Athygli Kvennablaðsins var vakin á því fyrir nokkru að samkvæmt samantekt ICAN á afstöðu stjórnvalda í ríkjum heims til kjarnorkuvopna líta íslensk stjórnvöld á bandarísk kjarnorkuvopn sem lykilatriði fyrir öryggi landsins. Þar kemur réttilega fram að Ísland hafi ekki tekið þátt í samningaviðræðum fyrir sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum, og að Ísland hafi kosið gegn ályktun Allsherjarþingsins um sáttmálann árið 2016. Þá segir, orðrétt:
„It claims that US nuclear weapons are essential for its security.“
ICAN, International Campaign to Abolish Nuclear Weapons, áttu veg og vanda að tilurð sáttmálans og fengu friðarverðlaun Nóbels fyrir þau störf árið 2017. Fulltrúar ICAN verða boðsgestir á hliðarviðburði í tengslum við ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um gjöreyðingarvopn sem haldin verður í Reykjavík nú í október. Er þeim boðið að undirlagi forsætisráðherra.
Kvennablaðið hafði samband við Forsætisráðuneytið til að athuga hvort afstaða Íslands til kjarnorkuvopna hafi breyst frá þeirri sem ICAN vísar til og vitnað er í að ofan, eða hvort unnið sé að slíkri stefnubreytingu. Frá ráðuneytinu barst svar sem hefst á eftirfarandi orðum:
„Það er ekki og hefur ekki verið afstaða íslenskra stjórnvalda að kjarnorkuvopn Bandaríkjamanna séu lykilþáttur í vörnum landsins“.
Að því sögðu fylgir nokkuð ítarleg útlistun á samstarfi Íslands við önnur ríki og alþjóðastofnanir, á afstöðu Vinstri grænna og fleira. Þá er í svarinu vísað til greinargerðar sem fylgdi atkvæði Íslands gegn ályktun Allsherjarþingsins um kjarnorkuvopnabann árið 2016. Þar er afstaða Íslands ekki rökstudd með skírskotun til mikilvægis kjarnorkuvopna Bandaríkjanna, heldur með því að ekki verði séð fram á að kjarnorkuríki heims undirriti bannið og líti Ísland af þeim sökum á það sem tilgangslaust og/eða varasamt.
Kvennablaðið fylgdi svari ráðuneytisins eftir með ítrekun, þar sem ICAN heldur því eftir sem áður fram að opinber afstaða Íslands sé sú að kjarnorkuvopnaeign Bandaríkjanna sé lykilatriði í vörnum landsins. Kvennablaðið spurði hvort þar sé „vísað til einhverrar heimildar, ummæla eða skjala, sem íslensk yfirvöld eða stjórnsýsla geta talist ábyrg fyrir“ eða hvort þessi skráning ICAN á afstöðu Íslands er alveg úr lausu lofti gripin. Ennfremur, ef svo er, hvort ráðuneytið muni þá fara fram á leiðréttingu frá ICAN, og jafnvel afsökunarbeiðni?
Ráðuneytið svaraði þeirri fyrirspun og sagði staðhæfingu ICAN ekki frá íslenskum stjórnvöldum komna:
„Sú staðhæfing sem þar kemur fram um að Ísland telji bandarísk kjarnavopn lykilþátt í vörnum sínum er ekki frá íslenskum stjórnvöldum komin.“