Bergur Beck gengur hröðum skrefum niður Hverfisgötuna og ýtir á undan sér tvíburakerrunni. Í humátt á eftir fylgir Ásdís með nestistöskuna og hleypur við fót. Unglingurinn rekur svo lestina með hárið ofaní stírufyllt augu. Hann skildi ekkert í því af hverju pabbi hans hafði dregið hann svona snemma á fætur. Þar sem hann hálfsvaf yfir Cheeriósi, með dassi af round-up skordýraeitri, hélt hann að runninn væri upp fyrsti skóladagur. Þegar hann komst svo að því að það væri bara laugardagur skreið hann aftur undir sæng. Hann var rétt að leggja eyrað á koddann þegar pabbi hans dró hann aftur fram úr alveg brjálaður og fór að troða honum í fötin. Einsog hann væri þriggja ára. Bergur er með Reykjavíkurkortið í pappírsformi fyrir framan sig á kerrunni og á stafrænu formi í símanum. Hann er við öllu búinn og hefur notað síðustu vikur til að skipuleggja daginn í þaula. Hann bakkaði bílnum í stæði upp við Hlemm til að eiga greiða flóttaleið uppá Miklubrautina í kvöld. Hann hefur heyrt um umferðaröngþveitið sem getur skapast þegar hátíðarhöldum lýkur. Bergur lítur sem snöggvast aftur fyrir sig til að gá að hinum. Ásdís er skammt undan en eitthvað er unglingurinn farinn að dragast aftur úr. Hann sér auðvitað ekkert út úr augunum fyrir þessu blessaða hári, hugsar Bergur. Hann er nú samt besta skinn. Ekki til í honum vont bein. Það var einmitt það sem hann sagði skólastjóranum úti í Svíþjóð þegar unglingurinn var endurtekið uppvís að einhverjum prakkarastrikum. „Det finns inte ett ont ben i honom“ hafði hann sagt. „Han har bara hamnat i fel sällskap, förstår ni?“
Bergi leið oftast vel í Svíþjóð, en nú er hann fluttur heim og loksins, loksins ætla þau að taka þátt í Menningarnótt sem þau hafa lesið og heyrt svo mikið um. Hann er rifinn upp úr sínum þungu þönkum þegar hann gengur í flasið á afleysingalögregluþjóni sem hefur lokað Hverfisgötunni neðan við Ingólfsstræti. Þetta hafði ekki verið auglýst. „Hvað gengur hér á?“ spurði Bergur og pirringurinn í röddinni yfir þessari óvæntu hraðahindrun á vegi hans leynir sér ekki. Löggarinn þegir og horfir ekki í augun á honum og ekki í andlitið, heldur á einhvern ímyndaðan hlut út frá eyranu á honum. Einsog Bergur sé sjóræningi með páfagauk á öxlinni. „Halló“ segir Bergur og veifar hendinni framan í lögregluþjóninn. „Af hverju er lokað?“. Löggarinn horfir í gegnum hann þegar hann svarar. „Það er lokað“. „Ég sé það“ segir Bergur önugur. „Af hverju? Þetta var hvergi tilkynnt“. „Við þurftum að loka“ segir löggarinn og snýr sér við. „Við þurfum að komast sem fyrst niður í Lækjargötu. Amma barnanna er um það bil að koma í mark. Megum við ekki komast fram hjá?“ spyr Bergur og ætlar að sneiða fram hjá löggunni. „Það er lokað“ segir löggarinn hvasst og neyðist lokst til að horfa framan í Berg. „Ætlarðu þá að neita börnunum um að fá að taka á móti ömmu sinni þegar hún kemur í mark í langhlaupi sem hún mun líkast til sigra?“ Hann þegir um að mamma hans sé að taka þátt í 3 kílómetra skemmtiskokki ásamt 10 þúsund öðrum skokkurum og að hún og vinkonurnar hennar séu klæddar einsog býflugur. Verði laganna verður ekki haggað og fjölskyldan neyðist til að velja plan B sem er að beygja upp Ingólfsstræti og beygja niður Bankastrætið. Af svölunum á Sólon berst ærandi hávaði. Þar standa tveir ungir menn með hjóðnema og æpa yfir hátíðagesti hvað það sé góð stemmning í bænum. Þarna er útvarpsþáttur og á meðan annar þáttastjórnandi þylur upp nöfn á öllum kleinuhringjaframleiðendum og kremkexverksmiðjum sem styrkt hafa gerð þáttarins grýtir hinn lúku af karamellum yfir gesti og gangandi ofan af svölunum. Við þetta skapast umferðaröngþveiti á gatnamótunum. Bergur situr fastur í miðri kösinni og kemst hvorki áfram né út á hlið með kerruna. Tvíburarnir neita að yfirgefa þennan sælureit og heimta að pabbi þeirra skríði á fjórum fótum á eftir karamellum. Hann beygir sig niður og grípur eina karamelluna á sama andartaki og átta ára drengur. Þeir horfast í augu. „Ég náði henni fyrst“ segir Bergur. Drengurinn sleppir ekki takinu. „Láttu manninn fá karamelluna Sölvi“, segir konurödd. Bergur lítur upp og horfist í augu við Halldóru, gamla bekkjarsystur sína sem hann hefur ekki hitt í 15 ár. Hann lítur aftur niður og vonar að hún muni ekki eftir sér. Of seint. „Er þetta ekki Bergur?“ Bergur sleppir molanum og stendur hægt á fætur. „Jú, sæl Halldóra“. „Ester“ leiðréttir konan. „Já, auðvitað. Fyrirgefðu“. Á meðan Ester lætur dæluna ganga um gamla skólafélaga og kennara sem Bergur er fyrir löngu búinn að gleyma glottir átta ára sonurinn og kjamsar á karamellum.
