Í nýju hefti tímaritsins Náttúrufræðingurinn, sem nú er gefið út af Náttúruminjasafni Íslands, skrifar Droplaug Ólafsdóttir ritstjóri í leiðara að samhliða eflingu rannsóknarnáms og fjölgun fólks með framhaldsgráðu á sviði náttúruvísinda dragi á síðustu árum úr birtingu aðgengilegs efnis um íslenska náttúru á íslensku. Ætla mætti, skrifar hún,
„að á þessum gróskumiklu tímum stórykist framboð fræðsluefnis um íslenska náttúru ætlað almenningi. Svo virðist þó ekki vera. Á undanförnum árum hefur ritstjórn Náttúrufræðingsins þvert á móti merkt sífellt þyngri róður við öflun efnis í ritið. Á það ekki síst við um efni tengt rannsóknum á íslenskri náttúru.“
Aukinn alþjóðlegur metnaður dregur úr almenningsfræðslu
Droplaug segir nokkrar skýringar koma til. Í fyrsta lagi aukinn metnaður vísindamanna og stjórnenda rannsóknastofnana að því að birta rannsóknaniðurstöður í erlendum vísindaritum. Þar að auki telur hún til sókn háskóla eftir að raðast ofarlega á alþjóðlegum samanburðarlistum, framgangskerfi akademískra starfsmanna, afkastahvetjandi launagreiðslur og gagnagrunna sem gera vísindamönnum kleift að bera sig saman við jafningja.
„Allt eru þetta þættir sem beina vísindamönnum að því að birta niðurstöður sínar í ritrýndum alþjóðlegum vísindaritum.“
Droplaug segir metnað íslenskra vísindamanna að þessu leyti fagnaðarefni, en hann feli þó í sér hættur.
„Með því að beina sjónum eingöngu að jafningjum innan eigin fræðasviðs er hætta á að bil myndist milli fræðimanna og almennings og jafnvel milli fræðasviða. Vísindamenn birtast almenningi einna helst í stuttum fréttaviðtölum um náttúruatburði eða til að árétta mikilvægi vísinda. Á tímum samfélagsmiðla með sínum örskilaboðum og hraðrar fjölmiðlaumræðu, þar sem umfjöllun um vísindaleg málefni er auðveldlega afbökuð og rangtúlkuð, er brýnna en nokkru sinni að vísindasamfélagið taki virkan þátt í almenningsfræðslu.“
Einhver annar fyllir þá upp í þekkingargatið
Meðan vísindamenn eru uppteknir við að uppfræða félaga sína í fræðunum um eigin rannsóknir mun einhver annar, skrifar Droplaug, „eða jafnvel fáfræði og áhugaleysi, fylla upp í þekkingargatið sem óhjákvæmilega myndast milli vísindamanna og almennings.“
Þá segir Droplaug að sú hætta sé einnig til staðar, „ef miðlun náttúrufræða til íslensks almennings fer að mestu fram á erlendum tungumálum“ að búast megi við „að tungutak fræðanna fjarlægist almennt mál og íslenskan verði smám saman fátækari að hugtökum um náttúrufræði.“ Með þeirri þróun megi búast við að „þeir sem ekki leggja sig sérstaklega eftir að læra hin erlendu hugtök nái síður að tileinka sér lágmarksskilning á málefnum náttúrufræða.“
Verðum hópheimsk þrátt fyrir alla upplýsinguna
Í Facebook-færslu um leiðarann minnir Anton Helgi Jónsson, ljóðskáld, á þau afrek sem náttúruvísindamaðurinn og skáldið Jónas Hallgrímsson vann, meðal annars í nýyrðasmíð um náttúrufyrirbæri. Anton Helgi skrifar:
„Það er eins og náttúruvísindamaðurinn Jónas Hallgrímsson sjái ekki lengur neina meiningu með því að tala við óupplýsta landa sína á íslensku. Þetta er þó skiljanlegt. Nú á tímum virðist tilhneigingin vera sú að fræðimenn tali bara við fræðimenn, myndlistarmenn við myndlistarmenn, veiðimenn við veiðimenn, bílstjórar við bílstjóra. Þannig lokumst við inni í okkar afmörkuðu áhugasviðum og verðum hópheimsk þrátt fyrir alla upplýsinguna.“