Nanna Hlín Halldórsdóttir, heimspekingur, flutti þann 6. ágúst pistil í Tengivagni RÚV, um berskjöldun sem lykil að nýjum mannskilningi. Berskjöldun notar hún til þýðingar á enska hugtakinu vulnerability og nefnir sérstaklega höfundarverk Judith Butler í þessu samhengi: berskjöldun okkar felist ekki síst í þeirri staðreynd að við sköpum tengsl við annað fólk og erum háð því:
„Ef við fáum hins vegar stanslaust þau samfélagslegu skilaboð að við eigum að vera sterk, sjálfstæð óháð og standa aðgreind í samkeppni við annað fólk til dæmis um vinnu, er þá virkilega hægt að koma fram sem berskjölduð manneskja? Myndi það ekki hreinlega koma niður á samkeppnishæfni okkar?“
spurði Nanna.
Ekki að það hafi endilega skort áþreifanlegar vísbendingar fyrir að svo sé, en rétt um tíu dögum eftir að Nanna flutti pistilinn birtist þó frétt sem er nánast eins og samin til að styðja mál Nönnu, Butlers og annarra af þeim skóla: bandaríska dagblaðið New York Times birti á fimmtudag „tilfinningaríkt“ viðtal við Elon Musk, stofnanda bílaframleiðandans Tesla. Musk er auðmaður af þeim toga sem á sér ekki aðeins viðskiptavini og viðskiptafélaga, heldur fylgjendur, að segja má. Hann kemst einna næst því meðal núlifandi forstjóra að vera nokkurs konar ofurhetja í huga aðdáenda sinna.
Í viðtalinu sem birtist á fimmtudag segir Musk að undanfarið ár hafi verið honum afar erfitt og sársaukafullt – það hafi tekði verulega á. Blaðamaður segir frá því að Musk hafi nokkrum sinnum orðið klökkur á meðan á samtalinu stóð, meðal annars þegar hann minnist á að hafa, sökum anna við rekstur fyrirtækja sinna, misst af brúðkaupi bróður síns, þar sem honum var ætlað hlutverk svaramanns.
Musk segist stundum ekki hafa yfirgefið verksmiðjuna í þrjá, fjóra sólarhringa samfleytt, sem hafi gert honum erfitt fyrir að hitta börn sín og vini. Á 47 ára afmælisdaginn hans, þann 28. júní síðastliðinn, vann hann heilan sólarhring: „Alla nóttina. Engir vinir, ekkert.“ Þarna segir blaðamaður Musk aftur hafa verið gráti nær. Spurður hvort þetta álag í starfi hafi tekið toll af heilsu hans svarar Musk því til að í það minnsta eigi hann nokkra vini sem hafi af honum verulegar áhyggjur að því leyti.
Það er sem við manninn mælt, og í samræmi við skilning Nönnu Hlínar og fleiri, að daginn eftir, nú á föstudag, féllu hlutabréf bílaframleiðandans Tesla um 8%. Þannig lækkaði verðmat fyrirtækisins um 4 milljarða dala á einu bretti, eða um 430 milljarða íslenskra króna.
Víða í enskumælandi fréttamiðlum er þetta gengishrun fyrirtækisins rakið beint til þeirra tilfinningalegu veikleikamerkja eða berskjöldunar sem Musk sýndi í viðtalinu.
Það eru 430 milljarðar fyrir að klökkna. Dýr myndi þá gráturinn allur.