Nú, þegar púðrið frá flugeldasýningunni hefur tekið sér bólfestu í lungnablöðrunum okkar og gasblöðrurnar eru foknar á haf út þar sem þær enda loks í maganum á Nemo litla og koma í veg fyrir að þriðja myndin um hann verði nokkurn tíman að veruleika, held ég að rétt sé að staldra aðeins við og ræða málin. „We need to talk about menningarnótt“. Hugmyndin að menningarnótt í Reykjavík kom upphaflega frá nokkrum kaupmönnum á Laugavegi sem datt í hug að það gæti verið skemmtileg tilbreyting að hafa búðir opnar fram á kvöld og bjóða uppá nokkur skemmtiatriði. Í byrjun var þetta kannski spurning um söngatriði í bókabúð, ljóðaupplestur í leikfangaverslun og nokkra blásara á næsta götuhorni. Svo þróaðist þessi hugmynd og hátíðin varð stærri í sniðum. Alveg þar til hún varð einsog golem sem hefur vaxið skapara sínum yfir höfuð og tekið af honum völdin. Hún er orðin ógnvænlega stór í sniðum og heldur bara áfram vaxa og vaxa og nú virðist það líka vera orðinn megintilgangur hátíðarinnar – að safna sem flestum borgarbúum á sem smæsta þúfu á sama tíma. Meira er betra. Á hverju ári er markmiðið að fá fleira fólk en árið þar áður, stærri svið en síðast, kröftugra hljóðkerfi, fyrirferðarmeiri hoppukastala, fleiri étnar pylsur, lengri biðraðir, meiri auglýsingamennsku. Og ALLTAF skal hún haldin í miðbænum. Íbúar miðbæjar og Þingholta komast hvorki lönd né strönd en eru beðnir um að taka gestum úr öðrum hverfum borgarinnar og nágrannasveitarfélögum með bros á vör. Líka þegar þeir gægjast á glugga og kúka í blómpottinn hjá þeim. Götuhátíðir í Reykjavík eru með ýmsu sniði en einhverra hluta vegna virðist ekki mega halda þær annars staðar en í miðbænum. Á 1. Maí, sumardaginn fyrsta og 17. Júní þrammar fólk með fána og blöðrur niður Laugaveginn. Þegar hundaræktarfélagið blæs til sinnar árlegu hundahópgöngu fer hún einnig niður Laugaveginn, þó hundum líði auðvitað best úti í náttúrunni. Druslurnar ganga niður Skólavörðustíginn og ef þær eru heppnar hitta þær fyrir fólk í kólesterólvímu að fagna beikonhátíðinni í sömu götu. Já, það er raunverulega til sérstök götuhátíð sem er tileinkuð beikoni. Og beikon frá grísum með legusár er víst langvinsælast. Hátíðin, sem er styrkt af félagi hjartalækna, gengur út á að graðga í sig slatta af beikoni. En þar sem engin hátíð er án hoppukastala er einum slíkum troðið inní næstu götu að íbúum forspurðum. Svo hoppa uppþembd beikonbörnin hvert á annað þar til spaðdoðinn leggst yfir þau. Á Skólavörðustíg fer líka fram kjötsúpudagurinn á haustin þar sem gestir stilla sér í röð með skál einsog heimilislausir í súpueldhúsum stórborga. Á þessum degi lítur Skólavörðustígurinn út einsog sena úr Óliver Tvist, með langar raðir af fólki norpandi með sultardropa á nefinu að biðja um meiri súpu.
