Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Formaður innflytjendaráðs hvatti til að flóttafólk yrði skotið

$
0
0

Formaður innflytjendaráðs, eða ígildis þess, í sveitarfélaginu Faxe í Danmörku, skoraði um helgina á spænsk stjórnvöld að skjóta það fólk sem kemur til Spánar í óskráðri för. Flokksfélagar Petersen í Danska þjóðarflokknum vörðu ummælin. Síðla mánudags urðu þau engu að síður til þess að maðurinn sagði af sér formennsku.

Til að „stöðva innrásina“

Steen Petersen er meðlimur Danska þjóðarflokksins og var, þar til nú á mánudag, formaður innflytjendaráðs, nánar til tekið „aðlögunarnefndar innflytjenda“ í Faxe, 35.000 íbúa sveitarfélagi á Sjálandi. Um nýliðna helgi segist Petersen hafa lesið grein um það að förufólk þvingi sér leið til Evrópu í landamærabænum Ceuta í Norður-Afríku. Ceuta er yfirráðasvæði Spánar á því landsvæði sem annars tilheyrir Marokkó. Á Facebook skrifaði Petersen af því tilefni að hann vilja hvetja spænsku lögregluna til að beita skotvopnum til að „stöðva innrásina“. Við þetta bætti hann að lögreglumennirnir skkyldu „skjóta til að hitta“.

Fyrsta útgáfa færslunnar var knöpp en þar skrifaði Petersen:

„Af hálfu aðlögunarnefndar sveitarfélagsins Faxe skora ég hérmeð á spænsku lögregluna til að beita skotvopnum til að stöðva innrásina. Lögreglumenn skulu skjóta til að hitta.“

Eftir birtingu virðist Petersen hafa snúist hugur um formlegheitin og hætt við að beita Facebook sem vettvangi til að gefa spænskum lögregluyfirvöldum fyrirmæli —í krafti embættis síns sem nefndarformaður í bæjarfélagi á Sjálandi. Lengdist þá færslan nokkuð. Meginatriði hennar héldust þó og eftir sem áður skrifaði Petersen fullan embættistitil sinn undir lokaútgáfuna:

„MVH Steen Petersen, DF-Formand for Beskæftigelses- og Integrationsudvalget i Faxe Kommune“.

Færslan var loks fjarlægð af Facebook fyrir hádegi á mánudag.

Vildi bregðast við vantrausti í garð stjórnmálanna

Fréttastofa sjálensku sjónvarpsstöðvarinnar TV ØST virðist hafa verið fyrst til að setja sig í samband við Petersen vegna málsins, um liðna helgi. Í viðtali stöðvarinnar við Petersen segist hann standa við orð sín. Hann segir að sér finnist rétt að hann setji þau fram, ekki aðeins sem persónulega skoðun, heldur í krafti embættis síns:

„Ég gæti skrifað að þetta væri aðeins persónuleg afstaða mín, en ég gegni embætti og nú ríkir vantraust í garð stjórnmálamanna fyrir að gera ekkert í þessum vandamálum. Svo ég vildi sýna borgurunum að það geri ég.“

Fulltrúar Sósíaldemókrata og hægriflokksins Venstre í aðlögunarnefndinni sem Petersen veitti formennsku tóku ekki undir þetta mat formannsins, heldur kröfðust þess að bæjarstjóri Faxe viki Petersen úr embættinu og skipaði þegar í stað nýjan formann. Bæjarstjóri Faxe er sósíasdemókratinn Knud Erik Hansen. Eitthvað í þessa veru hefur orðið úr: Petersen er frá og með mánudegi ekki lengur formaður nefndarinnar.

Danski þjóðarflokkurinn lýsti yfir stuðningi

Áður en til þess kom að Petersen vék sæti brást Danski þjóðarflokkurinn í Faxe við gagnrýni á orð hans með því að lýsa yfir stuðningi við hann. Oddviti flokksins í sveitarráði sagði orðaval Petersens hafa verið óheppilegt og geta misskilist:

„Hann talar um að skjóta til að hitta, en það sem Petersen og aðrir meðlimir trúa er að maður hafi rétt á og manni beri skylda til að verja sig. Með vopnum ef nauðsyn ber, en þá skal maður fylgja þeim almennu viðmiðum sem við eiga. Það er óheppilegt að hann hafi ekki skrifað að í fyrstu tilraun skuli skjóta viðvörunarskoti,“

sagði Nielsen við TV ØST.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283