Gosdrykkjaframleiðandinn PepsiCo hyggst taka yfir rekstur ísraelska gosvélaframleiðandans SodaStream. Kaupverðið er í fréttum sagt nema 3,2 milljörðum Bandaríkjadala eða tæpum 350 milljörðum króna.
Heimilistæki SodaStream hafa verið vinsæl á Íslandi eins og víðar áratugum saman. Verð hlutabréfa í fyrirtækinu hafa þrefaldast á síðustu tveimur árum, eftir nýja markaðssókn. Bragðefni sem fyrirtækið selur til að blanda í heimagert sódavatn úr tækjum þeirra eru í dag markaðssett sem næringarríkari og umhverfisvænni valkostur við tilbúna gosdrykki.
Indra Nooyi, fráfarandi forstjóri PepsiCo, sagði neytendur hugsa í ríkari mæli en fyrr um hollustu neysluvara. Vörur SodaStream séu lykill fyrirtækisins að því að halda markaðshlutdeild við þær breyttu aðstæður.
Verksmiðju á Vesturbakkanum lokað 2015
Hin alþjóðlega BDS-hreyfing sem berst gegn hernámi Ísraelsríkis í Palestínu beindi löngum spjótum sínum að SodaStream vegna verksmiðju sem fyrirtækið rak á Vesturbakkanum, og hvatti til sniðgöngu á vörum fyrirtækisins. Árið 2015 varð þrýstingurinn til þess að verksmiðjan flutti frá Vesturbakkanum og má segja að herferðin hafi því skilað árangri. Afleiðingar baráttunnar fyrir Palestínumenn sjálfa voru þó ekki einhlítar, þar sem um 500 palestínskir starfsmenn verksmiðjunnar misstu þar með vinnuna.