Upp úr hádegi eru allir orðnir svangir og fúlir. Mamma hans Bergs var löngu komin í mark þegar þau losnuðu loks úr öngþveitinu í Bankastræti og náðu niður í Lækjargötu að fagna henni. Hún sendi SMS og sagðist vera komin í garðpartí í Kópavoginum. Í Kópavogi og Garðabæ virðist aldrei ástæða til að fagna neinu, enda eru þar aldrei neinar útihátíðir. Þess vegna er svo gott að búa í Kópavogi. Ásdís og krakkarnir settust hjá útitaflinu og Bergur tók upp smurt nesti og kakómaltið sem hann hafði blandað á brúsa. Unglingurinn var með mjólkuróþol og fékk því Ribena saft í staðinn. Tvíburarnir sporðrenndu samlokunum í nokkrum bitum og heimtuðu strax meira. Bergur stillti sér upp í 20 metra langri biðröð við pylsuvagn. Þetta var samt meira hraukur en röð. Íslendingar kunna ekki að bíða í röð einsog Svíar hugsaði Bergur. Þeir stilla sér uppí hrauk og reyna svo að olnboga sig hver fram fyrir annan. Hann hlakkaði til að setjast niður með pylsu og kartöflumús. Þessi dagur, sem hann hafði heyrt svo mikið um þegar hann bjó í Svíþjóð, hafði ekki beinlínis staðið undir væntingum. Honum leið einsog búið væri að smala fólki ofan í bæ, en svo hefði ekki verið gert ráð fyrir að fólkið þyrfti að hreyfa sig eitthvað. Það hafði verið sífellt hnoð og vesen að komast áleiðis og hann hafði ekki unnið sér inn neina vildarpunkta út á tvíburakerruna. Ef þrjár eða fleiri barnafjölskyldur mættust á þröngum götum hafði umsvifalaust skapast umferðarhnútur sem erfitt gat reynst að leysa. Kerran hafði ekki bara tafið hann í því að komast á viðburðina, sem hann hafði hugsað sér að sjá, heldur hafði hann beinlínis mátt þola ónot og derring frá öðru fólki, sem fannst hann vera of frekur til plássins. Ekki bætti úr skák að tvíburarnir voru svo háværir og frekir að við minnsta mótlæti fóru þeir að orga. Á suma viðburði var fullt út úr dyrum og ómögulegt að sjá eða heyra hvað fram fór. Annars staðar var allt löngu búið þegar þau loks komust á staðinn. Úti á götu mætti hann alls staðar fólki, sem einsog hann var skimandi út í loftið, leitandi að einhverjum menningarviðburði sem átti að vera í gangi, en úr andlitum fólksins skein sami óttinn við að kannski færi þetta allt fram hjá manni. Óttinn við að missa af einhverju merkilegu. Menningarnótt var hálfnuð og hann hafði enn ekki upplifað neina menningu?
Aðstandendur einstakra hátíða í Reykjavík virðast hafa áttað sig á því að önnur póstnúmer en 101 eru alveg jafn vel í stakk búin til að taka á móti fólki. Þannig hefur tónlistarhátíðin Secret Solstice verið haldin í Laugardalnum. Reyndar hafa ekki allir íbúar Laugardalsins tekið hátíðinni fagnandi. Þannig kvartaði t.d. einn íbúi dalsins yfir því nýlega að „mikið sé um eiturlyfjaneyslu“ og að „tól til eiturlyfjaneyslu hafi fundist á leikskólum og í nærliggjandi görðum“. Þetta getur íbúinn beinlínis þakkað tónleikahöldurum – sem hafa tekið skýrt fram að eiturlyfjaneysla sé ekki liðin á hátíðasvæðinu – og lögreglu, sem þykir hafa gengið óvenju hart fram í leit að eiturlyfjum meðan á tónleikum stendur. Sjálfsbjargarviðleitni er líklega sú hvöt sem fíklar geta verið hvað stoltastir af og ef menn hafa á annað borð áhuga á því að komast í vímu, þá gera þeir það. Og ef þeir fá ekki frið til þess á hátíðasvæðinu þá er næsta skólalóð alveg jafn góður vettvangur. En íbúi Laugardalsins meinar að með tilkomu þessarar hátíðar hafi „Laugardalur í raun verið svívirtur“! Já, hann notaði orðið S-V-Í-V-I-R-T-U-R! Um Laugardalinn. Með sömu rökum má halda því fram að miðbærinn og Þingholtin séu ekki bara svívirt eina helgi á ári, heldur allar helgar allan ársins hring. Til að