Kvennablaðið sendi Fjármála- og efnahagsráðuneytinu fimm spurningar um fund fjármálaráðherra með fulltrúum kínverska Kommúnistaflokksins í liðinni viku. Svör við þremur spurninganna bárust nú á mánudag og leiða í ljós, í fyrsta lagi, að fulltrúar Kommúnistaflokksins ræddu við ráðherrann um hinn svokallaða nýja silkiveg eða „belt and road“-verkefnið, útrásarstefnu Kína í alþjóðaviðskiptum með uppbyggingu samgönguleiða og annarra innviða.
Þá svaraði fulltrúi ráðuneytisins spurningu um hvort rætt hefði verið um fríverslunarsamning Íslands og Kína játandi, hann hefði verið ræddur „á almennum nótum“.
Af þriðja svarinu má ráða að Bjarni Benediktsson hafi ekki borið fram neinar athugasemdir við stöðu mannréttindamála í Kína á fundinum. Kvennablaðið spurði:
„Notar fjármálaráðherra tækifærið, á svona fundum, eins og stundum er haft á orði, til að gagnrýna mannréttindabrot í Kína? Notaði hann tækifærið á þessum fundi til að gera það?“
Ráðuneytið svaraði:
„Eingöngu efnahagsmál og áhugi Kínverja á pólitískum tengslum við Ísland voru til umræðu á þessum fundi.“
Dýpri þögn en 2017
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, fundaði með fulltrúum kínverska alþýðulýðveldisins síðsumars í fyrra, 2017, og var upplýsingamiðlun af þeim fundi nokkuð ítarlegri. Meðal þess sem þá kom fram var að „Kínverjar kynntu fyrir sitt leyti áætlun sína um belti og braut (e. Belt and Road Initiative), sem stundum er nefnd hin nýja Silkileið, og kom til umræðu möguleg þátttaka Íslands í áætluninni í ljósi nýrra flutningsleiða á norðurslóðum“.
Einnig kom fram að Guðlaugur Þór hefði hvatt kínversk stjórnvöld til úrbóta í mannréttindamálum „og til að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi“.
Kvennablaðið: Upplýsingar um efnisatriði fundarins væru vel þegin, það er í hverju hugmyndir flokksins, eins og þær voru kynntar á fundinum að auknu samstarfi við önnur ríki felast, hvernig þær snerta Ísland og hvernig fjármálaráðherra tók þeim hugmyndum.
Við þessari spurningu barst ekkert svar.
Kvennablaðið: Kínversk stjórnvöld vinna nú hörðum höndum að nokkuð viðamikilli útrás, sem þeir nefna „Belt and Road Initiative“ á ensku, in iðulega er rætt um sem nýjan silkiveg. Eru undir því regnhlífarhugtaki miklir fjármunir lagðir í nýjar flutningaleiðir fyrir vöruviðskipti. Var fundurinn, eða má sjá hann, sem lið í þeirri heildaráætlun? Eiga kínversk stjórnvöld erindi við Ísland í þessu samhengi?
Svar ráðuneytisins: „Fulltrúi kommúnistaflokksins kynnti Belt and Road-verkefnið sem mikilvægt tækifæri til að koma á sterkari viðskiptatengslum milli Kína og Evrópu.“
Kvennablaðið: Ísland er eina ríki Evrópu með fríverslunarsamning við Kína. Kom hann við sögu á fundinum, tækifæri sem í honum felast, í eða án tengsla við nýja silkiveginn?
Svar ráðuneytisins: „Eingöngu efnahagsmál og áhugi Kínverja á pólitískum tengslum við Ísland voru til umræðu á þessum fundi.“
Kvennablaðið: Er eitthvað annað sem vert er að komi fram af efnisatriðum fundarins?
Ekkert svar.