Frans páfi heimsækir Írland nú um helgina, síðustu helgi ágústmánaðar, eins og fram hefur komið. Heimsókn hans hefst á laugardagsmorgun og dvelur hann í landinu til sunnudags. Yfir heimsókninni hvílir skuggi kynferðisbrotamála innan kirkjunnar og kerfislægrar yfirhylmingar þeirra.
Í viðtali við fréttamenn bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar CBS í tilefni heimsóknarinnar, lýsti Liz Murphy yfirstandandi tímabili sem afar myrku. „Hér er myrkur inni í myrkrinu,“ sagði hún. „Þetta er vírus. Og lækning fæst ekki á næstu dögum.“ Víða í fjölmiðlum er Murphy titluð nunna og á ensku ber hún nafnbótina systir. Murphy er einnig aðalritari AMRI, reghnlífarsamtaka trúboða og klaustra á Írlandi, og þannig leiðtogi áhrifamikillar stofnunar í trúarlífi írskra kaþólikka.
Kaþólska kirkjan hefur sterkar rætur á Írlandi. Þegar Jóhannes Páll páfi II. heimsótti landið árið 1979 mætti um milljón manns til að hlýða á messu hans. Gert er ráð fyrir töluvert minni aðsókn í tilefni af heimsókninni nú, ekki síst vegna ósættis við hvernig páfagarður hefur tekist á við, eða ekki tekist á við, uppgötvanir um brot presta og stofnana kirkjunnar gegn konum og börnum.
Kvennablaðið birti fyrr í mánuðinum samantekt á grein Colms O’Gorman, formanns Írlandsdeildar Amnesty International, þar sem hann reifaði þau brot kirkjunnar á Írlandi sem ljóstrað hefur verið upp um á undanförnum árum.
Í viðtalinu við CBS lýsti Liz Murphy kaþólsku kirkjunni sjálfri sem svo: „Þetta er afar karllæg, einræðisleg stigveldisstofnun. Hver myndi ekki, sem kona, vilja sjá það hrynja?“
Hópur fólks meðal kaþólskra hefur tryggt sér miða á útimessu páfa til þess gagngert að mæta ekki. Ætlun þeirra er að mótmæla aðgerðaleysi kirkjunnar með fjarveru sinni og, ef þátttaka í aðgerðinni er næg, tilfinnanlegu og sýnilegu fámenni.