Að mati Samtaka atvinnulífsins hefur íslenskt þjóðarbú sjaldan staðið betur en um þessar mundir. Þetta kom fram í kynningu samtakanna á stöðu efnahagslífsins, á samráðsfundi samtakanna, stjórnvalda og fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar í febrúar, 6. fundinum í fundaröð sem staðið hefur frá áramótum.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, flutti erindið. Á glærum sem fylgdi erindinu má lesa: „Íslenskt þjóðarbú hefur sjaldan staðið betur. Þrátt fyrir að hafa hækkað laun langt umfram nágrannaþjóðir hefur verðbólga ekki látið á sér kræla og kaupmáttur vaxið mikið á undanförnum árum.“ Þar segir að hagvöxtur hafi verið mikill á undanförnum árum og byggst á „auknum tekjum og verðmætasköpun fremur en skuldsetningu“. Íslendingar hafi greitt hratt niður erlendar skuldir. Hrein skuldastaða þjóðarbúsins sé nú orðin jákvæð, eftir að hafa verið neikvæð um langa hríð.

Úr glærukynningu Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra SA, fyrir stjórnvöldum og fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar.
Þá segir í glærum Halldórs að þrátt fyrir mikinn vöxt í hagkerfinu og miklar launahækkanir hafi verðbólga haldist lág og stöðug í „sögulega langan tíma“. Verðbólguvæntingar virðist „vel akkeraðar“ og fátt bendi til annars en að verðbólgan haldist við eða undir verðbólgumarkmiði.
Halldór segir einnig að „miklar launahækkanir undanfarinna ára“ hafi, samhliða lágri verðbólgu, orðið þess valdandi að kaupmáttur hafi vaxið hratt. Áhyggjuefni sé þó að hann aukist hraðar en framleiðni.
Þá liggur í augum uppi, samkvæmt mati Halldórs, lág verðbólga stafar fyrst og fremst „af hagstæðum ytri skilyrðum“ og „á meira skylt við heppni en nokkuð annað“. Einkum komi þar til að styrking íslensku krónunnar hafi dregið úr kostnaði innlendra fyrirtækja. Án framleiðniaukningar sé hún þó ekki sjálfbær til lengri tíma, og hæpið að treysta á að hin hagstæðu ytri skilyrði, eða heppnin, endurtaki sig.
Halldór mælir að því sögðu með að farin verði „norræna leiðin“ í kjaraviðræðum, og segir hana einkum felast í að útflutningsgreinar leiði launaþróun frekar en hið opinbera, sem tryggi að hún fylgi þróun í framleiðni.
Lokaniðurstaðan glærukynningarinnar er að þrátt fyrir sögulega sterka stöðu efnahagsmála skuli launahækkanir vera hóflegar eða: „Hóflegar launahækkanir eru almannagæði“ eins og þar segir.