sem við fáum, til að opna þessa samræðu.“
Að brjóta upp hræðslu og skömm
„Annað sem er á mörkum fræðslu- og skemmtiefnis er atburður í Hard Rock kjallaranum í kvöld (föstudagskvöld), sem við köllum kynlífskarnival, þar sem okkur langar til að – lengi vel var kynlíf bara tabú í íslensku samfélagi. Það hefur aðeins batnað, en umræðan um kynlíf í hinsegin samfélaginu er ansi lokuð. Í gegnum tíðina hafa fordómar í garð hinsegin fólks dálítið beinst að kynlífinu og kynhegðun fólks. Fyrir vikið hefur það ekki mikið verið rætt og vantar mikið upp á kynfræðslu í þeim efnum. Það hefur jafnvel orðið til þess að fólk er sjálft hrætt við þessi málefni. Þannig að okkur langar að opna það á skemmtilegum nótum – þarna verður uppistand, erótísk, ögrandi dansatriði og almenn fræðsla og skemmtilegheit. Aðeins til að brjóta upp þessa hræðslu og skömm sem hefur aðeins loðað þar við.“