Björgunarskipið MS Aquarius hefst nú við á Miðjarðarhafi, miðja vegu milli Ítalíu og Möltu, með 141 farþega innanborðs, auk áhafnar, án áfangastaðar. Farþegunum var bjargað í tveimur aðgerðum á föstudag. Skipinu hefur síðan þá ekki boðist að leggja að höfn í öruggu landi. Stjórnvöld í Evrópu keppast við að fría sig ábyrgð: Á þriðjudag tilkynntu yfirvöld í Gíbraltar að skipið, sem sigldi undir fána Gíbraltars, hefði nú verið afskráð þar.
Á sama tíma hefur neyðarkall borist þrisvar sinnum, á þremur dögum, vegna gúmmíbáts sem rekur nú um Miðjarðarhaf með 150 sjófarendur um borð. Enginn hefur brugðist við neyðarkallinu. Meira um það að neðan.
67 fylgdarlaus börn og unglingar
Farþegum skipsins var öllum bjargað þar sem þeir fundust á ferð undan ströndum Lýbíu, síðastliðinn föstudag, 25 á einu fleyi, 115 á öðru. Á meðal sjófarendanna eru 67 fylgdarlaus börn og unglingar, það yngsta 12 ára.
Flestir eru farþegarnir upprunnir í Sómalíu og Eritreu, en sigldu frá Líbýu þar sem þau hafa hafst mislengi við. Líbýa telst ekki öruggur áfangastaður, og myndi hvorki samræmast alþjóðalögum né mannúðarsjónarmiðum að flytja þau þangað til baka.
Ítölsk yfirvöld hafa neitað að veita skipinu höfn, samkvæmt stefnu hins nýja innanríkismálaráðherra landsins, Matteo Salvini. Í þetta sinn hafa yfirvöld annarra Evrópuríkja við Miðjarðarhaf ekki heldur boðið skipinu að leggjast að höfn, líkt og spænsk yfirvöld gerðu þegar Ítalía neitaði Aquarius um höfn í fyrsta sinn, síðastliðinn júní.
Gíbraltar og hugsanleg ábyrgð Bretlands
Því hefur komið til tals hvort skipið muni sigla út fyrir Miðjarðarhaf til annars áfangastaðar. Er meðal annars rætt um Bretland í því samhengi. Samgönguráðherra Ítalíu, Danilo Toninelli, fór fram á það á mánudag að bresk yfirvöld taki á móti skipinu og farþegum þess. Ráðherrann rökstuddi þessa kröfu til Breta með því að skipið siglir undir fána Gibraltar, sem tilheyrir breska konungsveldinu. Tove Ernst, upplýsingafulltrúi framkvæmdastjórnar ESB, hefur tekið undir að hugsanlega beri Bretland ábyrgð í málinu, vegna þessa, en þó verði einnig að horfa til kringumstæðna við björgunaraðgerðina.
Fulltrúar bresku utanríkisþjónustunnar höfnuðu þegar í stað þessari áskorun og svöruðu því samdægurs til að ljóst væri að stjórnvöld með hafnir í mestri grennd við björgunarstað bæru ábyrgð á að veita skipinu móttöku og farþegum þess landgöngu.
Þá tilkynntu yfirvöld siglingamála í Gíbraltar á mánudag að þau hefðu tekið MS Aquarius af skrám sínum. Skipið mun þá sigla undir fána „undirliggjandi eiganda“ sem samkvæmt yfirvöldum siglingamála í Gíbraltar er Þýskaland.
Kvennablaðið sendi á mánudag fyrirspurn til dómsmálaráðherra, Sigríðar Á. Andersen, um hvort íslensk stjórnvöld sjá fyrir sér að bregðast við ákalli samtakanna að baki MS Qauarius með einhverjum hætti, og hugsanlega bjóða skipinu að leggjast að höfn á Íslandi. Ráðuneytið staðfesti móttöku fyrirspurnarinnar á þriðjudag.
Samstarf Lækna án landamæra og SOS Mediterranée
Björgunarskipið MS Aquarius er rekið í samstarfi tveggja hjálparsamtaka, hinna virtu alþjóðasamtaka Lækna án landamæra og SOS Mediterranée sem stofnað var til sérstaklega til að bjarga mannslífum á Miðjarðarhafi.
Í sameiginlegri tilkynningu samtakanna vegna málsins lýsa þau yfir „gríðarlegum áhyggjum“ af evrópskri stefnumótun sem standi í vegi mannúðaraðstoðar og hafi leitt af sér snaraukinn fjölda dauðsfalla á sjó síðastliðna mánuði. Þau skora á stjórnvöld í öllum Evrópuríkjum að
„gangast við alvarleika mannúðarkrísunnar á Miðjarðarhafi, veita hraðan aðgang að næsta örugga stað og auðvelda, í stað þess að torvelda, þá afar þörfu mannúðaraðstoð sem bjargar lífum á miðju Miðjarðarhafi.“
Í tilkynningunni kemur einnig fram að í viðtölum við sjófarendurna sem bjargað var á föstudag hafi komið fram að fimm skip hafi siglt fram hjá þeim án þess að bjóða fram aðstoð, þar til Aquarius bar að garði:
„Svo virðist vera sem það grundvallarviðmið að veita beri aðstoð fólki sem statt er í hættu á sjó, liggi nú að veði. Skip gætu reynst óviljug að bregðast við þeim sem eru í neyð vegna mikillar hættu á að vera þá neitað um örugga höfn,“
segja samtökin. Á þriðjudag birtu þau afrit af neyðarkalli sem þau segja að hafa borist frá ítölsku landhelgisgæslunni þrívegis á þremur dögum vegna gúmmíbatar sem reki nú um Miðjarðarhaf með 150 farþega innanborðs. Enginn hafi enn brugðist við neyðarkallinu.