jafna aðeins metin legg ég til að við gefum íbúum miðbæjarins smá breik og færum menningarnóttina á milli hverfa frá ári til árs. Bæði til að íbúar og verslanir annara borgarhluta fái að njóta sín sem gestgjafar, því þó það sé vissulega gaman að vera boðinn í veislu er alls ekki síðra að vera sá sem býður. En einnig til þess að við, sem ekki tilheyrum póstnúmeri 101, fáum að upplifa það á eigin skinni hvernig það er að láta svívirða sig öðru hvoru. Þannig gæti menningarnótt á næsta ári vera haldin í Vesturbænum, þar á eftir í Háaleitishverfinu og svo koll af kolli. Og fyrst við erum byrjuð að flytja hátíðir, hvernig væri þá að flytja beikonhátíðina upp í Mjódd? Halda gleðigönguna í Skeifunni og Druslugönguna í Rimahverfi? Hátíðisdegi verkalýðsins mætti vel fagna í Árbænum með lautarferð í Elliðaárdalnum og sumardeginum fyrsta í Skerjafirði. Markmiðið væri alls ekki að fá 100 þúsund manns í einn stóran hrauk á sama augnabliki, heldur nýta öll þau svæði sem borgin hefur uppá að bjóða og virkja íbúa til góðra verka. Það er nefnilega líf utan Skólavörðustígs.
Þegar niður á Arnarhól var komið var nánast allur vindur úr Bergi. Hann þráði að komast heim í Grafarvoginn. Hita sér bolla með Swiss Miss og teygja úr sér uppí sófa fyrir framan séra Brown. Það vara bara að þrauka þessa blessuðu flugeldasýningu sem aldrei ætlaði að byrja og svo drífa sig af stað. Hann stillti sér upp með Ásdísi og tvíburunum á Hverfisgötunni rétt neðan við Ingólfsstræti. Þannig myndu þau sjá alla ljósadýrðina, en einnig vera með gott forskot til að taka á rás upp Hverfisgötuna og uppá Hlemm þegar flugeldasýningunni lyki og öll strollan færi af stað. Hann ætlar að reyna að verða fyrstur. Þó hann hafi ekki tekið þátt í maraþoninu fyrr um daginn ætlar hann sér að vinna þetta kerruhlaup. Unglingurinn var löngu týndur, kominn heim til vinar síns að spila tölvuspil. Hann var hættur að svara í síma og sagðist myndu redda sér heim. Þetta hafði bara farið niður á við. Og þessi furðulega uppákoma á tjarnarbakkanum, rifjaði Bergur upp þar sem hann stóð og barði sig að utan til að halda á sér hita. Þau höfðu komið við í Iðnó til að horfa á barnaleikrit. Einsog annars staðar var fullt út úr dyrum og þau ákváðu að Bergur færi inn til að kanna með sæti en Ásdís og tvíburarnir biðu fyrir utan. Hann tróð sér inn en sá að það var vonlaust mál að reyna að komast inní salinn. Þá kom hann auga á stiga uppá efri hæðina og mundi eftir að hafa dottað yfir sýningum Leikfélags Reykjavíkur á Ofvitanum á svölunum í Iðnó. Þegar upp var komið fann hann engar svalir hvernig sem hann leitaði og neyddist til að hörfa niður aftur. Eftir meiri troðning og „afsakið-mig“ og stunur og líkamslykt af ókunnugu fólki komst hann loks undir bert loft. Þarna stóð kerran með tvíburunum en Ásdís var hvergi sjáanleg. Hvaða ábyrgðarleysi var þetta nú? hugsaði Bergur og skimaði í kringum sig. Hann kom hvergi auga á Ásdísi svo hann ákvað að rölta með kerruna inn í Ráðhús. Hann hafði ekki tekið nema þrjú skref þegar ungur maður og kona, mikil á velli og æf af reiði gripu í hann og helltu sér yfir hann. Þau voru svo fyrirferðarmikil að þau nánast umkringdu hann – bara tvö. Í fyrstu var það konan, sem stóð með hendur á mjöðmum, sem las honum pistilinn og spurði hvert í fjandanum hann ætlaði með kerruna. Bergur skildi ekkert hvað hún væri að skipta sér af því. Hún þusaði eitthvað um barnsrán og lögreglu. Bergi varð þá litið í kerruna og sá sér til skelfingar að þar sátu einhverjir bláókunnugir krakkagríslingar og jöpluðu á candyfloss. Hann afsakaði sig og sagði þetta bara vera mistök. Hann sagðist sjálfur eiga tvíbura og langaði bara alls ekkert í annað tvíburapar. Og svo bætti hann við – af tómum bjánaskap af því hann fór alltaf aðeins yfir strikið og hafði oft fengið þá gagnrýni frá sænsku félögum sínum að hann notaði aðeins of sterk lýsingarorð, að hann blótaði of mikið, hló alltaf aðeins of hátt, hætti ekki að tala þegar hann átti að gera það, var bara alls ekki nógu … ekki nógu lagom. Og það var þess vegna sem hann bætti við því sem hann hefði líklega átt að láta alveg eiga sig. Hann bætti nefnilega við: „og síst af öllu myndi ég vilja þessa tvo“ og benti á tvíburana í kerrunni. Við þessi orð hækkaði gufuþrýstingurinn svo í unga manninum að hann sótroðnaði í framan og kallaði Berg barnaperra og öðrum illum nöfnum. Uppákoman var farin að vekja talsverða athygli og barnafjölskyldurnar voru farnar að streyma út úr Iðnó. Bergur sagðist geta sannað að hann ætti líka tvíbura og alveg eins kerru. Eða, hún var kannski ekki alveg eins á litinn og tegundin var vissulega ekki alveg sú sama en þær væru mjög áþekkar. Hann bauðst til að sýna unga fólkinu myndir af börnunum sínum og tók upp símann sinn, en þau sögðust sko engan áhuga hafa á dónamyndum hans. Áður en þau strunsuðu í burtu létu þau hann vita að hann væri heppinn að þau hringdu ekki á lögregluna. Svo sneri ungi maðurinn sér við og bætti við titrandi röddu að Bergur væri búinn að eyðileggja fyrir þeim menningarnóttina!
Þegar síðasta bomban stynur á ágústhimninum og ljósið er við það að deyja út eignast loks þessar 100 þúsund sálir sem mættar eru í bæinn og mæna uppí myrkið eitthvað sameiginlegt. Í nokkur andartök. Á hverju ári er þetta einsog vel skipulagt flashmob því sem einn maður seilast 100 þúsund hendur eftir símanum, velja númerið hjá mömmu eða pabba eða systur eða bróður eða besta vini og hringja. Öll í einu. Og þegar svarað er spyrja 100 þúsund raddir einum rómi sömu spurningarinnar sem brennur á allra vörum og hún glymur yfir Arnarhól. Spurningin sem við þráum öll heitar en nokkuð annað, að fá svar við einmitt á þessari stundu er: „Hvar ertu?“ Svo þagnar allt. Einsog í fyrra og árið þar á undan og undanfarin 20 ár. Hinn árlegi viðburður þegar farsímakerfið brestur í miðbænum. Þá finnum við til mestrar samkenndar.
Sunnudagsmorguninn eftir menningarnótt sat Bergur framan við tölvuna. Þótt hann elskaði fjölskyldu sína heitar en nokkuð annað í lífinu fannst honum þessar stundir alveg sérlega dýrmætar, þegar hann fékk að vera einn með sjálfum sér snemma morguns með kaffibolla og láta hugann reika. Engir puttar með kæfuklíning að pota í tölvuskjáinn hans eða heimta meiri mat. Hann skrollaði yfir fyrirsagnir netmiðlanna. Þetta hljómaði allt saman ósköp kunnuglega: „Lögreglan ánægð með stemmninguna á menningarnótt“. Af hverju má aldrei halda eina einustu samkomu án þess að það þurfi alltaf að fá álit lögreglunnar? hugsaði Bergur. Það er einsog ekkert geti lengur heppnast vel nema lögreglan hafi lagt blessun sína yfir það. „Metþáttaka á Menningarnótt“. „Yfir 100 þúsund manns samankomnir í miðbænum“. „Farsímakerfið þoldi ekki álagið“. Bergur brosti með sjálfum sér, þetta hafði honum fundist hápunktur dagsins. Hann hellti sér meira kaffi í bollann. Þetta gætu allt verið fréttir frá því í fyrra eða árið þar áður, eða síðustu 20 ár. Allt var eins og vanalega. Nema … hann rak augun í frétt sem hann kannaðist ekki við að hafa séð áður svona daginn eftir menningarnótt. Honum kólnaði við lesturinn. Kaffið varð skyndilega rammt á bragðið. „Karlmaður reyndi að ræna tvíburum um hábjartan dag. Greinargóð lýsing á manninum fékkst frá vitnum. Hans er nú leitað“.